Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Erfðabreytt ræktun –  þörf á stefnumótun
Á faglegum nótum 17. desember 2014

Erfðabreytt ræktun – þörf á stefnumótun

Höfundur: Ólafur Dýrmundsson

Um árabil hefur mikið verið fjallað um notkun erfðabreyttra nytjajurta í landbúnaði, m.a. hér í Bændablaðinu. Skemmst er að minnast umfjöllunar Söndru B. Jónsdóttur í fróðlegri grein á bls. 51 í blaðinu 23. október sl. þar sem hún bendir m.a. á að erfðabreyttar lífverur séu bannaðar í lífrænni framleiðslu.

Búnaðarþingsályktun

Á Búnaðarþingi 2013 var lagt fram mál undir heitinu „Kostir og gallar erfðabreyttra matvæla“. Fékk það ágæta umfjöllun og var samþykkt ályktun um að Bændasamtök Íslands skyldu móta stefnu um þessi efni. Slíkt hefur verið gert víða erlendis, m.a. í Noregi, sem við berum okkur oft saman við. Í framhaldinu var haldin lokuð málstofa í Bændahöllinni 12. nóvember 2013 með formönnum aðildarfélaga Bændasamtaka Íslands. Sá sem þetta ritar var þar meðal frummælenda og vonaðist eftir að sú gagnlega umræða sem þar fór fram gæti leitt til stefnumótunar í samræmi við ályktun Búnaðarþings fyrir það ár. Mér finnst orðið mjög tímabært að ráða þessu máli til lykta og stuðla þannig að opinberri stefnumótun. Í þessari grein fjalla ég í stuttu máli um tvenns konar sjónarmið, annars vegar landbúnaðarpólitísk og hins vegar þau er varða ímynd íslensks landbúnaðar, bendi á hugsanlega valkosti við stefnumótun og velti fyrir mér hugsanlegum ábata af erfðabreyttri ræktun með tilvísunum í margvíslegar heimildir sem málið varða.

I.
Landbúnaðarpólitísk sjónarmið

a)  Akuryrkja  með erfðabreyttum
nytjajurtum (GMOs), einkum maís, sojabaunum, kanólaolíu og baðmull, hefur aðeins verið stunduð að marki í hálfan annan áratug, mest í sex löndum með Norður-Ameríku í broddi fylkingar. Enn er útbreiðslan lítil og ekki í samræmi við væntingar fyrir 20 árum, þ.e.a.s. á aðeins um 3.5% af akuryrkjulandi og hjá 0.7% bænda í heiminum. Mest er ræktunin hjá fyrirtækjum, mun minni á venjulegum fjölskyldubúum. Mest af sölu sáðvöru og annarra aðfanga sem tengjast erfðabreyttri ræktun er á höndum stórra fjölþjóðafyrirtækja á borð við Monsanto, Syngenta og DuPont, allt háð einkaleyfum. Er þetta umhugsunarverð þróun nú á ári fjölskyldubúskapar.

b) Framangreind einkaleyfi er mjög
umdeild og er sú skoðun útbreidd meðal bænda og samtaka þeirra í heiminum að í uppsiglingu sé ný heimsvaldastefna stórfyrirtækja í fæðuframleiðslu (food production imperialism) sem komi til með að skaða hagsmuni bænda og ógna fæðuöryggi í heiminum. Harka og einokunartilburðir, t.d. Monsanto, eru illræmdir og lýsa sér m.a. í lögsóknum og skaðabótakröfum á hendur bændum sem ekki hafa notað erfðabreytt fræ en það samt borist, hugsanlega með veðrum og vindum, inn á lönd þeirra. Þess eru dæmi að bændur með lífræna ræktun hafi misst vottunina af þessum sökum. Lýðræðisleg og samfélagsleg ábyrgð þessara fyrirtækja virðist lítil og ræktendum í hefðbundnum kerfum, svo og í lífrænni ræktun, stendur ógn af þessari þróun. Þetta getur átt sérstaklega við um þjóðir á borð við Ísland með litla og einhæfa markaði. Nú hefur smáríkið Bhutan í Himalajafjöllum bannað alla erfðabreytta ræktun og stefnir markvisst að lífrænum landbúnaði, a.m.k. tvö ríki í Afríku fara sennilega sömu leið bráðlega og stór svæði í mörgum löndum Evrópu eru yfirlýst laus við erfðabreytta ræktun.

c) Komnar eru fram vísbendingar
í dýra­tilraunum um skaðsemi fóðrunar með erfðabreyttu fóðri. Þetta kemur þó yfirleitt ekki í ljós fyrr en dýrin hafa verið fóðruð vel fram á eða út æviskeiðið, t.d. lifra- og nýrnaskemmdir í rottum. Einnig geta komið til eituráhrif frá t.d. Roundup (glyphosate) sem tengjast  myndun krabbameina í æxlunarfærum kvendýra. Hvorki er hægt að sanna né afsanna áhrif á fólk því að þar skortir frekari rannsóknir en ýmsar grunsemdir og getgátur eru uppi.

d) Framleiðendur  erfðabreyttra
lífvera hafa alltaf barist gegn því að matvæli og fóður sé merkt sérstaklega, neytendum og bændum til upplýsingar. Þessi stóru fyrirtæki, sem hafa mikla yfirburði í krafti fjármagns og áhrifa í efnahagslífi heimsins, eru þó komin í vörn og nú eru slíkar merkingar að ryðja sér til rúms, meira að segja í höfuðvíginu, Bandaríkjunum. Þetta kom m.a. mjög skýrt fram í erindum forystumanna Whole Foods Market á málþingi í Bændahöllinni 17. september 2013 þannig að á næstu árum munu slík dreifingarfyrirtæki, sem leggja áherslu á gæði, sjálfbærni og fjölskyldubúskap, gera skýran greinarmun á afurðum með eða án erfðabreyttra efna (GMO / non–GMO).

e) Þegar á heildina er litið virðast
stóru líftæknifyrirtækin, þ.e.a.s hluthafar þeirra, einkum hafa hagnast á erfðabreyttri ræktun. Ekkert hefur dregið úr eiturefnanotkun, áburðarþörf og vatnsnotkun, gagnstætt því sem væntingar stóðu til á sínum tíma. Ekkert bendir til þess að þessi ræktunaraðferð hafi bætt hag bænda og neytenda, svo sem með lægra aðfangaverði eða lægra matvælaverði. Þvert á móti gætu einkaleyfi, fákeppni og einokun skaðað bæði framleiðendur og neytendur með ýmsum hætti, einkum þegar til lengri tíma er litið sbr. b) lið hér að framan. Burtséð frá því hvort erfðabreytt ræktun reynist skaðleg eða ekki er hér á ferðinni mjög veigamikið mál séð frá landbúnaðarpólitísku  sjónarhóli. Nærtækast er að kynna sér viðhorf  Norðmanna til þeirra mála. Sumir kveða svo sterkt að orði að hið landbúnaðarpólitíska sjónarmið eitt sér nægi til mótunar stefnu um þessi efni.

II.
Ímyndarsjónarmið

a) Það álit sem fólk hefur á t.d. þeim
aðferðum  sem beitt er við framleiðslu matvæla mótar ímyndina. Hún getur haft áhrif á gildismat, verðmyndun og markaðinn í víðu samhengi. Ímyndin getur jafnvel tengst heilum þjóðum. Þannig virðast augljós tengsl á milli vaxandi áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi og ímyndar þess sem tiltölulega hreins og óspillts lands er uppfyllir ýmsar eftirsóknarverðar gæðakröfur. Hvað varðar útbreiðslu erfðabreyttra lífvera mætti t.d. tengja ímyndina þremur þáttum; landi, fóðri og landbúnaðarafurðum.

b) Vegna bæði meintra og raunveru­
legra ágalla erfðabreyttra lífvera í landbúnaði, svo og í náttúrlegum vistkerfum, er algengt að líta á þessa ræktun sem mengun lands, sérstaklega akuryrkjulands. Þau lönd og svæði sem leyfa ekki erfðabreytta ræktun eru m.a. að gera það til að viðhalda góðri ímynd en einnig koma við sögu landbúnaðarpólitísk sjónarmið, sbr. I hér að framan. Hér á landi gæti slíkt t.d. skipt máli í sambandi við ferðaþjónustu því að kannanir hafa sýnt að náttúruunnendur og umhverfissinnar sækja landið mikið heim vegna hinnar alhliða hreinleikaímyndar.

c) Samsetning og uppruni fóðurs fyrir
búfé og önnur húsdýr skiptir máli, m.a. með tilliti til matvælaöryggis. Sú fullyrðing líftæknifyrirtækja að erfðabreytt efni eyðist í meltingarvegi hefur ekki staðist seinni tíma rannsóknir. Löggjöf um merkingar víða um heim, þar með hér á landi, staðfestir að bændur og aðrir eiga að vera upplýstir um samsetningu þess fóðurs sem þeir nota fyrir dýr sín. Þar með er fóður með erfðabreytt efni aðgreint, m.a. vegna varúðarreglunnar, enda enn mikil óvissa  um áhrif þess í fæðukeðjunni. Á alþjóðamarkaði er nú þegar búið að verðfella fóður með erfðabreyttu efni sem endurspeglast að einhverju leyti í örlítið lægra fóðurbætisverði.

d) Svipað gildir um matvæli, þ.e.a.s.
fæðu til manneldis. Alþekkt er að ímynd vörunnar skiptir miklu máli í samkeppni um gæði og verð. Svipað gildir um merkingar hvað varðar fóður og landbúnaðarafurðir, bæði á innanlandsmarkaði og við útflutning. Neytendasamtökin o.fl. talsmenn neytenda hér á landi, svo og lífrænir bændur, hafa lengi barist fyrir merkingum matvæla með erfðabreyttu hráefni. Nú er lögð áhersla á virkt eftirlit Matvælastofnunar. Eftir því sem næst verður komist tengist aukin eftirspurn lífrænt vottaðra matvæla tryggingu fyrir því að við þá framleiðslu sé ekki notað erfðabreytt hráefni. Hvað útflutning varðar er nærtækast að vísa í ummæli talsmanna Whole Foods Market, sbr. I d) hér að framan. Þar er stefnan augljós, vörur með erfðabreyttu hráefni verða ekki í sama gæðaflokki og aðrar sem eru án þess. Væntanlega hefur slíkt áhrif á verð.

III.
Ábendingar um mismunandi áherslur við stefnumótun

a)  Engin varúð. Algert frelsi til dreif-
ingar og ræktunar erfðabreyttra nytjajurta á landbúnaðarlandi. Unnið gegn sérmerkingum eða þeim sýnt tómlæti. Ímyndaðir eða raunverulegir hagsmunir af erfðabreyttri ræktun látnir vega þyngra en varúðarreglan, ekki horft til landbúnaðarpólitískra sjónarmiða og ímyndarsjónarmiða, sbr. I og II hér að framan.

b) Nokkur varúð. Samþykktar ein­-
hverjar hömlur á dreifingu og ræktun erfðabreyttra nytjajurta, viðurkenndur réttur bænda og neytenda til sérmerkinga á fóðri og matvælum með tilliti til erfðabreytts efnis (nú þegar lögleitt), tekið jákvætt undir gagnrýni á einkaleyfi, t.d. til fræsölu, og varnaðarorð varðandi skerta ímynd íslensks landbúnaðar vegna erfðabreyttrar ræktunar. Tómlæti gagnvart gylliboðum líftæknifyrirtækja um ábata af erfðabreyttri ræktun.

c) Mikil varúð. Varúðarreglan höfð
að leiðarljósi, skýr afstaða með algjöru banni gegn erfðabreyttri ræktun á Íslandi utan rannsóknarstofa og gróðurhúsa undir opinberu eftirliti, höfðað verði til samfélagslegrar ábyrgðar fóðurvöruinnflytjenda að flytja ekki inn neitt fóður með erfðabreyttu hráefni, eins og sumir þeirra gera nú þegar og eru þó samkeppnishæfir á markaði, skora á Ríkisstjórn Íslands að hrinda af stað vinnu við alhliða landnýtingaráætlun þar sem fyrirsjáanleg er samkeppni, einkum um gott akuryrkjuland, og síðast en ekki síst, kynna þessa afstöðu stjórnvöldum svo og erlendis vegna útflutningshagsmuna og eflingar ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð. Kynna ætti Evrópusambandinu þessa afstöðu sem lið í sérstöðu íslensks landbúnaðar, þannig að hún verði meðal samningsmarkmiða ef eða þegar samningaferlið heldur áfram.

IV.
Yrði ábati af erfðabreyttri ræktun í akurlendi á Íslandi?

Þótt væntingar um framfarir til hagkvæmari matvælaframleiðslu í íslenskum landbúnaði vegna erfðabreytinga hafi hingað til reynst skýjaborgir einar, og aðeins er þekkt ein hérlend landbúnaðartengd afurð erfðabreytinga sem flokkast reyndar undir snyrtivörur, er brýnt að raunhæf úttekt verði gerð á meintum ábata. Þegar öllu er á botninn hvolft, og hinir margvíslegu hagsmunir hafa verið metnir, hljóta minni hagsmunir að víkja fyrir meiri hagsmunum. Samtök bænda geta haft áhrif en opinber stefnumótum hlýtur að hvíla á herðum Ríkisstjórnar Íslands.

V.
Ábending til Bændasamtaka Íslands

Eftir að hafa, ásamt ýmsum öðrum störfum, verið landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap um 20 ára skeið, vil ég enn einu sinni vara við tómlæti um dreifingu erfðabreyttra nytjajurta hér á landi. Þetta geri ég ekki síst í ljósi ályktunar frá Búnaðarþingi 2014 um eflingu lífræns landbúnaðar. Að mörgu þarf að hyggja þegar kostir og gallar erfðabreyttrar ræktunar eru metnir en ljóst er að væntanleg stefna getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan landbúnað, m.a. varðandi samkeppnisstöðu á gæðamörkuðum og þróun lífrænnar ræktunar. Lagt er til að Bændasamtök Íslands beiti sér fyrir áhættumati (risk assessment) og/eða DAFO-greiningu (SWOT analysis). Niðurstöðurnar verði hafðar til hliðsjónar við mótun stefnu um erfðabreytta ræktun sem eftir umfjöllun á Búnaðarþingi 2015 verði kynnt Ríkisstjórn Íslands.

VI.

Nokkrar  tilvitnanir í upplýsingar um kosti og galla erfðabreyttrar ræktunar
  1) www.bondi.is
  2) www.dupont.com
  3) www.erfdabreytt.net
  4) www.gmo-free-regions.org
  5) www.ifoam.org
  6) www.lbhi.is
  7) www.mast.is
  8) www.monsanto.com
  9) www.natturan.is
10) www.orf.is
11) www.rml.is
12) www.slowfood.com
13) www.syngenta.com
14) www.tun.is
15) www.wholefoodsmarket.com
16) Bændablaðið, 20. tbl., fimmtu­-
dagur 17. október 2013,bls. 24-25. Ráðstefna: Er erfðabreytt framleiðsla sjálfbær?
17) Ákall til mannkynsins. Um
framtíð matvæla og landbúnaðar. Sjálfbærni, lýðheilsa, bætt loftslag, eftir dr. Vandana Shiva o.fl. höfunda. Útgefandi SALKA, 2012, 116 bls.(ISBN 978-9935-17-005-7)
18) Genetic Roulette eftir Jeffrey
M. Smith. Útgefandi Yes! Books, Bandaríkjunum, 2007, 319 bls. (ISBN 978-0-9729665-2-8).
19) Seeds of Deception eftir Jeffrey
M. Smith. Útgefandi Green Books, Bretlandi, 2004, 255 bls. (ISBN 1 903998 41 7)
20) Genetically modified organis­ms,
consumers, food safety and the environment. FAO Ethics Series 2, Rómarborg, 2001, 27 bls. (ISBN 1609-0098).

2 myndir:

Skylt efni: Erfðabreytt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...