Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Við mjólkurframleiðslu þarf að passa vel upp á þrif og þá er vissara að klútarnir sem notaðir eru séu líka tandurhreinir og lausir við bakteríur.
Við mjólkurframleiðslu þarf að passa vel upp á þrif og þá er vissara að klútarnir sem notaðir eru séu líka tandurhreinir og lausir við bakteríur.
Mynd / BBL
Á faglegum nótum 17. maí 2017

Eru þvottaklútarnir hreinir?

Höfundur: Snorri Sigurðsson, sns@seges.dk
Klútarnir, sem notaðir eru til að þvo spena og júgur, eiga auðvitað að vera hreinir eftir að hafa farið í þvottavélina eftir notkun en reynslan erlendis sýnir að oft ná þvottavélarnar ekki að sjóða klútana þó svo að vélin sé stillt þannig. 
 
Skýringin felst einfaldlega í því að skynjarar eða hitakerfi þvottavélanna geta bilað. Ef klútarnir eru ekki soðnir er hætta á því að bakteríur lifi þvottinn af og geti þar með valdið smiti við næstu notkun klútanna. Til þess að tryggja góðan þvott þarf því reglulega að yfirfara þvottinn og með því móti draga úr líkunum á því að smitefni geti borist á milli kúa með klútunum.
 
Val á þvottavél
 
Margir kúabændur nota hefðbundnar heimilisþvottavélar fyrir klútaþvottinn en þær eru í raun ekki sérlega heppilegar fyrir svona þvott, enda eru oft í klútunum bæði mikið af óhreinindum, löng hár og jafnvel spænir eða strá. Það er því mælt með því að nota iðnaðarþvottavélar fyrir klútaþvottinn en þær eru byggðar fyrir stórþvott og eiga mun auðveldara með að takast á við klútaþvottinn, sér í lagi vegna þess að slíkar vélar eru með botnloku sem hleypir óhreinindum beint í niðurfall en hefðbundnar heimilisvélar nota þar til gerðar dælur sem eru viðkvæmar fyrir aðskotahlutum. 
 
Til þess að verja þessar dælur eru því flestar vélar með síur sem sía frá mestu óhreinindin en þessar síur draga úr afköstum vélanna auk þess sem reglulega þarf að hreinsa þær. Þá eru hitakerfi heimilisþvottavélanna mun afkastaminni og ekki eins traustlega gerð og hitakerfin sem eru í iðnaðarvélunum, sem eru einnig almennt byggðar fyrir mun fleiri þvotta en heimilisvélar og ættu því að endast mun lengur.
 
Þrífðu þvottavélina
 
Eitt af því sem sést of oft eru afar óhreinar þvottavélar og slíkt getur aukið hættuna á því að bakteríur nái að vaxa og dafna. Það þarf því reglulega að þrífa vélarnar handvirkt. 
 
Helstu staðir sem þarf að þrífa handvirkt er glerið á vélinni og gúmmíþéttilistinn, sérstaklega ef hann er með fellingu sem getur hæglega safnað í sig miklu magni af óhreinindum. Þá þarf alltaf öðru hverju að skoða hvort tromlan er vel hrein og laus við óhreinindi sem eiga það til að festast í henni.
 
Ekki yfirfylla vélina
 
Jafnvel þó svo að þvottavélin virki vel og í samræmi við væntingarnar þá er ekki þar með sagt að þvotturinn á klútunum takist vel. Skýringin getur falist í jafn einföldum hlut og að ekki er notað þvottaefni sem hentar fyrir klútaþvott eða þvottaefnið ekki notað í réttu magni miðað við þarfirnar við þvottinn. Líklega er þó algengasta skýringin sú að vélarnar eru einfaldlega yfirfylltar og þá næst auðvitað ekki góður þvottur. 
 
Allar þvottavélar eru gerðar fyrir ákveðið magn af þvotti og það er mikilvægt að fara ekki yfir þessi mörk. Til þess að minnka líkurnar á því að það gerist er óhætt að mæla með því að setja rétt magn í vélina og t.d. setja strik á hurðina sem sýnir þá það hámarksmagn sem setja má í vélina. 
 
Sumir bændur hafa tekið mynd af fullri þvottavél og eru svo með útprentaða mynd einhvers staðar í námunda við vélina til þess að minna sig og aðra á það hvað vélin ræður við. Þetta mætti einnig gera fyrir magnið af sápunni sem notuð er, þ.e. sé um handvirka skömmtun að ræða. Þá mætti einnig vera með fasta mælieiningu fyrir þvottaefnið og nota t.d. margir plastmál sem er með striki á eða jafnvel skorið til þannig að sléttfullt málið innihaldi þá kórrétt magn af sápu.
 
Gott eftirlit eykur öryggið
 
Óháð því hvort notuð er hefðbundin heimilisþvottavél eða iðnaðarþvottavél er mikilvægt að fylgjast reglulega með því hve vel hún þvær og þá má einnig auka endingu hennar með því að þvo hana tóma öðru hverju og hreinsa með þar til gerðum efnum. Þá er hægt að mæla hitastig við þvottinn með sérstökum límmiðum sem hægt er að panta víða. Þessir miðar eru límdir innan á glerið á hurðinni og eftir þvottinn má lesa af miðanum hvort ætluðum hita hafi verið náð við þvottinn. Þetta er afar einfalt húsráð sem eykur öryggið við þvottinn og ætti að nota reglulega óháð því hvort notuð er heimilisþvottavél eða iðnaðarþvottavél.
 
Nota einungis tandurhreinar klútafötur
 
Þegar klútarnir hafa verið þrifnir er mikilvægt að þeir séu settir í tandurhreina klútafötu enda má segja að vinnan við þvottinn sé fyrir bí ef nýþvegnir klútarnir eru settir í óhreina fötu eða annað ílát.
 
Hægt að rannsaka klútana
 
Enn eitt atriðið sem nefna má, þegar rætt er um meðhöndlun á þvottaklútum, er að ef grunur er um að klútarnir geti innihaldið bakteríur eftir þvott, þá er hægt að rannsaka þá og komast að því hvort bakteríur leynast enn í þeim eftir þvottinn.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk

Skylt efni: spenaþvottur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...