Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kaffi – svart og sykurlaust
Á faglegum nótum 23. júlí 2015

Kaffi – svart og sykurlaust

Höfundur: Vilmundur Hansen

Á eftir hráolíu er kaffi verðmætasta varan í milliríkjaviðskiptum í heiminum. Gróft áætlað eru drukknir um 500 milljarðar kaffibolla í heiminum á ári. Mest er neytt af kaffi í ríkustu löndum heims en framleiðslan er mest í löndum sem flokkast sem þróunarríki.

Kaffi er framleitt í nánast öllum löndunum í kringum miðbaug. Áætluð heimsframleiðsla á kaffibaunum árið 2014 var tæplega tíu milljón tonn. Stærstu framleiðslulöndin eru Brasilía 2,9 milljón tonn það ár, Víetnam 1,6 milljón tonn er í þriðja sæti með um helmings framleiðslu á við landið í öðru sæti sem er Kólumbía, 750 þúsund tonn. Indónesía er í fjórða sæti og framleiðir 540 þúsund tonn og Eþíópía er í því fimmta og framleiddi árið 2014 tæp 400 þúsund tonn af kaffibaunum. Í sjötta til tíunda sæti eru Indland, Hondúras, Mexíkó, Úganda og Gvatemala sem framleiddu frá 345 niður í 210 þúsund tonn árið 2014.

Í Brasilíu þar sem framleiðslan er mest er áætlað að um 27.000 hektarar lands fari undir kaffibaunaframleiðslu.

Kaffi er í tíunda sæti þegar kemur að magni í milliríkjaviðskiptum fyrir mat- og drykkjarvöru og mest verslaða drykkjarvara heiminum. Áætluð heimsvelta með kaffi er rúmlega 15 milljarðar bandaríkjadalir, eða rúmlega 2000 milljarðar íslenskar krónur. Til samanburðar er talið að bygging nýs Landspítala með öllum tækjum kosti minna en 100 milljarða króna.

Kaffi kemur næst á eftir hráolíu að verðmæti milliríkjaviðskipta í heiminum og verslun milli landa að verðmæti er meira í kaffi en með gull og sykur.

Mest er neytt af kaffi í ríkustu löndum heims en framleiðslan er mest í löndum sem flokkast sem þróunarlönd.

Stærsti útflytjandi kaffibauna í heiminum er Brasilía sem flytur út um 1,8 milljón tonn á ári en aðrir stórútflytjendur eru þeir sömu og í sömu röð og stærstu framleiðendurnir. Löndin sem tilheyra Evrópusambandinu sem heild flytja inn mest af kaffi en næst á eftir fylgja Bandaríkin og Japan.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam heildarinnflutningur á kaffi í öllum hugsanlegum myndum; brennt, óbrennt, koffínkaffi og koffínlaust, kaffilíki, kraftur eða seyði úr kaffi eða kaffirót, til Íslands árið 2014 tæpum 2.442 tonnum.

Finnar drekka mest kaffi

Gróf áætlun gerir ráð fyrir að samanlögð neysla á kaffi í heiminum sé um 500 milljarðar kaffibolla á ári. Í heild drekka Bandaríkjamenn allra þjóða mest af kaffi. Heimildum ber ekki saman um hvort Finnar, Svíar eða Hollendingar séu þjóða öflugastir þegar kemur að kaffiþambi en neysla í þeim löndum er um 10 kíló af baunum á mann á ári sem er um 2,64 bollar á dag. Norðmenn neyta um 7,2 kíló á ári, Slóvenar 6,1 og Austurríkismenn nota að meðaltali 5,5 kíló af kaffibaunum á ári.
Dýrast mun vera að drekka kaffi í Japan, á Ítalíu, Portúgal, Kýpur, Austurríki og í Danmörku.

Mávastellskaffibolli heima í eldhúsi tekur um 100 millilítra af kaffi en fæstir láta sér nægja einn slíkan eða tíu dropa eins og stundum er sagt. Samkvæmt heimsmetabók Guinness innihélt stærsti skráði kaffibolli í heimi 14.228 lítra af kaffi. Bollinn var fylltur í Suður-Kóreu 17. júlí árið 2014.

Ættkvíslin Coffea

Í ættkvíslinni Coffea finnast rúmlega 130 tegundir plantna sem flestar eru runnar eða smávaxin tré og vaxa í hitabelti Afríku og Asíu. Þrátt fyrir að allar tegundirnar þroski ber sem má þurrka og mala og búa til úr kaffi eru tvær tegundir algengastar til kaffiframleiðslu.

Ræktun á Coffea arabica stendur undir tæplega 80% af allri kaffiframleiðslu í heiminum, C. canephora / C. robusta um 20%, og þá aðallega sem skyndikaffi. Kaffi úr öðrum tegundum ættkvíslarinnar eru nánast aðallega framleiddar fyrir forvitni sakir.

Upprunaleg heimkynni C. arabica eru í Eþíópíu en C. canephora í löndunum við vestanverða Sahara.

Kaffi frá Eþíópíu

Sagan segir að geitahirðir í fjalllendi Eþíópíu hafi fundið upp kaffi eftir að hafa fylgst með ærslagangi geitanna sinna eftir að þær borðuðu ber af kaffirunna. Í framhaldinu tíndi hann nokkur ber, sem við köllum í daglegu tali baunir, af runnanum og sauð í vatni. Þegar hann drakk seyðið fann hann þróttinn magnast og geðið lyftast. Kaffi var komið til að vera og í dag hefur kaffiplantan gert sig heimakomna víða í Afríku, Mið- og Suður-Ameríku, suðaustur-Asíu, Kína og á eyjum í Karíba- og Kyrrahafi.

Grasafræði og útlit

Eþíópíska kaffiplantan, C. arabica, er með trefjarót og getur náð allt að tólf metra hæð við bestu skilyrði en plöntur til kaffibaunaræktunar eru frá tveimur til fimm metra á hæð. Greinarnar eru útstæðar. Blöðin gagnstæð og aflöng, bylgjótt, heilrennd, stinn viðkomu og allt að tólf millimetra löng og átta millimetra breið, dökkgræn og gljáandi. Blómin ilmsterk, tvíkynja, hvít og vaxa út úr blaðöxlunum en standa stutt, blóm á fullvöxnu kaffitré í fullum blóma geta verið á fjórða tug þúsunda. Aldinið er samkvæmt grasafræðinni ber með tveimur fræjum, 10 til 15 millimetrar að lengd, fyrst grænt en roðnar við aukinn þroska. Aldin kaffiplöntunnar kallast baunir í daglegu máli og verður þeim vana haldið eftirleiðis í þessum texta.

Kaffiplöntur eru annaðhvort ræktaðar af fræi eða græðlingum þegar halda á við ákveðnum yrkjum.

Við miðlungsgóð skilyrði tekur það plöntuna fimm til sjö ár að ná þeim þroska að gefa af sér baunir. Tréð er langlíft og gefur af sér uppskeru í 50 til 60 ár að jafnaði en til eru plöntur sem gefa enn vel af sér eftir 100 ár. Það tekur níu mánuði frá því að plantan blómstrar og baunin nær fullum þroska. Baunirnar geymast vel eftir að þær hafa verið þurrkaðar.

Ræktun og umhirða

Kaffiplantan er ræktuð í hitabeltinu frá sjávarmáli upp í 2800 metra hæð en þrífst best í 1300 til 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Kjörhitastig plöntunnar er 15 til 24° á Celsíus og hún kýs að vaxa í hálfskugga og eilítið súrum jarðvegi. Hún er þurftarfrek á vatn og þrífst best þar sem meðalársúrkoma er einn til einn og hálfur metri. Samkvæmt útreikningum þeirra sem láta sig svokölluð vatnsspor varða þarf 140 lítra af vatni til að rækta kaffið sem fer í einn kaffibolla.

Þar sem hvert tré getur myndað tugþúsundir blóma og bauna eru þau grisjuð reglulega í ræktun til þess að koma í veg fyrir að hver baun verði of smá. Hæfileg uppskera af þurrkuðum baunum af einu tré er breytileg frá hálfu og upp í fimm kíló eftir yrkjum. Magn kaffeins í baunum villtra kaffiplantna í Eþíópíu er lágt en með framræktun hefur tekist að auka það töluvert.

Í löndum eins og Java gefur plantan aldin allt árið en við kaldari skilyrði er uppskeran árstíðabundin.

Sjúkdómar og varnir

Líkt og í annarri stórræktun herja alls kyns pöddur, jarðvegsormar, veirur, bakteríur og sveppir á alla hluta kaffiplöntunnar. Notkun á skordýraeitri við ræktunina er því gríðarlega mikil þrátt fyrir að notkun á lífrænum vörnum sé alltaf að aukast.

Útbreiðsla og heimsyfirráð

Heimildir eru til um ræktun á kaffi í Egyptalandi og Tyrklandi á 12. öld enda var neysla þess fyrst almenn meðal araba og barst frá þeim út til annarra landa heims. Fyrstu skráðu heimildirnar um brennt og malað kaffi eru á arabísku og þar er sagt að neysla þess geri fólki kleift að lengja vinnudaginn umtalsvert.

Fram á 15. öld var kaffi hluti af helgihaldi súfista í Jemen en þá bönnuðu kristnir valdhafar kaffidrykkju í landinu og stóð það bann fram á miðja 19. öld. Kaffi var einnig bannað á tímum Ottomanna í Tyrklandi á 17. öld af pólitískum ástæðum þar sem það var sagt valda óróa og uppþotum.

Arabar hófu fyrstir manna verslun með kaffi og á 15. öld höndluðu þeir með það frá Mið-Austurlöndum til Indlands. Kaffi sem þeir seldu voru baunir sem voru gerðar ófrjóar með suðu. Sagan segir að súfistinn Baba Budan hafi smyglað frjóum kaffibaunum til Indlands 1670 með því að líma þær undir handarkrikann á sér.

Ræktun kaffis hófst í Indónesíu 1699 og barst þaðan til eyjanna Súmötru og Java og varð smám saman algeng í löndunum allt í kringum miðbaug.

Kaffi barst til Feneyja frá Norður-Afríku og þaðan hratt til Ítalíu og um Evrópu þrátt fyrir að Klemens VIII páfi hafi reynt að banna þann illa múslimadrykk árið 1600. Fyrsta kaffihúsið í Evrópu var opnað í Róm árið 1645.

Hollendingar voru þjóða fyrstir til að hefja innflutning á kaffi í stórum stíl árið 1711 og það gerðu þeir frá Java og Sri Lanka.

Kaffiplantan barst til Ameríku skömmu eftir að siglingar hófust þangað en í fyrstu voru vinsældir þess takmarkaðar. Eftirspurnin í Norður-Ameríku óx eftir frelsisstríð Bandaríkjanna 1775 til 1783.

Ræktun á kaffi hófst í Brasilíu 1727 en var takmörkuð fyrstu hundrað árin eða svo. Stórræktun á kaffi þar í landi hófst 1822 þegar fyrstu frumskógarnir voru ruddir í stórum stíl til að rækta kaffibaunir. Frá þeim tíma hefur gríðarlegt skóglendi verið rutt í Suður- og Mið-Ameríku og kaffiplöntum verið plantað í staðinn. Auk þess sem ræktunin hefur haft í för með sér eyðileggingu á búsvæði innfæddra. 

Kaffi á Íslandi

Elsta þekkta heimild um kaffi á Íslandi er frá 1702 og er að finna í bréfi sem Lárus Gottrup, lögmaður á Þingeyrum, skrifaði Árna Magnússyni handritasafnara um haustið. Sumarið áður höfðu þeir átt samtal á Alþingi og Árni kvartað sárt yfir kaffileysi en hann mun hafa verið tíður gestur á kaffihúsum í Kaupmannahöfn þegar hann dvaldi þar. Á Kaupmannahafnarárunum lét Árni sérsmíða fyrir sig kaffikönnu úr silfri sem hann hafði með sér heim. Í böggli sem bréfi fylgdi sendi lögmaðurinn Árna fjórðungspund af kaffi.

Vitað er að danskir embættis­menn hér á landi helltu reglulega upp á kaffi fyrir miðja 18. öld og að íslenskir samverkamenn þeirra tóku upp þann sið um 1760. Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson höfðu með sér kaffikvörn þegar þeir ferðuðust um landið 1752 til 1757. 

Kaffibaunir koma fyrst fyrir í verðskrám árið 1776. Innflutningur á kaffi jókst lítið í fyrstu en á árunum 1819 til 1840 nífaldaðist hann úr tæpum 5 tonnum í 44 tonn á ári. Næstu árin jókst innflutningur enn meira og nam 152 tonnum árið 1849 og  213 tonnum 1855.

Séra Ólafur Sívertsen í Flatey sagði í bréfi árið 1849: „Nú er varla sá kotbær til vestra, að ei gángi kaffi svo að kalla jöfnum höndum með matarnautn, sumstaðar tvisvar, ef ei þrisvar, á dag, og eptir því sterkt. Allvíða er svo lángt komið kaffidrykkju, að vegfarendur eða sjófarendur þykja ósvinni, bíði þeir ekki eptir kaffi, hvernig sem stendur á sjó eða veðri. Bóndinn getur vart til verka sagt, fyrr en hann hefur hrest sig á drykk þessum, og verkamaðurinn því síður til vinnu geingið, fyrr en búið er að hýrga hann á kaffi-bollanum.“

Undir 1830 var farið að bera á að eignaminni bændur kaupi sér kaffistell og árið 1833 þótti sæta tíðindum þegar Arnfríður Guðmundsdóttir og Magnús bróðir hennar á Finnbogastöðum í Trékyllisvík sameinuðust um að kaupa kaffiketil og kaffikvörn. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...