Tölvugerð eftirmynd af því hvernig talið er að Proterocladus antiquus hafi litið út í grunnum sjó fyrir hundruð milljónum ára. Mynd / Dinghua Yang/Virginia Tech/PA.
Fræðsluhornið 13. mars 2020

Gamall grænþörungur

Vilmundur Hansen

Talið er að steingervingur sem fannst í norðanverðu Kína geti verið af elstu grænu plöntu sem vitað er um. Steingervingurinn er af grænþörungi sem kallast Proterocladus antiquus og er talinn vera eins milljarða ára gamall.

Tegundin, sem í eina tíð er sögð hafa þakið grunnan hafsbotn á stórum svæðum, er sögð hafa verið svipuð og meðal hrísgrjón að lengd en steingervingasýnið er ekki nema um tveir millimetrar. Þrátt fyrir að þessi tegund hafi verið smá er sagt að magn hennar hafi verið svo mikið að hún hafi breytt þróun lífsins á jörðinni.

Raunar er Proterocladus antiquus fremur stór af grænþörungi að vera og líklega var þörungurinn með stærri lífverum á sínum tíma. Plantan sem ljóstillífaði í hafinu og þróaðist síðar í plöntur á landi er forveri allra plantna í heiminum í dag.