Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Minnisvarði um sr. Sigtrygg og Hjaltlínu, konu hans, í Skrúð.
Minnisvarði um sr. Sigtrygg og Hjaltlínu, konu hans, í Skrúð.
Á faglegum nótum 3. september 2015

Garðar, hvað er hvað – hugleiðingar um hugtök

Margar eru gerðir garða og hugtökin ýmisleg. Matjurtagarða, kryddgarða og [lyfjaj-]urtagarða er ekki þörf á að útskýra nánar. 
 
Þann hóp skipa líka „laukgarðarnir“ sem húsfreyjur á sögusvæði Laxdælu, og ef til vill víðar, höfðu yfir að ráða á öld Íslendingasagna. Í kringum bæi og hús í þorpum landsins voru „blómagarðar“ afgirtir skikar undir gafli íbúðarhúsa þar sem íbúar, les húsmóðirin eða amman, ræktuðu blóm og kannski nokkra runna, jafnvel tré s.s. birki, gulvíði eða reynivið sem fengin voru úr nálægu skóglendi. Þetta er mér í barnsminni, þó er ég ekki ýkja roskinn! 
 
Lóð eða garður
 
Eftir að farið var að skipuleggja byggingalóðir í bæjum á þann hátt sem nú tíðkast kom „garðurinn“ til sögunnar. Þ.e. að það svæði sem ekki fór undir byggingar á hinni afmörkuðu lóð var rammað inn með limgerði eða einhvers konar grindverki og kallað „garður“. En reyndar var það svo, að alveg fram á áttunda áratuginn hélt lóðin oft áfram að vera bara „lóð“, og svo er það víða enn í þéttbýli víðs vegar um landið. Þar hafa húseigendur lítið sinnt um að koma lóðinni í það stand að kallast geti garður. Og jafnvel eru margar fjölbýlishúsalóðir á höfuðborgarsvæðinu ennþá „bara lóðir“. Lóð verður ekki að garði við það eitt að ýtt sé út og sléttað yfir raskið sem verður við byggingaframkvæmdirnar og síðan tyrft yfir með þökum af aflögðu túni. Lóðin verður ekki að garði fyrr en lögð hefur verið alúð í að rækta hana upp og velja í hana gróður sem verndar hana fyrir veðrum og vindi. Þegar í lóðina er komin lifandi mold, iðandi ánamaðkar og fuglasöngur getum við fyrst kallað hana garð. 
 
Heimilisgarðar
 
Garðar Schierbecks landlæknis (nú Víkurgarður eða Fógetagarðurinn við Aðalstræti), Árna Thorsteinsson landfógeta (nú kallaður Hressingarskálagarðurinn) við Austurstræti og Halldórs Friðrikssonar kennara þar sem Alþingishúsið stendur nú, eru líklega fyrstu „heimilisgarðarnir“ (þ.e. garðar með trjám, blómum og matjurtum) á Íslandi sem nokkur vissa er um hvernig voru. Ég undanskil garða Björns Halldórssonar, prests í Sauðlauksdal (um 1750), og Gísla sýslumanns Magnússonar, Vísa-Gísla, á Hlíðarenda í Fljótshlíð (um 1660). Lítið er vitað um garða þeirra eða annarra (t.d. klaustra og biskupssetra) fyrir 1880, svo ekki er hægt að lýsa þeim eða staðsetja þá eftir heimildum. Bara er vitað að þeir voru til. 
 
Skrúðgarðar
 
Fyrsti eiginlegi „skrúðgarðurinn“ á Íslandi er Skrúður á Núpi í Dýrafirði (1909), handverk klerksins og kennarans Sigtryggs Guðlaugssonar. Garður sem byggður var upp sem skrúðgarður (og kennslugarður) eftir ákveðnum og fremur klassískum prinsippum sem sótt voru til suðlægari landa, en aðlöguð íslenskum aðstæðum. Lystigarðurinn á Akureyri kom litlu síðar. Nú var ísinn brotinn, en engin skriða fylgdi svosem á eftir. Hellisgerði í Hafnarfirði kom til á þriðja áratug aldarinnar sem leið. Í Reykjavík var byrjað að móta Tjarnargarðinn (með Hljómskálagarði og Hallargarði) á fjórða áratugnum en litlu miðaði með hann þar til eftir stríðsárin. Tjarnargarðurinn varð eiginlega til fyrir þá slembilukku að mýrin var of vot fyrir byggingar og auk þess höfðu öskuhaugar Reykvíkinga verið þar um nokkurt árabil. Tjarnargarðurinn er fyrsti „almenningsgarðurinn“ á Íslandi. Munurinn á almenningsgarði og skrúðgarði er að í almenningsgarðinum er lögð áhersla á rýmið og að honum sé hægt að halda við með tiltölulega lítilli fyrirhöfn og tilkostnaði. Erlendis eru almenningsgarðar kallaðir „parkar“. Í skrúðgarði er meiri áhersla lögð á nándina, þrengri rými og þéttri framsetningu skrautgróðurs af öllu tagi. Slíkir garðar æpa á mannafla ef þeir eiga að standa undir nafni. Þar þarf mikið að reyta arfa, stinga upp beð og sinna einstökum plöntum.
 
Almenningsgarðar
 
Hluti Tjarnar­garðsins, Hallar­garðurinn við Fríkirkjuveg 11, er fyrsti almenningsgarðurinn sem hannaður var að akademískum „skrúðgarðaarkitekt“ eins og landslagsarkitektar hétu þá. Hönnuðurinn var Jón H. Björnsson, yfirleitt betur þekktur sem Jón í Alaska. Litlu síðar var Austurvöllur á Ísafirði unninn eftir hönnun hans. Báðir þessir garðar sköruðu skilgreingarnar „almenningsgarður“ og „skrúðgarður“ því að í þeim var plöntuvalið meira í ætt við skrúðgarðahugtakið en hitt. Þeir kölluðu því á viðhald sem misbrestur vildi verða á hjá sveitarfélögum sem þurftu að dreifa þeim rýru fjárhæðum sem ætlaðar voru til garðyrkju og garðyrkjustarfa á fleiri svæði. Sums staðar hefur verið komið upp trjásöfnum, á útlensku „arboretum“, þar sem trjám af ýmsum tegundum frá ýmsum heimshlutum er safnað saman og plantað út í fastsettum kerfum þar sem hver planta er merkt sérstaklega með greinargóðum upplýsingum. Af sama tagi og með líku fyrirkomulagi eru „grasagarðar“ og „rósagarðar“. Hvergi skortir þar merkingar um ætt, nafn og uppruna plantnanna sem eru sýningargripirnir í slíkum upplýsinga- og safngörðum.
 
Skrúðgarðyrkja
 
Annars þurfa menn að gæta sín á að hafa þessi skrautgarðahugtök of föst. Almenningsgarðar eru undartekningarlaust í eigu bæjar- eða sveitarfélaga og geta í víðasta skilningi fallið undir skrúðgarðahugtakið. Hugtakið „lystigarður“ fellur ekki beinlínis að neinni annaðhvort-eða-skilgreiningu. Lystigarðar geta ýmist verið almenningsgarðar, skrúðgarðar, einkagarðar eða garðar í eigu einhverra samtaka. Sama gildir um „yndisgarða“. Hugtakið „trjágarður“ er líka til. Þar eru tré oftast í aðalhlutverki, en trjágarðar gætu líka alveg eins verið byggðir upp sem skrúðgarðar. Líklega veltur orðnotkunin á vana, útfærslum, eignarhaldi og fjármögnun hverju sinni. En hvaða hugtök sem í umferð eru um skipulagða og ræktaða garða, stóra sem smáa, þá eru þeir sem stunda þá iðn að byggja þá upp og hlotið hafa til þess tilskilda menntun kallaðir skrúðgarðyrkjumenn eða jafnvel skrúðgarðyrkjufræðingar. Skrúðgarðyrkja er löggild iðngrein. Aðrir sem lokið hafa garðyrkjunámi og útskrifast með prófskírteini í plönturæktun og gróðurhúsavinnu hafa enn ekki fengið löggildingu sem iðnaðarmenn. Það er samt huggun harmi gegn að þeir mega kalla sig garðyrkjufræðinga og starfa sem garðyrkjumenn fyrir borgun.
 
Skógargarðar
 
Nýlega hefur eitt garðahugtakið enn skotið upp kollinum, það er „skógargarður“. Við þekkjum hugtök eins og „opinn skógur“ eða „útivistarskógur“. Eins eru til „yndisskógar“. Í öllum slíkum skógum er gaman að ganga um og skoða. En „skógargarður“ er af nokkru öðru tagi. Þar er allnokkru bætt við skógræktina og útfærslan meira í átt til skrúðgarðyrkjunnar. Og skógargarður þarf ekki að vera víðáttumikill til að skógarupplifunin sé sterk. Skógargarður er útivistargarður þar sem fylgt hefur verið lögmálum skóglendis og skógarþróunar. Í útfærslunni skipta náttúrulögmálin og landslag mestu máli, en mannshugurinn hjálpar til og hefur hönd í bagga. Erlendis er skógargörðum fyrst og fremst komið upp í náttúrulegum skógum þar sem gróðri er stýrt með úrvali og skipulagi sem miðar að því að til framtíðar verði allur skógurinn aðgengilegur til íveru og útivistar. Önnur aðferð er að byrja á því að velja land sem hentar til trjáræktar, gróðursetja þar fyrst tré sem þurfa nokkurn tíma til að ná það góðum aldri og hæð að undir þeim og í kringum þau sé kominn nokkur skógarkarakter. Oftast tekur þessi upphafsþáttur um 15 til 20 ár.
 
Þegar svipmótið er fengið hefst garðyrkjan. Stígakerfi er ákveðið. Nokkra grisjun þarf yfirleitt að gera og velja síðan inn undirgróður sem fellur vel að þörfunum og myndar neðra trjálagið í skóginum. Og á þessu stigi þarf líka að huga að lággróðrinum, s.s. grastegundum, blómplöntum, byrkningum og mosum sem mynda neðsta gróðurlagið. Á öllum stigum þarf að sjá til þess að allur gróður myndi heilbrigða og eðlilega heild. Plöntur sem virka framandi í þessu samhengi eða þríf­ast illa þarf að fjarlægja um leið og ljóst er að þær stinga í stúf við það sem ætlað var. Framandi plöntur í þessu samhengi eru garðaafbrigði með skellóttum blöðum, plöntur með fylltum blómum og aðrir dæmigerðir garðablendingar. Ofkrýndar rósir eins og t.d. 'Hansa‘ eða 'Skotta‘, 'Harison‘s Yellow‘ o.s.frv. eiga ekkert erindi í skógargarða. Ekki heldur randagras, brúskur (Hosta) með marglitum blöðum ellegar aðrar þess háttar plöntur. Skriðular plöntur sem erfitt er að hafa stjórn á, geta skapað vandamál hafi þær engar náttúrulegar takmarkanir sem hefta óstýrilæti þeirra. Klettabelti, lækjarfarvegir og gil, jafnvel skurðir, geta sett þeim tilhlýðilegar skorður.
 
Sannfærandi og náttúrulegt
 
Fjölærar plöntur þurfa að vera sem næst sínu upprunalega og náttúrulega formi og hæfar til að mynda samfellur og stóð með öðrum viðlíka tegundum. Það er líka áríðandi að slíkum plöntum sé valinn staður sem líkastur er kjörvist þeirra í náttúrunni. Allar plöntutegundir þurfa að vera í nokkrum massa hver um sig, þótt þær geti skarast eðlilega og myndað samfélög. Samt er engin frágangssök að nota einstaka áhersluplöntur eða plöntuhópa ef þær falla að ákveðnu svæði og undirstrika það. Í barrtrjáaumhverfi geta t.d. alparósir komið vel út án þess að virka óeðlilegar. En þá þarf að takmarka valið og velja bara tvær til þrjár tegundir, eða afbrigði, sem látnar eru mynda samfélag eða stóð þar sem nokkur eintök af hverju tagi standa saman. Slíkir hópar geta verið mismunandi stórir, en ávallt í námunda hver við annan. Ein tegund samt í hverjum hóp. Meginmálið er að plöntusamfélagið sé sannfærandi, svo að þeir sem um garðinn fara álíti að svona hafi þetta verið frá upphafi vega.
 
Framtíðin – sumarbústaðalönd?
 
Á Íslandi þarf venjulega að byrja á því að planta skóginum og bíða með frekari útplöntun þar til trén hafa myndað það skjól og þá gróðurvist sem þarf til. En auðvitað má búa í haginn með því að laga jarðveg, forma land til betra horfs ef þurfa þykir, sjá út stígakerfi og viðhalda því. Líta á alla þætti sem þarf að ramma inn, s.s. læki, fossa, hvamma, björg, steina og önnur náttúruvætti svo að þau týnist ekki í skóginum. Rjóður og áningastaði þarf einnig að hafa í huga, og að sjálfsögðu „þjónustusvæði“ sem liggur vel við en er ekki áberandi. Skógargarðar falla vel að þeim aðstæðum sem flestir sumarbústaðaeigendur eru í með lóðir sínar. Eftir að búið er að koma þeim á legg, sem tekur álíka langan tíma og koma sumarbústaðarlóð í gott skikk, er eftirvinnan lítil. Að sjálfsögðu mun þar alltaf verða þörf á að leiðrétta og grípa inn í ef eitthvað virðist vera að fara úr böndunum. En í stórum dráttum verða skógargarðar að mestu sjálfbærir eftir að byrjunarörðugleikarnir eru liðnir hjá. Þeir verða samt garðar sem þarf að sinna í ákveðnum takti ár hvert..

5 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...