Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Garðahlynur – bolurinn dýri.
Garðahlynur – bolurinn dýri.
Á faglegum nótum 4. apríl 2016

Hlynir – kjörviðir fínsmiðanna

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason
Til hlynsættkvíslarinnar sem nú er talin til Sápuberjaættar, Sapindaceae, teljast um 160 tegundir sem dreifðar eru vítt um Norðurhvel, allt frá fjalladölum S-Asíu og Mið-Ameríku norður til Alaska, Noregs og Síberíu. Steingerðar leifar hlynlaufa hafa fundist í íslenskum surtarbrandslögum. Á hlýjum svæðum eru tegundirnar sígrænar en flestar vaxa þó þar sem vetrarríkis gætir og eru þá lauffellandi.
 
Þrjár í næsta nágrenni – en gera má betur!
 
Síðari reglan á við um þær þrjár tegundir hlyna sem vaxa í V- og NV-Evrópu. Tvær þeirra þrífast sæmilega hér á landi við bestu aðstæður, garðahlynur og broddhlynur. Hér að neðan verður nokkuð sagt frá þeim. Þriðja „norræna tegundin“, hagahlynur, Acer campestre, þrífst ekki hér nægilega vel, enda eru hin náttúrulegu norðurmörk hennar við Eyrarsund og ræktun hennar nokkrum takmörkunum háð þegar norðar kemur í norskar og sænskar sveitir. Nokkrar tegundir frá Asíu og Norður-Ameríku hafa verið reyndar í ræktun hér en ekki gefist sérlega vel. Líklega þarf að leita betur og skipulega að líklegustu kvæmunum og reyna í nokkru magni til að finna tegund eða tegundir sem geta með góðu móti sætt sig við íslenskar aðstæður. Það ætti að vera hægt og vissulega þess virði að fá harðgerðar hlyntegundir sem ívaf í íslenska skógrækt. Eina tegundin sem einhverju hefur skilað hér, aðrar en broddhlynur og garðahlynur, og virðist geta þrifist bærilega í skjólgóðri útmörk er hinn snotri fjallahlynur, Acer spicatum, frá vesturströnd N-Ameríku, m.a. frá Nýfundnalandi. Hann er fremur smávaxinn og runnkenndur í eðli sínu. En samt er viður hans kjörinn i ýmiss konar smáhluti og rennismíði. Úr safa hans má vinna hlynsíróp. Fjallahlynur er nett garðtré.
 
Broddhlynur, Acer platanoides
 
Broddhlynurinn er sú tegund sem frá fornu fari hefur vaxið um sunnanverða Skandinavíu. Í Skandinavíu nær útbreiðsla hans um hið norska Östland og norður til Upplanda í Svíþjóð og um suðurhluta Finnlands. Aðalútbreiðslan er frá Svartahafi sunanverðu og norður og austur um Úralfjöll til austurs, en vestur um Balkanskaga og fjalllendi Evrópu niður í Pýreneafjöll. Hann er meginlandstegund og nær ekki að ströndum Atlanshafs að sjálfsdáðum. En hefur verið gróðursettur víða um byggð ból á kaldtempruðum svæðum um heim allan, bæði í S- og N-Ameríku, Asíu, Nýjasjálandi og jafnvel Ástralíu. Víða í þeim löndum hefur hann verið settur á svarta lista sem „framandi og ágeng lífvera“ – þótt svosem hvergi hafi komið fram hversu mikill vargur hann er í lífríki þessara landa. Eins og allt annað virðist ríkja gagnkvæm aðlögun og virðing milli plöntutegunda hvar sem nýir landnemar setjast að. Hvergi hefur berghlynurinn útrýmt þeirri flóru sem fyrir var. En ásýnd hennar og samsetning lífríkisins hefur víða breyst nokkuð. Það er viðkvæmt mál og hin yfirlýstu spjöll oft meira tilfinningamat heldur en grundvallarstaðreyndir. Í enskumælandi löndum er broddhlynur kenndur við Noreg og kallaður „Norway maple“. En lítil hætta er á að hann leggi íslenska lífríkið undir sig, því ég veit ekki til að hann hafi þroskað hér burðug fræ. Þótt það gerðist, þá eru litlar líkur á að fræplöntur hans kæmust hér upp af sjálfsdáðum. Til eru nokkur myndarleg eintök af broddhlyn í görðum hér á landi, en þeim hættir æði oft við haustkali.
 
Garðahlynur, Acer pseudoplatanus
 
Garðahlynir hafa vaxið í íslenskum görðum frá því skömmu eftir aldamótin 1900. Frægastur þeirra, og líklega myndarlegastur, er sá sem stendur á gatnamótum Suðurgötu og Vonarstrætis í miðbæ Reykjavíkur. Þar var hann gróðursettur vorið 1918 ef ég man rétt. Sannkallað þjóðarminnismerki og vonandi friðlýstur í bak og fyrir, undir og allt-um-kring, þótt nokkrum sinnum hafi framkvæmdaglaðir byggingafjárfestar sótt að honum og fundist að svona dýrmætri byggingalóð væri betur ráðstafað undir arðbærari afnot og skjótfenginn gróða. Vonandi verður aldrei svo. En líkt og broddhlynurinn á garðahlynurinn í vök að verjast fyrir ákefð þeirra afla sem vilja svartlista allt sem ekki telst upprunalegt í lífríki hvers svæðis.
 
Honum vegnar vel í flestum þeim löndum sem hann hefur verið fluttur til. Of vel þykir sumum þegar þeir sjá hann þar sem þeir vilja ekki sjá hann. En lítil hætta er á því hérlendis. Þótt garðahlynurinn þroski hér fræ árlega og að oftar en ekki spíri nokkur fræ í einstaka görðum, þá er hægur vandi að sporna við. Auk þess eiga ungsprotarnir mjög í vök að verjast við að komast á legg. Haustfrost og vetrarumhleypingar gera útaf við þá flesta. Séu þeir sem af komast á röngum stað, er auðvelt að flytja þá til. Garðahlynur verður afar stórt og fyrirferðamikið tré sem ekki hentar í litla garða. Hann þarf gott skjól í uppvextinum og vegna þess hve honum hættir við haustkali áður en hann hefur náð að þroska endabrumin, þrífst hann betur ofarlega í landi þar sem loft er á hreyfingu og næturfrosta gætir því síður. Góð von er um að garðahlynur geti hér orðið verðmætt timburtré. En þá þarf að gróðursetja tveggja til þriggja metra há ungtré á milli uppvaxinna trjáa, t.d. alaskaaspa eða sitkagrenis. Haustnæturfrostin ná venjulega ekki mikið upp fyrir 180-200cm frá jörðu svo að hæðin verndar. Skjóltrén hlífa líka vel og draga úr því að hlynurinn myndi strax breiða krónu, heldur leggi áherslu á að vaxa upp í ljósið. Dæmi um há, beinvaxin, einstofna og krónunett garðahlynstré má finna í nokkrum þröngum bakgörðum í Þingholtum Reykjavíkur. Beinvaxnir og gallalausir bolir af garðahlyn er verðmætasta timbur Evrópu. Þýska timburvinnslan Fritz Kohl í Karlstadt við ána Main í Bæjaralandi keypti einn slíkan á uppboði í Frakklandi árið 2012. Fyrir hann þurfti að borga 61.000 evrur - sem samsvarar um 8.548.000 íslenskum krónum skv. gengi vikunnar. Þetta er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir einn trjábol í Evrópu fram að þessu. Bolurinn var 975cm langur, gildur vel og úr honum fengust 5510 fermetrar af næfurþunnum og rándýrum hágæða-hlynspón, rjómahvítum með gylltum, jöfnum æðum. Hugsanlega gætum við framleitt hlyntimbur af þessu tagi með nokkrum klókindum og við bestu aðstæður. En arðurinn af því mun varla skila sér strax, því 80 til 150 ár tæki það að fá slíka boli. Samt væri það nú aldeilis góð arfleifð sem barnabörn og barnabarnabörn gætu notið góðs af í fyllingu tímans.
 
Margt er líkt með skyldum
 
Broddhlynur og garðahlynur eru náskyldar tegundir. Tilsýndar af nokkru færi er ekki auðvelt að greina þá í sundur. Þegar að er gáð sést þó að broddhlynurinn ber sterklega fimmhyrnd lauf með oddhvassa flipa og strjálar tennur. Garðahlynur hefur líka fimmflipuð blöð, frekar kringluleit og fliparnir fjöltenntir en allir oddar mýkri en á broddhlyn. Blöð broddhlyns eru fagurgræn og hárlaus báðum megin, en garðahlynur ber mattgræn blöð sem eru dálítið leðurgljáandi á efra borði en grágræn á neðra borði. Blómgunin er í klösum sem áþekkir eru hjá báðum tegundum og blómin sjálffrjó með hjálp skordýra sem sækja í hunangssafann sem í þeim er. Aldin garðahlyns mynda hvassara horn en aldin broddhlynsins. Í uppeldinu þurfa báðar tegundir sama atlæti. Sá þarf fræjunum að hausti um leið og þau eru orðin hálmgul, best að skorða þau hlið við hlið upp á rönd í fínum, rökum vikursandi og hafa á frostlausum (og músheldum) stað fyrstu vikurnar meðan þau eru að eftirþroskast og búa sig undir álun. Í nóvember-desember má setja sáðílátin út í músheldan reit og láta þau bíða þar fram á vor. Ef gróðurhús er fyrir hendi má taka þau inn í mars og láta fræin spíra þar. Eftir að spírun er komin vel á veg og fyrstu tvö blöð ofan við kímblöðin hafa slegið út þarf að prikla fræplöntunum í uppeldisreit eða uppeldispotta. Best er að ala hlynplöntur upp inni í óupphituðu og rúmgóðu plastgróðurhúsi þar sem hátt er til lofts. Eftir að plönturnar eru stálpaðar og komnar á beð úti í garðyrkjustöðinni þarf að byggja yfir þær gróðurhjall úr gisnu grindverki sem hægt er að strekkja skjónet yfir til að verjast næturfrostum seinnipart sumars. Best er að taka netið af eftir að plönturnar hafa fellt lauf. Annars er hætta á að hjallurinn sligist og netið rifni af snjóum. Þessi skýling er nauðsynleg til að verja endabrumin gegn næturfrostum áður en plönturnar hafa gengið frá þeim fullþroskuðum fyrir veturinn. Þegar þær eru komin í vetrarhaminn þola þær kulda og umhleypinga bærilega. Sömuleiðis vorfrostin. Í uppeldinu þarf að gæta að því að plönturnar fái ekki hringrót séu þær aldar upp í pottum. Betra er að hafa plönturnar á beði og rótstinga reglulega. Hlynir hafa gagnstæð blöð, þ.e. að hliðarbrumin á greinunum eru í pörum – eitt á móti öðru. Ef endabrumið ferst í frosti taka hliðarbrumin við, svo að greinarnar skipta sér og klofna í tvær eða fleiri áttir. Þetta er ástæðan fyrir því hversu ungir hlynir greina sig fljótt og mynda svera krónu á stuttum bol og með miklum hliðargreinum. Sé komið í veg fyrir þetta heldur toppbrumið áfram að leiða aðalbolinn uppávið svo að krónumyndunin tefst og trén mynda hærri boli og nettari krónu. Tveggja til þriggja metra há tré hafa yfirleitt alla burði í að vera plantað út í bærilegt skjól og spjara sig þaðan af. Hlynir eru ekki vandlátir á jarðveg, þrífast þó best í frjórri og loftríkri mold, jafnrakri og gjarna með Ph-gildi ofan við 6 og ef aðgengi að dólómítkalki eða skeljasandi er gott, bætir það mjög að sletta slurki af slíku í plöntunargrópina. Eins og aðrar trjátegundir eru hlynir háðir svepparótum sem hjálpa þeim við að fást við vandamál lífsins. Í heimkynnum sínum eru þeir í mjög gagnkvæmu og ástríku sambandi við ýmsa glómusveppi. Garðahlynurinn einkum við Glomus hoi sem ekki hefur verið skráður hér en hjálpar mikið til við fosfórupptökuna. En hlynir munu líka geta nýtt sér sömu rótasveppi og aspir, víðitegundir, birki og sitkagreni. Bæði broddhlynur og garðahlynur leggja til fínan smíðavið. Viðurinn er þéttur, mjúkur og auðunninn en ekki sérlega sterkur og fúnar fljótt utanhúss. Hann er notaður í alls konar fínsmíði og tekur litun og póleringu afar vel. Í eðli sínu er hann rjómahvítur með gylltum æðum. Flestar fiðlur og hljóðþiljur í tónleikahúsum eru að miklu leyti gerðar úr hlynviði vegna þess hve „góðan resonans“, eins og það heitir á músíkmáli, hann hefur. Og hlynviður er oftar en ekki hafður í taflmenn og talnabönd. Hvort tveggja er svolítið heilagt.

3 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...