Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Karlamagnús – keisarinn með grænu fingurna
Á faglegum nótum 9. september 2016

Karlamagnús – keisarinn með grænu fingurna

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Kveð ég um kóng Pípin og Ólöfu dóttur hans stendur í gömlu, íslensku danskvæði sem sumir hafa reyndar sagt að sé sungið við færeyskt þjóðlag og er líklega eina íslenska lagið sem danskt hetjukvæði, „Paaskeklokken kimed mildt“ er tónsett við, ef marka má skrif séra Bjarna Þorsteinssonar.


En Pípin þessi átti enga Ólöfu fyrir dóttur, þ.e. ef átt er við Pípin stutta sem var kóngur yfir Frönkum um miðbik áttundu aldar. Með Bertu konu sinni og þar af leiðandi drottningu Franka meðan það varaði, átti hann tvær dætur að vísu en hvorug þeirra hét Ólöf. Einn son áttu þau konungshjónin líka. Sá hét Karl. Hann var fæddur í Hrútsmerkinu vorið 742. Um hann og kappa hans fjallar Karlamagnús saga sem Bjarni Vilhjálmsson ritstýrði og út kom í þrem bindum á vegum Íslendingasagnaútgáfunnar um árið 1950.

Sá texti er líklega mest raup og skrifaður sem innlegg í afþreyingariðnað síns tíma. Þar er ekkert sagt um plöntuáhuga og ræktunarfyrirskipanir hins mikla Karlamagnúsar. Heimilda af því tagi þarf að leita annars staðar.

Kóngur varð hann og keisari svo

Við fráfall föður síns varð Karl kóngur Franka árið 768. En Karl var stórhuga með mikinn útrásarvilja og hvað skipulagshæfileikana varðaði, hafa fáir staðið honum á sporði hingað til.

Rétt fyrir aldamótin 800 var hann búinn að leggja undir sig alla Vestur-Evrópu, frá Slésvík í norðri niður til Pýreneafjalla í suðri og frá Ermasundi í vestri til Adríahafs í austri.

Og sjálf Rómarborg í Lombarðalandi var í hans höndum með Vatíkaninu og páfadómi innanborðs. Og páfinn sem þá var í Róm, Leó þriðji, var í dálitlum vandræðum um þetta leyti. Austan við hann voru samkeppnisaðilarnir í Býsantískaríkinu, sem töldu sig vera hina einu og sönnu arftaka Rómaveldis og kristins rétttrúnaðar, alltaf að abbast upp á hann og heimafyrir hafði hann lítinn styrk að sækja til liðsmanna sinna, sem höfðu jafnvel gert misheppnaða tilraun til að stinga úr honum augun og skera úr honum tunguna. Samsæri gegn áhrifamönnum er semsé ekki nýtt fyrirbæri.

Leó slapp naumlega frá þeim og leitaði á náðir Karls konungs, sem þá hafði aðsetur í Padeborn í Vestfalíu. Og Karl sá sér leik á borði. Hét Leó páfa vernd sinni og tryggð og fékk hann til að stinga upp á að endurreisa vestrómverska ríkið sem hafði verið sundrað af Gautum nokkrum öldum fyrr og krýna sig auðmjúklegast til keisara þess. Með sig á keisarastóli gæti Leó bara ullað á rugludallana austan við Adríahafið og haldið heimamönnum í skefjum. Og það varð eftir. Leó fór heim til Rómar hress í bragði með styrk Karls að baki sér. Og tók svo á móti honum þar með kurt og pí árið eftir og krýndi hann sem keisara hins endurreista Rómaveldis á jóladag árið 800.

Við þessi umskipti þótti tilhlýðilegt að keisarinn bæri rómverskt nafn. Því bar Karl eftir þetta heitið Carolus Magnus, sem síðan hefur verið umskrifað á margan máta í fjölda tungumála. Hér á landi tölum við um Karlamagnús hvenær sem hann berst í tal. En á þessum tíma var engum til að dreifa hér uppi á Íslandi sem mært gat manninn. Eyjan hafði ekki einu sinni fengið varanlegt nafn. Það beið síðari tíma.

Að lesa og skrifa list er góð

Eftir að Karlamagnús var orðin keisari yfir svo gott sem öllu því landi sem nú er kjarninn í Evrópusambandinu, eftir Brexit, tók hann til óspilltra málanna við að innleiða samræmingar og heildaryfirbragð á öllu í ríki sínu. Ekki með reglugerðum frá rannsóknarnefndum eða öðru deildafargani eins og einkennir hina nútímalegu lýðræðisstjórnunarhætti Evrópusambands vorra tíma. Það var fjarri honum að finna upp á slíku, heldur beitti hann eigin hyggjuviti og skipulagshæfileikum. Hann virtist hafa augun alls staðar og ekkert fór framhjá honum. Minnstu smáatriði er vörðuðu klæðaburð, borðhald og eldamennsku leiðrétti hann eftir getu með mildi en festu. Hann skipaði fyrir um almenna lestrar- og skriftarkunnáttu. Gat vel lesið sjálfur en komst aldrei upp á lag með skriftina. Reyndi þó mikið að æfa hana og var með vaxspjöld undir borðum til að þjálfa sig í íþróttinni hvenær sem tóm gafst til. En varð lítið ágengt. Enn eru varðveittar nokkrar af tilraunum hans. Og svo auðvitað mýgrútur af dálítið klunnalegum staðalundirskriftum hans, þótt oftast léti hann innsiglið nægja.

Að sjálfsögðu hafði hann skrifara í þjónustu sinni. Þeir höfðu nóg að gera, því frá Karlamagnúsi streymdu úttektir og fororðningar um allt milli himins og jarðar. Oftast orðaðar sem mildilegar ábendingar sem enginn gat fengið af sér að fara ekki eftir. Allt var klippt og skorið, skýrt og augljóst. Enga lögfræðinga þurfti til að skýra út hvað í þeim fólst. Refsingar við óhlýðni voru ekki skráðar; menn gátu bara ímyndað sér óþægindin sem þeir myndu lenda í ef þeir hegðuðu sér ekki skikkanlega. Dags daglega minntu stjórnarhættir hans á barnauppeldi ábyrgs föður. Hann var ekki mikið að grípa inn í ef fólk fylgdi tilmælum hans í megindráttum. Engum þoldi hann þó að vaða reyk eða að tala í kring um hlutina í samtölum ('newspeak‘ hefur alltaf verið til!). Hann hlustaði vel og vildi staðreyndirnar umbúðalaust. Sjálfur var hann rökfastur í ræðu, ríflega meðalmaður á hæð, fremur grannholda og lá hátt rómur sem þótti nokkuð skrækur og hvinhljóma. Styrkur hann byggðist á mannblendni og persónulegu tengslaneti. Ætli það sé ekki kallað á nútímamáli að hann hafi haft mikla viðskiptavild.

Skattheimta útheimtir skipulag

Karlamagnús hélt úti voldugum her og góðum vopnabúnaði og hikaði ekki við að beita honum til að verja ríki sitt eftir landvinninga sína út og suður á yngri árum. Eða jafnvel bara til að laga útlínur þess, rétt eins og duglegur bóndi sem hefur séð út betra girðingarstæði. Reyndar hélt hann hernum í góðri æfingu með því að siga honum af og til á einhverja náunga sem honum líkaði ekki við. En sjálfur hélt hann sig við annað á meðan.

Vegna þess hve ríkið var stórt og víðáttumikið var Karlamagnús mikið á ferðinni og dvaldi sjaldan lengi á hverjum stað. Til eigin dvalar og íveru hafði hann nokkra tugi aðsetra vítt og breitt um ríki sitt. Ekki alltaf hallir, en samt ávalt vegleg hús með þaulræktuðum garði í námundanum. Aðsetrin voru í þorpum og bæjum sem voru einskonar stjórnstöðvar og mynduðu skipulagt net um allt ríkið.

Umboðsmenn ríkisins sáu um skattheimtu eftir vel gerðum úttektum á hverju svæði, mannfjölda og burðargetu. Hver eign, hús og innanstokkmunir voru skráð. Eins bústofn, áhöld, ræktunarland og uppskera. Skattheimtan tók mið af því og tiltekið hvað hver og einn ætti að leggja til skattsins.

Karlamagnúsi var umhugað um góða verkmennt og kom með athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara. Það gilti bæði um aðferðir og tól sem gátu aukið afköstin og þar með bætt skattstofninn. Skattheimtan var samt drjúg en byggð á einhverskonar sjálfbærnigrunni. Aldrei var krafist meira en svo að almennum efnahag var haldið góðum og vaxandi. Framfarir og menning blómstruðu hönd í hönd og lögðu grunninn að vesturevrópskri menningu eins og við þekkjum hana nú. Aðeins Norðurlönd og Bretlandseyjar stóðu utan við hið vestrómverska ríki Karlamagnúsar. Og svo auðvitað Spánn og Portúgal þar sem Márar réðu lögum og lofum. Hann gafst upp á að eiga við þá.

Kristin kirkja og klaustur

Karlamagnús hafði lofað Leó páfa að breiða út kristni, sem var auðvitað af rómversk-kaþólsku gerðinni, um allt ríkið. Og hann var maður orða sinna, og slyngur sölumaður hlýtur að vera, því að á þeim fjórtán árum sem hans naut við á stóli hins vestrómverska keisara var kristni komið á um allt ríkið. Eitthvað hjálpaði þó herinn til. Aðeins í nokkrum afdölum þybbuðust menn við og héldu sig við forna hætti. En svosem ekki lengi, því um það bil öld síðar var öll Vestur-Evrópa kristið landsvæði og rómverska kirkjan byrjuð að teygja sig yfir til Norðurlanda.

Og Karlamagnús bætti um betur með því að stuðla að og styrkja klausturuppbyggingar um allt ríki sitt. Klaustrin sá hann sem setur menntunar, líknar og félagsþjónustu. Fyrir svo utan bænastarfsemina og kristnihaldið, sem kannski var nú aðaltilgangurinn, væri páfinn í Róm spurður. Og jafn praktískur sem Karlamagnús var í hugsun lagði hann margt til málanna um byggingu, umbúnað og frágang klaustranna. Einkum garðyrkjuhliðina. Sjálfur var hann mjög áhugasamur um jurtir, ræktun þeirra og notagildi. Jafnvel svo að hann átti það til að henda sér á hnén til að róta í moldinni og huga að gróðrinum líkt og nafni hans Karl Bretaprins ber fyrir sig á okkar dögum.

Á þaki garðmeistarans skal húslaukur vaxa

Ekki lét Karlamagnús deigan síga með fyrirmælin þegar kom að garðyrkjunni. Eftir hann liggur listi yfir þær plöntur sem hann vildi hafa í görðum sínum. Þar nefnir hann yfir sjötíu tegundir jurta af ýmsu tagi, skrautjurtir, matjurtir, kryddjurtir og lyfjagrös auk ávaxtatrjáa af öllum gerðum. Og garðyrkjumaðurinn skal hafa sérstakt hús til íbúðar í garðinum, sagði hann, því þá getur hann vaktað garðinn allan sólarhringinn. Og þakið á húsi hans á að vera vaxið húslauk (þaklauk). Svipað fyrirkomulag og plöntuval fyrirskipaði hann við klaustrin.

Útbreiðsla klaustranna, og sú ræktunarsaga sem fylgdi þeim, á sinn þátt í þeirri garðyrkju og þjóðmenningu sem enn er við lýði um alla Vestur-Evrópu að viðbættum þeim tegundum sem fóru að berast að eftir að Evrópumenn fóru að gera sér ferðir um aðra heimshluta. Vissulega hefur ræktunartækninni fleygt fram með gróðurhúsum, tilbúnum áburði og öðrum tækninýjungum. En grunnurinn er í stórum dráttum hinn sami. Við erum enn að rækta þær tegundir sem Karlamagnús tiltók og mælti með á plöntulistum sínum fyrir tólf öldum. Jafnvel á Íslandi. Meira um það í næsta tölublaði.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...