Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá 1. júlí 2024 verða rimlastíur, sem ekki eru með sérstöku legurými, bannaðar í Danmörku.
Frá 1. júlí 2024 verða rimlastíur, sem ekki eru með sérstöku legurými, bannaðar í Danmörku.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 19. júlí 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „Kvægkongres“, en þeir sem til þekkja vita að þetta er einn helsti vettvangur þekkingarmiðlunar varðandi nautgriparækt í norðanverðri Evrópu.

Alls voru flutt 70 erindi að þessu sinni í 11 málstofum og verður hér gerð grein fyrir nokkrum af þeim fróðlegu erindum sem flutt voru í nokkrum af málstofum fagþingsins. Fyrsti hluti umfjöllunar um þetta fagþing var birtur í síðasta tölublaði Bændablaðsins.

Samfélagið

Málstofan fjallaði um þá fjölmörgu snertifleti sem landbúnaður og samfélagið í heild sinni hefur, en vegna þátttöku Danmerkur í Evrópusambandinu eru þeir snertifletir bæði innan Danmerkur og einnig þvert yfir Evrópu.

Endurskoðun landbúnaðarsamnings

Nú stendur yfir endurskoðun á landbúnaðarsamningi Evrópu­sambandsins, sem mun gilda 2023­-2027, en nýr samningur er talinn muni innihalda þónokkrar kerfisbreytingar fyrir bændur í löndum Evrópu­ sambandsins, aðallega í átt að enn frekari aftengingu stuðnings við framleiðslu. Þar er mest horft til þess að stuðningur breytist yfir í grænar greiðslur, þ.e. stuðning við breytta búskaparhætti sem snúa að því að efla náttúru og draga úr umhverfisáhrifum landbúnaðar innan Evrópusambandsins.

Núverandi samningur inniheldur raunar margs konar kröfur í þá veru, svo sem bann við sinubruna, styrkir veittir ef tún fá að vera óhreyfð lengi, þ.e. ekki endurræktuð, styrkir til verndunar votlendis og fleira í þá veru. Dönsku bændasamtökin, L&F, eru nú aðallega að vinna í því að fá rýmkun á kröfunum og að aðlaga megi þær betur dönskum landbúnaði en á móti þá eru margar stofnanir og félagasamtök í Evrópu sem berjast fyrir því að herða kröfurnar verulega.

Þetta kom m.a. fram í erindi Niels Lindberg Madsen, sem er yfirmaður Evrópumála hjá L&F. Dæmi um þetta er t.d. að hvert bú má ekki nýta 4% af ræktarlandi sínu til framleiðslu til að geta fengið styrki en inni í því hefur hingað til ekki talist t.d. land sem er notað fyrir skjólbelti. Reglur Evrópusambandsins hafa litið svo á að skjólbelti sé nýting á ræktarlandi en L&F vilja fá þessari skilgreiningu breytt svo dæmi sé tekið.

Þá stefnir í að heildarstuðningur við nautgriparækt sem slíka muni dragast saman á næsta samningstíma og t.d. má ætla að gripagreiðslur mjólkurkúa verði aflagðar að fullu árið 2026. Aftur á móti munu greiðslur fyrir sláturgripi hækka nokkuð. Þá geta bændur, eins og áður segir, sótt um stuðningsgreiðslur til þess að fara í aðgerðir til að draga úr sótspori búa sinna t.d. með ræktun plantna sem þurfa minni áburð eða meðhöndlun. Þess má geta að heildarstuðningur við danska kúabændur í mjólkurframleiðslu, þ.e. þegar allar stuðningsgreiðslur í öllu formi eru taldar saman, er í dag um 5­6% af ársveltu búanna.

3% til ungra bænda

Af heildarstuðningsgreiðslum munu 3% þeirra fara til ungra bænda, þ.e. vegna kaupa á búum eða kynslóðaskipta. Þannig fá ungbændur t.d. eingreiðslu upp á 14 milljónir íslenskra króna þegar þeir hefja búskap en gerð er krafa um að umsækjandi sé með búfræðipróf og yngri en 40 ára. Þá er möguleiki á að fá frekari fjárfestingarstyrk ef afgangur er á reiknuðum heildarstyrk til landbúnaðarins. Reglurnar eru þannig að allir bændur þurfa að sækja sérstaklega um styrki og ekkert gerist sjálfkrafa. Ef einhverjir sækja ekki um, eða minna er sótt í ákveðin verkefni sem hafa fast fjármagn, er hægt að veita því sem umfram er til ungbænda!

Nautgriparæktin verður áfram mikilvæg

Annað ekki síður áhugavert erindi í þessari málstofu flutti Jesper Bo Jensen, en hann er með þann einstaka starfstitil að vera framtíðarrannsakandi! Hann hefur kafað ofan í það hvernig vænta megi þróunar á nautgriparækt í Danmörku á komandi árum og áratugum og í stuttu máli var hann bjartsýnn fyrir hönd danskra nautgripabænda.

Vissulega hafi ýmislegt gerst undanfarið, s.s. Covid­19 og stríðið í Úkraínu, sem hafi leitt til nokkuð ófyrirsjáanlegra breytinga á mörkuðum en heildarþróunin sé áfram í sömu átt. Fólki fjölgar í heiminum og á sama tíma eykst hlutdeild millistéttarfólks í heiminum. Þannig er talið að af þeim 7,9 milljörðum íbúa heimsins í dag þá séu nú 3,8 milljarðar sem flokkast sem millistétt en að árið 2030 verði þessi fjöldi kominn í 5,3 milljarða íbúa. Allt þetta fólk þarf að nærast og það er einmitt þetta fólk sem hefur efni á hágæða landbúnaðarvörum. Þess vegna spáði hann því að eftirspurnin eftir mjólk og kjöti muni aukast hraustlega á allra næstu árum, þrátt fyrir mögulegan framgang t.d. grænmetis- eða grænkerafæðis á ákveðnum mörkuðum.

Dýravelferð

Að þessu sinni var heil málstofa nýtt fyrir málefni sem lúta að velferð dýra. Skýringin á því er m.a. að 1. júlí í ár taka við nýjar kröfur til danskra nautgripabúa og því ástæða til að hnykkja á ýmsum atriðum sem tengjast hinum nýju kröfum.

Eitt átsvæði fyrir hverja nýbæru

Það eru ýmsar nýjar kröfur sem taka gildi fyrir dönsk kúabú s.s. að allar kýr þurfa að hafa aðgengi að vélknúnum kúaburstum og öll geldneyti hafi aðgengi að burstum svo dæmi sé tekið.

Þá þarf að vera a.m.k. eitt átsvæði fyrir hverja nýbæru og það setur marga danska bændur í vanda enda oft fleiri kýr en átsvæði í fjósum. Einnig gildir sama krafa um kýr sem eru langt gengnar með og aðrar kýr mega nú að hámarki vera tvær um hvert átsvæði. Þá má ekki lengur vera með of margar kýr um hvert drykkjarkar, hámark 10 kýr á hvern lengdarmetra drykkjarkars.

Rimlastíur bannaðar

Nýju reglurnar taka einnig á aðstöðu fyrir uppeldi en dönsku bændurnir fá þó smá frest á að breyta fjósum sínum en frá 1. júlí 2024 verður óheimilt að vera með heilrimlastíur fyrir gripi í uppeldi.

Enginn gripur má s.s. hafa eingöngu aðgengi að rimlum og því þarf að vera með legusvæði í öllum stíum. Þessi breyting kallar hjá flestum bændum á viðbyggingar enda er ekki nóg að setja bara legusvæði inn í stíurnar þar sem það þrengir þá að göngusvæði gripanna. Fyrir marga bændur þýðir þessi breyting að nánast þarf að tvöfalda rými fyrir gripi í uppeldi!

Helti úr sögunni?

Í málstofunni voru nokkur erindi sem sneru að klaufskurði og helti kúa en stærsta afurðafélag Danmerkur, Arla Foods, gerir nú kröfu um að engin kýr í fjósum sem framleiða mjólk fyrir félagið hafi haltar kýr.

Þetta er vissulega ekki hægt að tryggja algjörlega en með markvissri vinnu og fyrirbyggjandi aðgerðum er nánast hægt að koma í veg fyrir helti.

16% kúa með málmhluti í meltingarveginum
Segull sem er sérstaklega hannaður fyrir vömb kúa. Á myndinni sést hvað hafði safnast í segulinn þegar kúnni var slátrað.

Erindi Niels Bastian Kristensen, fóðurfræðings og dýralæknisins Peter Raundal, um málmhluti í fóðri kúa, var einkar áhugavert en nýleg athugun á meltingarvegi sláturkúa leiddi í ljós að í 16% þeirra mátti finna einhvers konar málma! Þessir málmar, sem kýrnar éta óvart, geta auðvitað valdið kúnum verulegum skaða. Þeir félagar, sem báðir starfa fyrir SEGES, framkvæmdu rannsókn á tíðni málmhluta í meltingarvegi sláturkúa og reyndu að rekja hvaðan þeir komu.

Í ljós kom að þetta voru t.d. þræðir úr dekkjum (sem notuð eru til að fergja flatgryfjur), girðingar- og gaddavírar, skrúfur og naglar auk fleiri málmhluta. Athygli vekur þó að dósir, t.d. sem hent er á víðavangi, var vart að finna í þessari rannsókn en skýringuna sögðu þeir líklega þá að kýr skera sig líklega frekar á þeim og hætta að éta.

Mynd af girðingarvír sem fannst í meltingarvegi.

Áhrif þess sem málmhlutir í meltingarvegi geta haft er að átgeta kúnna minnkar, auk þess sem kýrnar verða oft veikar og kvaldar. Oft er mjög erfitt að greina hvað það er sem veldur þessum kvilla hjá kúnum og má leiða að því líkum að einkennin geti hreinlega valdið því að kúnum sé slátrað.

Til þess að koma að mestu í veg fyrir það að málmhlutir endi í kúnum mæltu þeir félagar með því að gæta sérstaklega að sér við slátt og hirðingu sem og að setja kraftmikla segla bæði í fóðurblandara og koma fyrir sérstökum þar til gerðum seglum í vömb kúnna.

Annars voru fleiri áhugaverð erindi í málstofunni um dýravelferð t.d. varðandi hönnun burðaraðstöðu, um geldkúafóðrun, broddmjólkurgjöf sem hægt er að lesa nánar um á heimasíðu fagþingsins (sjá hlekk neðst í greininni).

Hér sést að sé settur sterkur segull í fóðurblandara þá gerir hann klárlega gagn!

Holdanautabúskapur

Danir hafa löngum verið stórtækir þegar kemur að holdanautabúskap og skipta hjarðirnar í landinu hundruðum. Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á samtengingu holdanautabúskapar og líffræðilegs fjölbreytileika gróðurs þ.e. þar sem nautgripir ganga úti allt árið sé hlúð sérstaklega að því að fjölga plöntutegundum þrátt fyrir beitina og áganginn.

Þetta fjallaði m.a. erindi Íslandsvinarins Per Spleth og Rikke Rørby Graversen um, en bæði starfa hjá SEGES. Markmiðið er gott og gilt, þ.e. að auka flóru landsins, en það fer hreint ekki saman við hámörkun á vexti nautgripa, en danskar mælingar sýna að því fjölbreyttari sem flóra landsins sem gripirnir ganga á því hægari verður vöxturinn. Þetta má þó samræma með því að bæta bændunum upp vaxtartapið, með styrkjum, vegna lengri eldistíma. Þá ráðlagði Per bændum sérstaklega að vanda til bústjórnarinnar þegar kemur að útigangi:

Daglega:

  • Fylgjast með holdafari og atferli gripanna
  • Tryggja aðgengi að góðu drykkjarvatni og steinefnum
  • Tryggja aðgengi að fóðri / góðri beit
  • Vera með aðgengilegt þurrt legusvæði
  • Veita gripum aðgengi að skjóli

Aldrei vera með:

  • Magragripi
  • Úfna gripi eða gripi með hárlausa bletti
  • Skítuga gripi
  • Gripi sem hengja haus
  • Gróðurlaus (uppvaðin) svæði
  • Forarpytti í kringum át- eða drykkjarsvæði
  • Beitarsvæði án aðgengis að skjóli • Beitarsvæði án aðgengis að þurru
    legusvæði

Í næsta Bændablaði verður birtur síðasti hluti umfjöllunar um þetta áhugaverða fagþing, en þess má geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að nota eftirfarandi hlekk: https:// www.tilmeld.dk/kvaegkongres2022/ praesentationer.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...