Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bleikja í eldiskeri.
Bleikja í eldiskeri.
Á faglegum nótum 31. janúar 2017

Fiskeldi − bleikja og regnbogasilungur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bleikja og regnbogasilungur eru fiskar af laxaætt og báðar tegundir eru í eldi hér á landi. Bleikja er upprunnin í sjó og vötnum á norðurslóðum en náttúruleg heimkynni regnbogasilungs eru við vesturströnd Norður-Ameríku.

Fiskeldi á sér mörg þúsund ára sögu víða um heim, ekki síst í Asíu þar sem þorri fiskeldis heimsins fer fram í dag. Það er ört vaxandi angi matvælaframleiðslu í heiminum og margar tegundir fiska í eldi í kvíum bæði í sjó og á landi. Má þar nefna tilapíu, lax, senegalflúru, lúðu, túnfisk, sandhverfu, pangasíus, bleikju og regnbogasilung.

Helmingur alls fisks úr eldi

Fiskeldi er sá geiri matvælaframleiðslu sem er í hvað mestum vexti í heiminum í dag. Tæplega helmingur alls fisks sem seldur er á heimsmarkaði er úr eldi og gera spár ráð fyrir að það hlutfall eigi eftir að aukast umtalsvert á næstu árum. Það má því með réttu kalla fiskeldi bláu matvælabyltinguna.

Árlegur vöxtur greinarinnar á heimsvísu árin 2001 til 2010 var 5,6%. Samkvæmt spám OECD, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunar Evrópu, og FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, mun draga úr vexti greinarinnar á næsta áratug og er gert ráð fyrir 2,8% samdrætti á ári.

Samkvæmt áætlun FAO nam heildarfiskeldi í heiminum um 170 milljón tonnum árið 2014. Lönd í Asíu eru stórtækust þegar kemur að fiskeldi og um 90% eldisfisks á markaði kemur þaðan.

Kínverjar framleiða allra þjóða mest af eldisfiski og áætlað eldi þar árið 2014 var tæplega 60 milljón tonn, Indónesía var í öðru sæti með 14,4 milljón tonn. Í þriðja og fjórða sæti voru Indland og Víetnam með tæplega fimm og 3,8 milljón tonn. Í kjölfarið fylgdu Filippseyjar, Bangladess, Suður-Kórea, Noregur, Síle og Egyptaland með eldi upp á rúmar tvær og niður í eina milljón tonn. Bandaríki Norður-Ameríku framleiða rúmlega 500 þúsund tonn á ári.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva var á árinu 2016 slátrað um 15.000 tonnum af eldisfiski hér á landi sem er aukning um 80% frá árinu 2015. Mest er framleitt af laxi, alls um 8.000 tonn, en bleikjan kemur þar á eftir með 4.000 tonn. Framleiðsla á regnbogasilungi hér á landi árið 2016 var um 2.500 tonn.

Bleikja

Heimskautableikja, eða bleikja, eins og tegundin er oftast kölluð, er laxfiskur sem finnst í sjó og vötnum á norðurhveli og er útbreiðsla hennar nyrst allra ferskvatnsfiska. Útbreiðslusvæði bleikju er meðal annars á Íslandi, Grænlandi, Svalbarða, Skandinavíu, Lapplandi, Finnmörku og Bretlandi.

Auk þess finnst bleikja í vötnum í Alpafjöllunum eins og latneska heitið Salvelinus alpinus bendir til. Bleikja er eina tegundin af ættkvíslinni Salvelinus. Nafnið bleikja á íslensku er dregið af rauðbleikum lit kviðarins.

Þrátt fyrir að bleikjur geti orðið allt að tólf kíló að þyngd verða þær sjaldan meira en þrjú til fjögur kíló og algeng stærð er hálft til eitt kíló.

Hausinn er lítill og með lítinn munn. Hreistrið er fíngert og sporðurinn sýldur.

Aðlögunarhæfni bleikju er mikil og geta þær hrygnt bæði í straumvatni og stöðuvötnum. Að öllu jöfnu lifa seiði bleikju fyrstu árin í ferskvatni en ganga síðan í sjó á þriðja til fjórða ári og dvelja þar yfir veturinn og kallast sjóbleikja. Í sumum tilfellum elur bleikja allan sinn aldur í ám eða stöðuvötnum og kallast þær þá staðbundnar.

Sjóbleikjur dvelja í sjó nokkrar vikur á hverju sumri en ganga í ferskvatn seinni part sumars til hrygningar á malar- eða grjótbotni. Eftir hrygningu á haustin eyðir bleikja vetrinum í vatninu þar sem hún hrygndi.

Klak á sér stað í mars til maí. Kynþroski bleikjuseiða ræðst af umhverfisaðstæðum. Í vötnum þar sem aðstæður eru óhagfelldar og lítið um fæðu geta seiði orðið kynþroska við tíu sentímetra lengd. Þar sem aðstæður eru óhagkvæmar getur kynþroski seiðanna dregist þar til þau eru 50 til 60 sentímetrar að lengd. Vaxtarhraðinn er meiri þar sem nóg er um fæði.

Bleikja, bæði staðbundin og sjóbleikja, er útbreidd um allt land og afbrigði af henni mörg. Frægust er líklega bleikjan í Þingvallavatni sem telst fjögur afbrigði. Murta sem lifir á svifi, dvergbleikja sem lifir í gjótum og sprungum í hrauninu, sílableikja sem lifir á fiski og kuðungableikja sem lifir við botn vatnsins.

Bleikjueldi

Heimsframleiðsla á bleikju er um tíu þúsund tonn á ári og þar af framleiðslan á Íslandi um fjögur þúsund tonn. Ísland er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum í dag og ráðandi á flestum útflutningsmörkuðum.

Mest er flutt út af bleikju frá Íslandi til Bandaríkjanna, um 70% framleiðslunnar, og er hún flutt út sem fersk flök, heill slægður fiskur með haus og einnig frosinn.

Aðstæður til bleikjueldis þykja góðar hér á landi þar sem hægt er að nýta jarðhita og aðgangur að hreinu vatni er nægur.

Vaxtarhraði bleikju í eldi er háður hitastigi alveg eins og við náttúrulegar aðstæður. Við 9 til 10° á Celsíus tekur um ár fyrir seiði að ná 100 grömmum að þyngd. Við góðar aðstæður má framleiða milli 50 og 70 kíló af bleikju á ári á rúmmetra eldisrýmis í kerum. Í eldi er fiskurinn alinn í trefjaplastkerum eða dúkklæddum tjörnum. 

Talið er að hægt sé að tvöfalda framleiðslu á bleikju hér á landi á næstu árum og með kynbótum er álitið að hægt sé að tvöfalda vaxtahraða eldisstofnsins á næstu áratugum.

Regnbogasilungur

Regnbogasilungur eða regnboga­urriði er laxfiskur af sömu ættkvísl og kyrrahafslax og kallast á latínu Oncorhynchus mykiss. Náttúrulegt útbreiðslusvæði hans er í Kyrrahafi frá Kamtjakaskaga í Rússlandi yfir til Alaska og meðfram vesturströnd Bandaríkjanna að nyrðri hluta Mexíkó.

Þolsvið regnbogasilungs á hita, 0 til 27° á Celsíus, er meira en bleikju og hann þarf ekki eins hreint og súrefnisríkt vatn til að dafna.

Algeng stærð regnbogasilungs er frá hálfu og upp í 2,3 kíló en vitað er um staðbundna fiska sem hafa verið ríflega tíu kíló að þyngd. Litur regnbogasilungs er breytilegur milli búsvæða og undirtegunda. Algengt er að fullvaxnir fiskar séu blá- eða ólífugrænir með svörtum blettum og með rauða línu eftir líkamanum endilöngum og er línan mest áberandi hjá kynþroska hængum. Hausinn er lítill og kjafturinn líka. Sporðurinn er sýldur.

Regnbogasilungur er ránfiskur og hann nánast alæta á allt sem hann veiðir.

Á nítjándu öld var regnbogasilungi dreift í ár og vötn um alla Norður-Ameríku. Hann var fluttur til Bretlands um 1880 til eldis í vötnum þar sem það þótti góð skemmtun að veiða hann á stöng. Seinna var hann fluttur til annarra Evrópulanda, til Noregs 1908 og Danmerkur um svipað leyti.

Um miðbik síðustu aldar lá svo mikið á að breiða regnbogasilung út í ár og vötn í nokkrum ríkjum í Bandaríkjunum að sílum var varpað úr flugvélum sem flugu lágt yfir vötn eins og um hernaðaraðgerð væri að ræða.

Til Íslands var regnbogasilungur fyrst fluttur um 1950. Í þeim fiskum kom upp nýrnaveiki og þeim öllum slátrað fljótlega eftir komuna til landsins. Skömmu síðar voru fluttir inn fiskar af öðrum stofni.

Eldi á regnbogasilungi

Regnbogasilungur er vinsæll í fiskeldi því hann vex hratt og er ódýr í framleiðslu. Heimsframleiðsla á regnbogasilungi er um 800 þúsund tonn á ári og er stundum sagt að hann sé jafn algengur í eldi og hænur í ræktun.

Stærstu framleiðendur regnbogasilungs í heiminum eru Síle og Noregur. Auk þess framleiða Bandaríkin, Japan, Ástralía, Bretlandseyjar og nokkur ríki í Afríku mikið af honum.

Í eldi verður regnbogasilungur um 25 sentímetra langur á tveimur til þremur árum og um kíló á þremur til fjórum árum. Hængar verða kynþroska eins til tveggja ára gamlir en hrygnur tveggja til þriggja ára.

Eldi á regnbogasilungi hófst að Laxalóni við Grafarholt í Reykjavík árið 1951. Miklar deilur voru um eldið og það meðal annar gagnrýnt á þeim forsendum að regnbogasilungur væri ekkert annað en sporðminkur sem mundi valda óbætanlegum skaða slyppi hann laus út í náttúruna.

Sjókvíaeldi á regnbogasilung hefur vaxið talsvert hér á landi undanfarin ár. Heildarframleiðslan á árinu 2015 var rúmlega 700 en 2.500 tonn árið 2016 og því ríflega þrefaldast milli áranna.

Líkt og með aðra laxfiska er regnbogasilungur seldur sem fersk flök, reyktur, heill slægður fiskur með haus eða frosinn.

Auk þess að vera eldisfiskur er regnbogasilungi stundum enn sleppt í vötn víða um heim til sportveiða. Regnbogasilungur berst hingað öðru hvoru í sjó og koma þeir fiskar sennilega úr fiskeldi í Færeyjum.

Regnbogasilungur hefur nokkrum sinnum fundist í ám hér á landi og síðast 2016 á Vestfjörðum. Í frétt vegna þess, á RÚV, sagði sviðsstjóri hjá Fiskistofu að regnbogasilungur hafi ekki náð fótfestu hér og því verði áhrifin á lífríkið tímabundin. Í frétt RÚV segir að ljóst sé að fiskurinn komi úr sjókvíaeldi þrátt fyrir að Fiskistofu hafi ekki borist tilkynningar um sleppingar.

Þar segir einnig að regnbogasilungurinn muni að öllum líkindum hverfa úr ánum, annaðhvort með veiði eða af náttúrulegum orsökum. Á meðan hann er í ánum sé hann hins vegar í samkeppni um fæðu við náttúrulega fiska og geti haft áhrif á hrygningarstöðum.

Regnbogasilungur hrygnir á vorin og hrognin klekjast á haustin og því lifa seiðin ekki af veturinn á norðlægum slóðum og er regnbogasilungur því aðeins eldisfiskur í Evrópu. Er þetta ástæða þess að hann fjölgar sér ekki í náttúrunni hér á landi.

Bláa byltingin

Allar spár um fiskeldi gera ráð fyrir að mikilvægi þess eigi eftir að aukast mikið í framtíðinni. Fiskur er hollur matur og vinsældir hans alltaf að aukast samhliða því að ört gengur á villta fiskistofna. Reyndar svo ört að svartsýnustu spár segja að það verði enginn fiskur lengur í sjónum til að veiða um miðja þessa öld.

Hvort sem búið verður að veiða allan fiskinn í sjónum eða ekki á mikilvægi fiskeldis eftir að aukast á næstu áratugum til að mæta próteinþörf mannkyns sem fer sífjölgandi. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...