Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hreindýr á Íslandi í tæp 250 ár
Á faglegum nótum 16. desember 2016

Hreindýr á Íslandi í tæp 250 ár

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hreindýr voru útbreidd um alla Evrópu fyrir ísöld en hörfuðu norður þegar ísaldarjökullinn hopaði. Í dag finnast þau, aðallega tamin, um allt norðurhvel jarðar. Fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands fyrir tæpum 250 árum samkvæmt konunglegri tilskipun til að efla íslenskan landbúnað.

Hreindýr finnast um allt norðurhvel jarðar. Á Íslandi, í Noregi, norðurhluta Svíþjóðar og Finnlands, á Svalbarða, í Rússlandi og Síberíu allt til Kyrrahafs, í Norður-Ameríku, á Grænlandi, í Kanada og Alaska.
Talið er að hreindýr í heiminum séu um sjö milljón en þeim fer fækkandi. Um tvær milljónir finnast í Norður-Ameríku og fimm milljónir í Evrópu og Asíu.

Tamin hreindýr er að finna um allt norðurhvel en villt í Norður-Ameríku og á Grænlandi og eru það einu núlifandi villtu hreindýrin auk lítilla hjarða til fjalla í Skandinavíu og í Síberíu. Hreindýrin á Íslandi eru afkomendur taminna norskra hreindýra en lifa sem villt í dag.

Hreindýr eru hjartardýr og vel aðlöguð lífinu á norðurslóðum í kulda og snjó að vetrarlagi og ferðast villt dýr milli beitarsvæða á vorin og haustin. Þau eru ferfætt klaufdýr, jurtaætur og jórturdýr sem bíta grös, blómplöntur, víði- og birkilauf, fléttur, starir, lyng, sveppi. Á veturna krafsa þau upp snjóinn til að komast að fæðu, sem aðallega eru fléttur og skófir.

Hreindýrahjarðir eru misstórar eftir árstímum og fullorðnir tarfar eru oft einir á ferð utan fengitímans. 

Útbreiðsla og undirtegundir

Hreindýrum, Rangifer tarandur, er skipt í tvo megin hópa, skógarhreindýr og túndruhreindýr. Skógarhreindýr lifa á syðri mörkum útbreiðslu hreindýra og er búsvæði þeirra í barrskógum og skóglendi. Túndruhreindýrin halda sig norðar á heimskautaeyjum og á freðmýrum norðurhjarans.

Innan hvors hóps er að finna nokkrar undirtegundir.

Skógarhreindýr (R. tarandus caribou), fundust áður á túndrum og skógarsvæðum í norðurhluta Norður-Ameríku allt frá Alaska í vestri til Nýfundnalands í austri og allt suður til Nýja-Englands. Þau eru horfin af stærstum hluta þessa svæðis og eru alls staðar í útrýmingarhættu nema í norðurhluta Quebec og Labrador í Kanada.

Heimskautahreindýr (R. tarandus eogro­enlandicus) var undirtegund á Austur-Grænlandi fram að aldamótum 1900 sem nú er útdauð.

Finnsk skógarhreindýr (R. tarandus fennicus), er að finna í suðurhluta Finnlands og í Norður-Rússlandi og í Síberíu.

Grant hreindýr (R. tarandus granti) er að finna í Alaska og Yukon og Norðvesturhéruðum Kanada.
Grænlandshreindýr eða túndruhreindýr (R. tarandus groenlandicus), er að finna í Nunavut og Norðvesturhéruðum Kanada og á Vestur-Grænlandi.

Peary hreindýr (R. tarandus pearyi), er að finna í eyjunum í norðurhluta Nunavut og Norðvesturhéruðum Kanada.

Svalbarðahreindýr (R. tarandus platyrhynchus), er að finna á Svalbarðseyjum. Þessi hreindýr eru minnst af öllum hreindýrategundum og sýna rannsóknir að þau fari minnkandi.

Villihreindýr (R. tarandus tarandus) er að finna í litlu hópum í Skandinavíu, Norður-Síberíu og Norður-Kanada.

Ásýnd og meðganga

Mikill munur er á stærð dýra eftir undirtegundum og eru kýr yfirleitt minni og léttari en tarfar. Þungi tarfa í Skandinavíu er 160 til 185 kíló en kúa 80 til 120 kíló. Tarfar í Norður-Ameríku geta aftur á móti náð allt að 300 kílóum að þyngd. Lengd dýra er frá einum og hálfum upp í rúmlega tvo metra og hæð við herðakamb 80 til 120 sentímetrar. Í íslenska stofninum er þungi tarfa 80 til 100 kíló og kúa 60 til 80 kíló.

Feldur hreindýra er í tveimur lögum með slétt stutt undirhár og löng yfirhár. Hárin eru hol að innan, þétt og einangrandi. Hreindýr geta haldið jöfnum líkamshita niður í -40° á Celsíus. Litur feldarins er breytilegur milli stofna en oftast dökkleitur á sumrin en ljósari á veturna.

Báðum kynjum hreindýra vaxa horn sem dýrin fella árlega. Í vexti eru hornin mjúk og klædd mjúkri og æðaríkri húð. Fullvaxin harðna hornin og falla af dýrunum. Stærð horna er mismunandi milli undirtegunda en geta orðið um metri að lengd og með 130 sentímetra hafi hjá stórum törfum.
Hornin eru stöðutákn hjá báðum kynjum. Tarfarnir nota hornin til að sýna mátt sinn og megin um fengitím­ann og á veturna nota kýrnar þau til að hrekja keppinauta frá fæðu. Kýrnar fella hornin eftir burð. Eftir missinn sleikja kýrnar og naga hornin og fá úr þeim kalk sem fer til mjólkurmyndunar handa kálfunum. Sum hreindýr fá aldrei horn og eru um 4% hreinkúa á Íslandi kollóttar.

Fengitími hreindýra er í september og nóvember og eru 15 til 20 kýr í hjörð ríkjandi karldýra. Meðgöngutími hreinkúa er um sjö og hálfur mánuður og fjöldi kálfa einn eða tveir. Kálfarnir verða að mestu sjálfbjarga 45 dögum eftir burð en fylgja móður sinni og eru á spena fram á haust eða þar til kýrnar kelfast á ný. Hreindýr verða kynþroska á öðrum til þriðja vetri.

Hreindýr eru frá á fæti og geta hlaupið á allt að 80 kílómetra hraða á klukkustund og ferðast fótgangandi yfir 50 kílómetra á sólarhring. Hreindýr fljóta vel í vatni og taka oft langa sundspretti yfir ár og vötn.

Minjar og nafnafræði

Lítið er til af beinum eða öðrum minjum hreindýra og elsta hreindýrabein sem fundist hefur er frá því fyrir um 4.400 árum. Þrátt fyrir það er vitað að hreindýr voru útbreidd um alla Evrópu á ísöld en hörfuðu norðar eftir því sem hlýnaði og ísaldarjökullinn hopaði.

Hreinkýr kallast simla en karldýrin hreinn en oftast er notast við heitin tarfur og kýr. Simla kemur úr norsku og mun orðið hafa borist hingað sem heiti á fyrstu hreindýrskúnum sem fluttar voru til landsins. Heitið hreinn er komið úr frumgermönsku, hrainaz, og það orð úr indóevrópsku, kroinos, sem þýðir dýr með horn. Á samísku eru yfir 400 heiti á hreindýrum og þau meðal annars kölluð poatsoj, boazu, boatsoj og puásui og eitt af heitum  Ínúítar í Norður-Ameríku á hreindýrum er tuktu.

Svíinn Carl Linnaeus, upp-hafsmaður latneska tvínafnakerfisins, gaf hreindýrum heitið Rangifer tarandur upp á latínu. Tarandus merkir sá sem ber horn eða hornberi.

Nytjar á hreindýrum

Hellamyndir í Frakklandi sem taldar eru vera um 45 þúsund ára gamlar sýna menn á hreindýraveiðum. Erfitt hefur reynst að ákvarða hvenær menn tóku hreindýr fyrst í sína þjónustu. Þeir sem láta sig slíkt varða telja það hafa verið Evrasíu fyrir þrjú til sjö þúsund árum.

Elstu rituðu heimildir um hreindýr eru kínverskar  ræktunarleiðbeiningar frá því um 450 fyrir Krist. Í öðru kínversku riti frá því um 630 eftir Krist er sagt frá tömdum hreindýrum sem fólk hélt í skóglendi í norðurhéruðum Kína. Þar segir að kýrnar séu mjólkaðar, dýrunum beitt fyrir vagna og kjötið af þeim borðað.

Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir frá því í sagnfræðiriti frá því um 100 eftir Krist að fólk í norðanverðri Evrópu veiði hreindýr og klæðist hreindýraskinnum.

Sovéski herinn notaði hreindýr sem burðar- og dráttardýr til að flytja vistir til Múrmansk og bera særða hermenn af snævi þöktum vígvöllum vetrarstríðsins við Finna í seinni heimsstyrjöldinni.

Í dag gegna hreindýr veigamiklu hlutverki í lífi frumbyggja á Norðurhveli sem fæða, klæði og burðardýr. Skinnin eru dýrmæt verslunarvara og úr hornum og beinum eru smíðaðir nytjahlutir og skrautmunir. Hornin eru möluð í duft og duftið selt sem ástarörvi í Asíu.

Hreindýrakjöt er þurrkað, reykt og saltað til geymslu. Hreindýrabollur og hamborgarar eru vinsæll matur í Skandinavíu og í Alaska þykir hreindýrabjúga hátíðarmatur.

Jólasveinninn og hreindýrin

Hugmyndin um að jólasveinninn ferðist um á sleða sem dreginn er af hreindýrum yfir himininn kom fyrst fram á prenti í kvæði sem birtist í bandarísku tímariti árið 1823. Kvæðið, sem nefnist Account of a Visit from St. Nicholas, hefur haft mikil áhrif á hugmyndir manna um jólasveininn, útlit hans, hegðun og ferðamáta. Í kvæðinu eru hreindýrin níu og kallast Dasher, Dancer, Prancer, Vixen, Comet, Cupid, Dunder, Blixem, Dunder og Donder.

Í kvæðinu er hvergi getið um hreindýr jólasveinsins sem þekktast er í dag og kallast Rúdolf með rauða nefið. Rúdolf kom fyrst fram á sjónarsviðið í jólasögu rúmri öld síðar. Sennilega á Rúdolf vinsældum sínum að þakka laginu Rudolph the Red Nosed Reindeer sem er eitt vinsælasta jólalag í heimi.

Hreindýr á Íslandi

Hugmynd um að flytja hreindýr til Íslands var líklega fyrst sett fram af Páli Vídalín í lok 17. aldar. Þrátt fyrir að ekkert yrði af innflutningi dýranna á þeim tíma lifði hugmyndin. Tæpri öld síðar, eða fyrir tæpum 250 árum, voru fyrstu hreindýrin flutt til landsins samkvæmt konunglegri tilskipun og áttu dýrin að efla íslenskan landbúnað.

Hreindýrin komu frá Finnmörku í Noregi í fjórum hópum frá 1771 til 1787. Samhliða innflutningi hreindýranna kom upp sú hugmynd að flytja hingað samíska fjölskyldu til að sinna dýrunum og kenna Íslendingum hjarðbúskap.

Í fyrsta hópnum voru 13 eða 14 dýr sem komið var fyrir í Vestmannaeyjum árið 1771 þar sem helmingur þeirra drapst á fyrsta ári. Dýrin sem lifðu voru flutt og komið fyrir á Landeyjasandi. Þrjú dýr, tvær kýr og tarfur, lifðu og voru flutt að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Mest náðist af fjölga þeim í sextán dýr sem að lokum drápust í móðuharðindunum 1783.

Árið 1777 voru sex tarfar og 24 kýr sendar til landsins en eitt dýranna drapst á leiðinni. Þessum dýrum var sleppt í landi Hvaleyrar við Hafnarfjörð. Dýrin héldu til í fjallendi á Reykjanesskaga og náði stærð hjarðarinnar nokkur hundruð dýrum. Sú hjörð sást þar allt til aldamótanna 1900 en síðasta dýrið úr henni sást við Kolviðarhól um 1930.

Þriðja sending hreindýra barst til landsins ári 1784. Í þeirri sendingu voru 35 dýr sem var sleppt á Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Þessum dýrum vegnaði vel fyrstu árin og dreifðu sér inn á hálendið og fjölgaði hratt og var hjörðin komin í um 400 dýr við lok átjándu aldar. Mörg þeirra féllu í harðindavetri árið 1822. Það sem eftir var hjarðarinnar hélt sig norðan og norðaustan við Mývatn næstu áratugina og náði hjörðin 2000 dýrum. Þaðan dreifðust hreindýrin til austurs inn á Melrakkasléttu, í Þistilfjörð og Langanesheiði allt til ársins 1860. Eftir það tók dýrunum að fækka og voru aðeins nokkrir tugir þeirra eftir um aldamótin 1900.

Í fjórðu og síðustu sendingu hreindýra til landsins, árið 1787, voru 30 kýr og fimm tarfar og þau dýr voru sett í land við Vopnafjörð. Sá hópur hefur dreift sér um hálendið á Austurlandi og allt að Jökulsá í Lóni. Talið er að dýrin úr þriðju sendingunni hafi sameinast þessum hópi og eru þeir sameiginlega forverar hreindýra á landinu í dag.

Ekki mælt með hreindýraeldi

Hér á landi hafa hreindýr nánast eingöngu verið nýtt sem villt. Fyrir nokkrum árum var skipaður starfshópur til að kanna möguleika á stórfelldum hreindýrabúskap á Íslandi. Niðurstaða hópsins var að mæla ekki með því að tekið verði upp hreindýraeldi eða stórfelldur hreindýrabúskapur ef á sama tíma eigi að standa vörð um villtan stofn hreindýra í landinu.

Sumarstofn hreindýra á Íslandi er milli 6.000 og 7.000 dýr en árlega eru felld 1.200 til 1.300 dýr samkvæmt kvótakerfi og með sölu veiðileyfa. Hreindýrakjöt er eftirsótt enda bragðgott og sannkallaður hátíðarmatur. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...