Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Geitla
Geitla
Á faglegum nótum 11. júlí 2016

Hin misvinsæla Sveipjurtaætt – sjötta og síðasta grein

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Nú líður að lokum umfjöllunar um hina misvinsælu Sveip­jurtaætt. Í fyrra var hér skrifað um geitakálið (BBL. 11. tbl. 2015) og risahvannirnar (BBL. 15. tbl. 2015).

Geitakálið er afar ágengt og óvinsælt af garðeigendum vegna þess að það er gjörsamlega ómögulegt að losna við það þar sem það hefur náð fótfestu. Gerir sig samt vel sem botngróður í skógarlundum og er ágætis beitarjurt. Risahvannirnar sem hafa verið kallaðar „hræðilegar“, kannski óverðskuldað og vegna þess þekkingarskorts sem sífellt elur á óttanum og settar á útrýmingar- og bannlista þar til settra yfirvalda. Þeim er því sleppt hér en nýliðinn fagri, skógarkerfill, og íslensku hvannirnar sæhvönn og geitla kallaðar til sögunnar.

Skógarkerfillinn

Anthriscus sylvestris, er útbreiddur um mestan part Evrópu. Á Íslandi var fyrst getið um hann á þriðja áratug liðinnar aldar. Uppruni hans er í fjallendi Mið-Evrópu og austur um fjöll og dali Evrasíu. Útbreiðsla hans hefur verið stöðug vestur og norður á bóginn frá því að sögur hófust. Reyndar er hann nú orðið að finna í flestum þeim löndum heims sem byggð eru fólki og bjóða upp á kalda vetur, því skógarkerfillinn þarf glöggan mun á sumri og vetri. Hann þrífst ekki í hitabeltinu en spjarar sig í fjöllunum umhverfis Miðjarðarhaf. Skógarkerfillinn er að upplagi til tvíær jurt, nánar skilgreint einbær líkt og ætihvönnin. Það er að segja að flestar plönturnar deyja eftir að hafa blómgast og borið fræ einu sinni. En oftar en ekki mynda plönturnar hliðarbrum á rótarhálsinum og geta þannig treint sér ævina og blómgast nokkur sumur til viðbótar. Sjaldan verða plönturnar þó langlífar, varla meira en þriggja til fjögurra ára.

Trójuhestar

Á síðustu árum hefur skógarkerfillinn tekið Ísland með trompi. Um miðja síðustu öld var hann sjaldséður. Sást fyrst og fremst við Eyjafjörð. Á þessum tíma man ég bara eftir tveim brúskum á höfuðborgarsvæðinu. En líklega hafa margir garðeigendur fallið fyrir fegurð hans og glæsileika og fært hann í garðana sína vítt um landið. Plantan er formfögur, með fagurgræn, fjöðruð blöð og yfir þeim svífa hvítir blómsveipir, liprir og léttir eins og ballerínur.Því fór að bera á honum á görðum víða um land á árunum milli 1950-1960. Líklega vegna umsagnar – án viðvörunar – í Garðagróðri þeirra Ingólfs Davíðssonar og Ingimars Óskarssonar sem kom fyrst út árið 1949. Þar er sagt að hann þrífist ágætlega.

Það gæti hafa kveikt áhuga hjá fólki sem leitaði eftir fallegum og sérlega harðgerðum garðjurtum. Enn eru meira að segja til garðaafbrigði af honum sem seld eru hér í garðplöntusölum. Til dæmis ‘Ravenswing’ með bronsslikjuðum og purpurarauðum blöðum og fölbleikum blómsveipum sem svífa yfir honum eins og stjörnuregn. En hann, sem og önnur garðaafbrigði, eru ekki öll sem þau eru séð því þau geta líka þroskað fræ og sáð sér út ekkert síður en aðaltegundin. Og bara um fjórðungur afkomendanna fær útlit og yfirbragð móðurinnar. Afgangurinn verður bara venjulegur skógarkerfill. Því þarf að vera á varðbergi ef slíkar fegurðardísir eru fluttar í garðinn, þær eru trójuhestar. Til að koma í veg fyrir að þær sái sér út þarf að klippa alla blómsveipi burt um leið og blómin byrja að láta á sjá. Það lengir líka ævi plöntunnar og bætir í blaðskrúðið.

Útlendingahersveitin

Um og upp úr 1980 varð eins konar sprenging í útbreiðslu skógarkerfilsins hér á suðvesturhorni landsins. Alaskalúpínan og skógarkerfillinn hittust. Það varð ást við fyrstu sýn. Hönd í hönd fara þau nú um holt og hæðir og skrýða landið ýmist í bláum eða hvítum lit fyrripart sumarsins. Margir agnúast út í þessa útlendingahersveit og eru aldeilis ekki á því að þau megi fá þegnrétt í íslensku flórunni. Sumum þykir þjóðlegra, eftir að íslensku holtin voru rúin birkiskógunum og blómgróðri hans, að landið sé látið halda nekt sinni, vindbörðum og nauðnöguðum holtagróðri sem dregur fram lífið við sult og seyru eins og kvótaeignarlaus alþýða landsins. Feitu frænkunni frá Ameríku og hinum fríða sveini úr dölum Evrópu er því ekki alveg jafn vel tekið af öllum þótt þau skilji eftir sig þykkan og frjóan gróðursvörð fólki og framtíð til sældar. Á löngum tímaskala láta þau undan og hleypa nýjum og kröftugari gróðri að. Skógar og akrar koma í þeirra stað sem nauðsynleg auðlind fyrir vaxandi þjóð. Landinu er alveg sama og ferðamenn munu kæra sig kollótta. Hálendið verður áfram bert, sandarnir svartir en barnabörn okkar og barnabarnabörn munu ekki sakna berangursins í byggðum landsins eins og hann var þegar flest okkar sem eldri erum vorum að alast upp.

Þótt beitt sé skæruhernaði og efnavopnum á þetta par, eins og spurnir hafa verið af á síðustu árum, mun það hafa lítið að segja. Hvergi sér högg á vatni. Því er eina ráðið að sætta sig við orðinn hlut. Taka þeim bara opnum örmum og fylgja þeim eftir með friðsömum hætti og á skynsamlegan máta.

Það er samt ekki heiglum hent að ráða niðurlögum skógarkerfils eftir að hann hefur numið land einhvers staðar. Sláttur og beit heldur honum nokkuð í skefjum. Hann þolir illa traðk stórgripa og erlendis halda stærri beitardýr, t.d. elgir og dádýr, aftur af honum. Fræ hans eru smá og berast auðveldlega um með vatni og vindum. Þau taka sér líka far með feldi dýra, fatnaði og farartækjum. Þau spíra að vori eftir kaldan vetur.

Vinsæll víðast hvar

Erlendis er skógarkerfill í miklum metum meðal náttúruunnenda og jafnvel má sjá hann í stórum breiðum sem undirgróður og bakgrunn í stórum skrúðgörðum, jafnvel þeim af fínasta taginu. Í nágrannalöndum okkar þar sem blómum skreyttar „miðsumarstangir“ eru reistar á jónsmessunni spila skógarkerfill og blágresi oft aðalhlutverkið í blómskrúðinu. Í breskum görðum kallast hann „Queen Anne’s lace“, þótt „cow parsley“ sé algengara að nota um hann úti í sveitum. Á þýsku er algengasta heitið „dalakerfill“ (Wiesen-Kerbel). Þar í landi þykir hann fínn, nema þegar hann fer í tún. Sænska heitið er „hundkäx“ en á norsku „hundkjeks“. Útbreiðsla hans hefur líka aukist í þeim löndum á síðustu árum, rétt eins og hér. Það rekja sumir til breyttra búskaparhátta, þ.e. að útibeit nautgripa upp á gamla mátann hefur mikið dregist saman og í staðinn er fóðrið borið að skepnunum á stórbúum. Notagildi skógarkerfilsins hefur verið lítið í ræktunarsögunni. Blómin mátti nota til að lita gult ef álún var sett með í suðuna. Á nokkrum stöðum borðuðu menn blöðin þegar þau fóru að sjást á vorin, þá soðin með öðrum mat. Og sem lækningajurt þótti hann duga vel til að lækna „fingrakveisu“, þ.e. liðverki í fingrum og var því sumstaðar kallaður „kveisugras“ þess vegna.

Allur er varinn góður

Skógarkerfill er sláandi líkur tveim eitruðum sveipjurtategundum og fólk hefur verið varað við að nota eða nærast á skógarkerfli eða plöntum sem eru líkar honum úti í náttúrunni. Þessar tvær tegundir eru óðurt, Conium maculatum og beiskjujurt, Cicuta virosa. Báðar vaxa þær í nágrannalöndunum en hafa enn ekki borist hingað til lands. Óðurtin er sú tegund sem notuð var í eitrið sem Sókratesi var byrlað forðum daga. Ekki þarf mikið af henni til að drepa mann en dauðdaginn verður tiltölulega átakalaus. Líkist skógarkerflinum mjög en þekkist best á að hún er rauðflekkótt á stilkunum og af henni leggur mjög óþægilega lykt. Beiskujurtin vex í vatni og hefur sérstaklega hola og loftríka stólparót sem oft slitnar upp og flýtur á milli staða. Blöð hennar minna meira á blöð skessujurtarinnar en skógarkerfilsins og af allri plöntunni leggur smeðjulega sellerí­lykt. Hún er mjög eitruð og veldur kvalafyllra dauðastríði en óðurtin.

Sæhvönn

Ligusticum scotium, vex við strendur landsins. Yfirleitt í hólmum, eyjum eða klettaskorum við sjó þar sem sauðfé kemst ekki að. Hana er helst að finna um vestanvert landið en á stöku stað í öðrum landshlutum. Sæhvönnin er ein af stærri jurtunum í Íslandsflórunni. Hún er fjölær, snotur, fagurgræn með þrífingruðum blöðum sem aftur skiptast í þrjá flipa hvert. Blómin eru í sveip, nokkuð stór með hvítum eða rauðmenguðum krónublöðum. Oft eru blað- og blómstilkar líka ögn rauðleitir. Sæhvönn er skemmtilegt að rækta sem kryddjurt. Bragðið af henni er sterkt og minnir allt í senn á skessujurt, steinselju og ætihvönn. Auðveld í ræktun, en getur sáð sér út í görðum ef ekki er höfð gát á. Samt ekki til neinna ama og hún nær ekki að komast á legg í grónu landi. Sem kryddjurt er hún góð söxuð út á fiskrétti rétt eins og steinselja. Hún gefur góðan keim í hrá­salöt. Sem lyfjajurt var sæhvönnin áður notuð til að bæta meltinguna, stemma vind, róa taugarnar, draga úr kvennakvillum, lina gikt og hálsverki.Fræin má steyta og nota í stað pipars.

Geithvönn eða geitla

Angelica sylvestris, er öll miklu nettari um sig en ætihvönn. Þær eru í sömu ættkvísl og líkjast mikið hvor annarri. Geithvönnin er samt öll í smærri skala, þurrari á að sjá og blað- og blómstilkar með áberandi rauðum lit. Rauða litarins gætir einnig í blómsveipunum. Þeir eru líka smærri og flatari en á ætihvönninni. Geithvönnina má finna víða um land. Gjarna í skóglendi, deigu valllendi og annars staðar þar sem hún finnur skjól og frið fyrir beit. Geithvönnin er vel æt og nota má hana á sama máta og ætihvönn. En bragðið af geithvönninni er fremur rammt og óviðfelldið. Sums staðar voru samt blöðin matreidd snemma á vorin til að bæta skyrbjúg og fyrirbyggja hann. Einnig var plantan notuð í te, bæði rót og blöð, þurrkuð sem óþurrkuð, til að vinna á svipuðum vanda og getið var um í umfjölluninni um sæhvönnina. Stilkana mátti sjóða í sykurlegi rétt eins og ætihvannastilka og nota sem sælgæti.

Skylt efni: sveipjurtir | ræktun | Garðyrkja

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...