Forystuhrútarnir Örn og Fálki á Bjarnastöðum í Öxarfirði. Annar er alveg kollóttur en hinn aðeins hnýflóttur, báðir stórir og myndarlegir. Þeir voru notaðir í vetur af nokkrum bændum sem vilja halda við kollótta forystufjárstofninum. Mynd / Halldís Grím
Fræðsluhornið 26. febrúar 2020

Kollótt forystufé

Daníel Hansen / Anna Eglund

Áhugi á forystufé hefur aukist á síðustu árum. Bændur nýta sér æ meira hæfileika fjárins til að hjálpa til við rekstur og fjárrag. Almennur áhugi jókst mikið þegar bókin Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp var endurútgefin.

Þá má segja að með tilkomu Fræðaseturs um forystufé hafi áhuginn einnig aukist enda eru þar miklar upplýsingar um forystufé og nú síðast með skemmtilegri ,,Facebook-síðu“.

Í bókinni Forystufé eftir Ásgeir frá Gottorp er safnað saman sögum af afrekum forystufjár í fortíðinni. Við lestur bókarinnar sjá lesendur fjallað um kollótt forystufé. Það var talsvert til af því áður fyrr. Víðast hvar á landinu dó það út við niðurskurð vegna mæðiveiki og riðu. Í Norðausturhólfi þar sem aldrei hefur verið skorið niður hefur alltaf verið talsvert um ræktun forystufjár og er svo enn. Allt forystufé í landinu á rætur sínar að rekja í Norðausturhólf, bæði í gegnum sæðingar og líffé sem þar hefur verið keypt. Á nokkrum bæjum í hólfinu voru til kollóttar forystukindur, auðvita ekki hreinkollóttar þar sem kollóttir forystuhrútar voru sjaldgæfir. Þó ekki hafi verið notaðir kollóttir forystuhrútar fæddust af og til kollótt forystulömb, aðallega gimbrar auk þess sem aðeins hefur verið um hnýflóttar ær.

Það er vitað að á nokkrum bæjum var þessu haldið við eins og á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, Bjarnastöðum í Öxarfirði, Miðfjarðar­nesi og Bakka í Bakka­firði og Strandhöfn í Vopnafirði. Um 1990 kom í Gunnarsstaði hyrndur mórauður forystuhrútur frá Bakka í Bakkafirði og var nefndur Liði. Hann var notaður lengi á Gunnarsstöðum og seinna á Bjarnastöðum. Hann var fínhyrndur og hefur því líklega verið arfblendinn. Hann er líklega forfaðir kollóttu forystukindanna á svæðinu í dag.

Á síðustu 3–4 árum hefur áhugi á kollóttu forystufé komið upp. Til voru kollóttir forystuhrútar í Miðfjarðarnesi og fóru bændur með sínar forystuær undir þá og nú eru til kollóttir forystuhrútar á nokkrum bæjum á þessu svæði. Þess ber þó að geta að þetta kollótta forystufé er flest með áhættuarfgerð gagnvart riðu og þarf því að huga vel að hvaða ær eru notaðar til undaneldis. Í hólfinu er búið að greina arfgerð gagnvart riðu í stærsta hluta forystufjárins. Mikilvægt er að huga vel að því að útrýma áhættuarfgerð úr forystufjárstofninum eins og verið er að gera í hinum fjárstofninum. Það tekur einungis 2–3 ættliði ef réttir foreldrar eru notaðir. Allir forystufjáreigendur geta látið greina arfgerð í sínu fé.

Spurningar hafa vaknað hvers vegna sé verið að standa í þessari ræktun á kollóttu forystufé. Kollótt forystufé hefur líklega alltaf verið til og er leiðinlegt ef það tapast alveg en vonandi tekst að bjarga því með þeim áhuga sem þessir bændur sýna. Eitthvað hefur verið um það að forystufé hafi verið blandað ferhyrndu fé en það er ekki algengt. Ekki eru til sögur af því. Sumir hafa gaman af slíkri ræktun og er öllum frjálst að gera það. Allir verða að fá að hafa sína sérvisku.

Mikilvægt er í ræktun á forystufé að það sé skráð í gagnagrunninn Fjárvís. Flest forystufé er skráð þar en eitthvað skortir þó á og eru fjáreigendur beðnir um að skoða hvort sitt fé er þar skráð sem forystufé. Það er auðveld aðgerð fyrir ráðunaut að laga slíkt en það skiptir miklu máli fyrir ræktunarstarf forystufjár að allt fé sé þar skráð, einnig arfblendið.

Forystufé er sér stofn með önnur ræktunarmarkmið en hinn fjárstofninn í landinu og reiknast því afurðir forystufjár ekki inn í útkomu hvers bónda. Vitað er að sumir bændur hafa haft forystufé utan skráningar í Fjárvís, m.a. til að það komi ekki inn í útreikninga. Þar sem þetta er annar stofn er hann ekki inni í útreikningum nema fjáreigendur tilgreini ekki forystufé sem slíkt.

Erlent