Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Það skiptir miklu máli hvernig kálfum vegnar í upphafi síns æviskeiðs. Fyrstu átta vikurnar í ævi kvígunnar hafa mikil áhrif á það hvort hún verði afburða kýr, meðalgóð kýr eða léleg kýr. Hér er kýrin Vala frá Hóli í Svarfaðardal með nýfæddan kálf.
Það skiptir miklu máli hvernig kálfum vegnar í upphafi síns æviskeiðs. Fyrstu átta vikurnar í ævi kvígunnar hafa mikil áhrif á það hvort hún verði afburða kýr, meðalgóð kýr eða léleg kýr. Hér er kýrin Vala frá Hóli í Svarfaðardal með nýfæddan kálf.
Mynd / Hkr.
Á faglegum nótum 11. júlí 2019

Fyrstu 8 vikurnar ráða miklu um örlög kýrinnar

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Það kann að hljóma hálf ótrúlega á marga lesendur Bændablaðsins, en tilfellið er að fyrstu átta vikurnar í ævi kvígunnar hafa mikil áhrif á það hvort hún verði afburða kýr, meðalgóð kýr eða léleg kýr! 
 
Þetta sýna ótal erlendar rannsóknir sem hafa fyrst og fremst snúist um það að skoða samhengið á milli fyrstu viknanna í lífi kvíganna og frjósemi og afurðasemi þeirra síðar meir á ævinni.
 
Beint samhengi á milli burðaraldurs og hagkvæmni
 
Í hérlendri rannsókn, sem gerð var árið 2017, á gögnum úr skýrsluhaldinu kom fram að hagkvæmasti burðaraldur á kvígum hér á landi eru 23 mánuðir og hefur þá verið tekið tillit til uppeldiskostnaðar og æviafurða. Uppeldiskostnaður á kvígum einn og sér er gríðarlega hár og oft er hlutfall hans um fjórðungur af kostnaði á kúabúum þegar hefur verið tekið tillit til allra þátta en mikill dulinn kostnaður felst í uppeldi á kvígum. Vegna þessa mikla kostnaðar við að búa til eina kú hafa vinsældir kyngreinds sæðis vaxið gríðarlega undanfarin ár erlendis. 
 
Nú orðið nýta flestir kúabændur erlendis sér slíkt sæði og þurfa ekki lengur að setja á allar kvígur heldur einungis velja sérstaklega að fá kvígur úr þeim kúm sem þarf til viðhalds stofnsins og sæða þá aðrar kýr með holdanautasæði. Í rannsókninni kom einnig fram beint neikvætt samhengi á milli vaxandi aldurs á kvígum við burð og æviafurða, þ.e. því eldri sem kvígurnar eru þegar þær bera því minni verður heildarframleiðsla þeirra á mjólk alla ævina.
 
Samhljómur við erlendar rannsóknir
 
Þessi íslenska rannsókn staðfestir því vel ótal erlendar rannsóknir á erlendum kúakynjum þar sem nákvæmlega sama samhengi hefur komið fram. Um þetta samhengi hefur verið vitað lengi en þrátt fyrir augljósa kosti þess að láta kvígurnar bera ungar þá bera þær að jafnaði miklu eldri en 23ja mánaða gamlar. Í framangreindri rannsókn kom í ljós að einungis 4% af kvígunum bera 23ja mánaða gamlar og flestar eða 13% þegar þær eru orðnar 25 mánaða. Meðaltalið í rannsókninni, sem náði til gagna um rúmlega 11 þúsund íslenskar kýr, var þó rúmlega 28 mánuðir! Þá kom skýrt fram í rannsókninni að því eldri sem kvígurnar eru þegar þær bera í fyrsta skipti, því meiri eru afurðir þeirra á fyrsta mjaltaskeiðinu. Vandamálið er hinsvegar að æviafurðirnar verða minni, þ.e. þessar gömlu kvígur endast alltof illa og þar skáka kvígurnar sem bera ungar hinum eldri í heildarhagkvæmni.
 
Þó svo að erfitt sé að fullyrða um ástæður þessa má leiða að því líkum að ein af líklegum skýringum felist einfaldlega í því að kvígurnar séu látnar vaxa of hægt.
 
Erlendar niðurstöður sýna að ef kvígan hefur ekki náð að tvöfalda fæðingarþunga sinn fyrstu 56 daga ævinnar, þá er harla ólíkegt að hún nái nokkurn tímann að verða afburða kýr. Sé miðað við hve mikið samhengi er á milli erlendra og hérlendra rannsókna á áhrifum aldurs við fyrsta burð á heildarhagkvæmni kúa, þá er líklegt að nota megi einnig þessar erlendu ráðleggingar um vöxt fyrstu 8 vikurnar. Þessi mynd er tekin á Bürger-Grebe fjölskyldubúinu í  Norður-Hesse í Þýskalandi. Mynd / HKr. 
 
Kvígan þarf að vaxa hratt í upphafi
 
Til þess að kvígan geti borið 22-24 mánaða gömul þarf hún að festa fang snemma og fyrir liggur að eigi kvíga að ná kynþroskaaldri snemma þarf hún að hafa mikinn vaxtarhraða þar sem kynþroskinn stjórnast mikið til af þroska en minna af raunverulegum aldri. 
 
Hérlendis er miðað við að kvígurnar hafi náð um 55% af þyngd fullorðinna kúa þegar þær eru sæddar. Ef miðað er við að fullorðnar kýr hér á landi séu um 470 kíló ætti kvígan því að vera um 260 kíló á fæti þegar hún er sædd. En til þess að ná þessari þyngd nógu snemma á æviskeiðinu þarf að hlúa vel að kvígunni og sér í lagi fyrstu vikur ævinnar.
 
Kynþroskaskeið
 
Flestir bændur hafa heyrt um hið krítíska tímabil í lífi kvígunnar en það er tímabilið þegar líkami kvígunnar gengur í gegnum kynþroskaskeiðið. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ef kvígurnar vaxa of hratt á þessu skeiði, sem oftast er talið vera þegar þær eru 3-12 mánaða gamlar, þá geti það komið niður á mjólkurframleiðslu þeirra síðar meir. Skýringin felst í því að hraður vöxtur getur aukið myndun bandvefs, á kostnað kirtilvefs, í júgrinu. Þessi vitneskja hefur því beint athygli bænda að tímabilinu fram að þriggja mánaða aldri og svo aftur eftir 12 mánaða aldur. Þó svo að um krítiskt tímabil sé að ræða, þ.e. frá 3ja til 12 mánaða aldurs, þarf kvígan að vaxa jafnt og þétt og má ekki lenda í neinum vaxtaráföllum.
 
Vaxtarhraðinn
 
Í raun getur hver og einn kúabóndi reiknað út fyrir sig hver vaxtarhraðinn þurfi að vera á sínu búi. Fyrst þarf að ákveða hvað kvígurnar eiga að vera þungar þegar þær eru sæddar fyrsta sinni og hve gamlar þær eiga að vera að jafnaði þegar þær bera. Ef við gefum okkur að meðalaldur séu 23 mánuðir og að burðaraldurinn dreifi sér á 22-24 mánuði þá þarf að sæða fyrstu sæðingu þegar kvígurnar eru tæplega 13 mánaða gamlar. Hluti þeirra heldur eðlilega ekki við fyrstu sæðingu og því má reikna með að þær dreifi sér á þessa tilteknu burðarmánuði. Sé miðað við að fullorðnar kýr séu um 470 kíló að jafnaði þá þarf kvígan að vera 260 kíló þegar hún er 13 mánaða gömul. Fæðingarþungi er oft þetta 30-35 kíló og kvígan þarf því að þyngjast um u.þ.b. 230 kíló á þessum 13 mánuðum eða um 590 grömm á dag að jafnaði.
 
Tvöfalda fæðingarþungann
 
Erlendis er miðað við að kvígur skuli tvöfalda fæðingarþunga sinn fyrstu 56 daga ævinnar, þ.e. fyrstu átta vikurnar. Þess vegna er alltaf mælt með því að hver kvíga sé vigtuð við fæðingu og svo aftur þegar hún er vanin af mjólk eftir 7-8 vikur. Eigi íslensk kvíga að ná þessu þarf hún að þyngjast um 530-630 grömm á dag þessa 56 daga. Erlendar niðurstöður sýna að ef kvígan hefur ekki náð að tvöfalda fæðingarþunga sinn á þessum stutta tíma, þá er harla ólíkegt að hún nái nokkurntímann að verða afburða kýr. Sé miðað við hve mikið samhengi er á milli erlendra og hérlendra rannsókna að áhrifum aldurs við fyrsta burð á heildarhagkvæmni kúa, þá er líklegt að nota megi einnig þessar erlendu ráðleggingar um vöxt fyrstu 8 vikurnar.
 
Bregðast hratt við hægum vexti
 
Ef það dregur úr vexti kvígunnar á þessum fyrstu vikum ævinnar, t.d. vegna þess að hún fær skitu, þá hafa ótal erlendar rannsóknir sýnt fram á það að veikindi á kvígum á fyrstu 56 dögum ævinnar hefur marktæk neikvæð áhrif á framleiðslu þeirra þegar þær ná því að verða kýr. Það er því óhemju mikilvægt að bregðast hratt við og meðhöndla kvíguna svo sem minnst áhrif verði af mögulegum veikindum hennar. Þó svo að skita sér oftast einstaklingsbundin vegna magakveisu sem ekki er smitandi þá þarf hér augljóslega einnig að hugsa vel um smitgát, svo líkurnar á því að fleiri veikist séu litlar sem engar.
 
Næstu mánuðir skipta einnig máli
 
Þó svo að hér hafi fyrr verið talað um hið krítíska tímabil þá þarf kvígan að halda áfram að vaxa jafnt og þétt. Beinagrindin vex og þroskast mikið fyrsta árið hjá kvígunni og því þarf þrátt fyrir allt að tryggja að kvígan vaxi vel og að ekki komi kengur í uppeldið. Erlendis er oftast lögð mest áhersla á þá fjóra mánuði sem taka við eftir að kvígan hættir að fá mjólk við átta vikna aldur. Allt of algengt er að það dragi úr vexti þegar kvígurnar hætta að fá mjólk en gríðarlega mikilvægt er að passa sérstaklega upp á þetta viðkvæma tímabil. Kvígurnar eiga að fá kjarnfóður strax frá fyrstu dögum ævinnar og læra að éta það samhliða mjólkurdrykkjunni. Þegar mjólkin er svo tröppuð niður ættu kvígurnar að bæta sér upp orkuskortinn með því að auka átið á kjarnfóðrinu. Með því helst vöxturinn uppi og áfram jafn næstu mánuðina.
 
Vigtin segir mikið
 
Það er gríðarlega mikilvægt að hafa góða vitneskju um þungann á kvígunum eigi að ná hámarks árangri. Öllum kúabændum er því ráðlagt í dag að vigta hverja einustu kvígu við fæðingu og aftur þegar hún hefur náð 56 daga aldri. 
 
Ennfremur að nýta stórgripavigt til að fylgjast með eðilegum vexti og þroska á kvígunum allt fram að fyrsta burði. Þessi meðhöndlun hefur einnig reynst ágæt leið til að fortemja kvígurnar. Í raun skiptir þó mestu máli fyrir kúabóndann að þekkja fjórar þungatölur fyrir hverja kvígu:
 
- Fæðingarþunga
- 56 daga þunga
- Þunga við fyrstu sæðingu
- Þunga við fyrsta burð
 
Með þessar upplýsingar í gagna­grunni búsins, samtengdar við aðrar skýrsluhaldsupplýsingar, er hægt að stýra fóðrun og öðru sem snýr að uppeldinu á kvígunum svo hægt sé að ná hámarks árangri.
 
Ítarefni:
Þórdís Þórarinsdóttir, 2017. Burðaraldur íslenskra kvígna og áhrif hans á afurðir, endingu og uppeldiskostnað. BS-verkefni frá LBHÍ
 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...