Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ananas er ekki ólíkur furukönglum við fyrstu sýn.
Ananas er ekki ólíkur furukönglum við fyrstu sýn.
Á faglegum nótum 19. desember 2014

Ananas – ágæti úr öðrum heimi

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Þegar Kristófer Kólumbus kom til eyjarinnar Guadeloupe í Antileyjaklasa Karíbahafsins í seinni ferð sinni til Ameríku árið 1493 var honum borin ávöxtur sem hvorki hann né nokkur annar frá „gamla heiminum“ höfðu áður séð.

Kristófer þótti hann líkjast furukönglum að útlitinu – og kallaði hann því „piña de Indians“ sem útleggst „furukönglar Indverjanna“. Við nánari kynni komst hann að því að aldin þessir voru langt í frá að hafa nokkuð annað sameiginlegt með könglum furunnar. Svo bragðgóð, sæt og safarík sem honum þótti þau vera. En furunafnið hefur samt náð að fylgja þeim um spænska málheiminn og yfir í þann enska. Enskumælendur kalla þessa ávexti „pineapple“ – en við og flestir aðrir höldum okkur við heitið ananas, sem mun vera komið úr máli Tupi-Guarana í Suður-Ameríku. Á máli þeirra merkir orðið ananas „hinn framúrskarandi ávöxtur“. Þaðan höfum við líka orð eins og „jagúar“ og „tapíóka“.

Upphafið

Ananas, sem á fræðimálinu kallast Ananas comosus, er af fylkingu einkímblöðunga og fellur undir ættbálk grasanna og telst til ættar brómelía. Brómelíur eru flestar setar sem vaxa hátt uppi í trjákrónum regnskóganna í Mið- og Suður-Ameríku. Ein ættkvísl þeirra vex þó í regnskógum Vestur-Afríku. Til ananasættkvíslarinnar teljast nokkrar tegundir sem allar vaxa á jörðu niðri í fjalllendinu um miðbik Suður-Ameríku í Andesfjöllunum austanverðum.

Nokkrar smágerðari ananas­tegundir hafa verið ræktaðar sem pottaplöntur. En sjálf ananasjurtin er of stórgerð til að slá í gegn á því sviði. Og reyndar er álitamál hvort hún er upprunaleg og sjálfstæð tegund vegna þess að hvergi finnst hún vaxandi án þess að mannshöndin hafi komið nærri. Því telja flestir að hún hafi orðið til með úrvali og kynblöndun hjá Guarani-fólkinu sem byggir stóran hluta svæðisins þar sem Paragvæ, Bólivía, Argentína og Brasilía koma saman. Guaranar eru og voru mikil menningarþjóð sem byggðu upp borgir og mikið stórveldi í hálendinu ofan við Amazon löngu áður en Evrópubúar lögðu leið sína þangað. En þá var ríki og stórveldi Guarana farið að riðlast og þjóðin dreifð án miðstýringar. Ræktun þeirra á ananas mun hafa verið komin vel á legg fyrir tvö til þrjú þúsund árum og frá þeim barst ananasræktunin til Mið-Ameríku og eyja Karíbahafsins. Ananasinn sem Kólumbus fékk átti því orðið nokkuð langan aðdraganda og ræktunarsögu sem orðin var sameign þeirra þjóðflokka sem byggðu allt þetta svæði.

Eftir Kólumbus

Eftir að Kólumbus og hans menn komu til sögunnar leið ekki á löngu að ræktun á ananas var komið á legg vítt um veröld hita- og hlýtempraðabeltisins. Fyrstu sögur af ræktun ananas-plantna eru frá Havaí um 1550. En svo komu Spánverjar á legg ananasræktun á Filippseyjum rétt fyrir árið 1600 og um 1770 var ananasrækt komin á í öllum þeim löndum sem bjóða upp á loftslag fyrir slíkt. Nema til Ástralíu. Þar hófst ræktunin ekki fyrr en um 1840. Og auðvitað höfðu kóngar og höfðingjar í Evrópu komið sér upp gróðurhúsum stuttu eftir að plöntur fóru að berast úr „nýja heiminum“ til að rækta ananasplöntur sem báru aldin af og til. Ananasplöntur og aldin þeirra voru miklar gersemar og stöðutákn hjá slíku fólki á sautjándu og átjándu öld.

Grasafræðin

Grasafræðilega er ananasjurtin fjölær, um 120–150 cm há, jurt sem vex í nokkrum hvirfingum langra, lensulaga blaða með þyrnóttum blaðjöðrum. Í miðju hverrar blaðhvirfingar blómgast plantan á þéttu blómaxi. Blómin frjóvgast fyrst og fremst af kólibrífuglum. Við frjóvgunina myndar hvert blóm eins konar ber sem vaxa föst hvert við annað þannig að úr verður einn samfastur ávöxtur.

Upp úr toppi hans vex svo ný hvirfing blaða sem getur skotið rótum og orðið að sjálfstæðri plöntu. En flest þau afbrigði sem ræktuð eru þroska aldin án utanaðkomandi frjóvgunar. Framarlega í neðstu berjunum geta samt verið fræ sem hægt er að koma til með sáningu. En það er samt ekki heiglum hent að lukkast með það. Blaðhvirfingar myndast líka á blómstönglinum undir ávextinum og við rótarháls. Þessar blaðhvirfingar eru notaðar til að fjölga plöntunni. Einnig fer fjölgun líka fram með vefjaræktun. Í ræktun er skipt um plöntur eftir hverja uppskeru. Nýjar plöntur gróðursettar í stað hinna gömlu eftir að búið er að plægja upp akurinn og bæta í hann moltu eða hvíla spilduna með skiptirækt, t.d. með jarðhnetum eða sojabaunum.

Ræktun

Ræktun á ananas er afar sérhæfð og frá gróðursetningu til uppskeru líða átján til þrjátíu og tveir mánuðir eftir loftslagi og yrkjavali.

Þeir ananasávextir sem berast til Íslands og annarra Evrópulanda koma fyrst og fremst frá Kostaríku eða Fílabeinsströndinni. Stórfyrirtæki eins og Dole og Delmonte hafa algjör yfirtök á þeirri framleiðslu sem berst inn á stórmarkaðina í þessum löndum. Ýmislegt hefur verið sagt og fundið út á framferði þeirra til að hífa upp framleiðsluna og pressa niður verðið. Í Kostaríku einni eru um 50 þúsund hektarar undir ananasrækt. Við ræktunina hefur fólk unnið óvarið fyrir gegndarlausri úðun með skordýra- og sveppavarnaefnum. Afleiðingin, auk lágra launa, er bágt heilsufar og mjög alvarleg jarðvegsþreyta á plantekrunum. En margt virðist nú verið að gera til úrbóta. Dole og Delmonte eru byrjuð að sjá sig um hönd, kannski fyrst og fremst vegna upplýstra og umhverfismeðvitaðra þrýstihópa neytenda sem hafa stundað mjög háværar upplýsingaherferðir um ástandið. Þess vegna hafa þessi fyrirtæki reynt að snúa við blaðinu til að fá lífræna vottun og „fair-trade“-stimpil á ananas- og bananaframleiðsluna í þessum löndum. Við getum nokkurn veginn reiknað með að sú skipan komist á fyrr en varir. Af þessum 50 þúsund hektörum í Kostaríku hafa um átta þúsund þeirra fengið slíka vottun á síðustu árum. Og von er um að sá flötur þrefaldist á næstu fjórum til fimm árum. Þessum umsnúningi fylgir líka að fyrirtækin eru farin að fjármagna skóla og heilsuverndarstöðvar fyrir starfsfólk sitt.

Uppskera

Ananas-aldinin eru ekki skorin af plöntunni fyrr en þau eru orðin fullþroskuð. Þau eftirþroskast ekki eftir að búið er að taka þau af plöntunum. En geta geymst í nokkrar vikur í sérstökum kæligeymslum. Í stofuhita byrja þau strax að skemmast og þola tæplega tveggja daga stofuvist.
Best er að kaupa ananas sem fyrst eftir að hann kemur í búðina. Ávöxturinn á að vera fjaðrandi stinnur, með ferskri ananaslykt, laus við innfallna bletti og toppurinn fagurgrænn yst sem innst. Hægt er að láta hann róta sig í rakri sandmold, þótt nú sé algengara að búið sé að frysta burt vaxtarfrumurnar í enda hans til að koma í veg fyrir „óleyfilega“ ræktun á vernduðum yrkjum. Ef toppurinn er móleitur og með fúlli lykt er ávöxturinn sem undir er líka byrjaður að fúlna. Þá er lítil fróun fylgjandi því að leggja sér hann til munns, en það má þá sjóða hann niðurskorinn til að nota í sætsúra sósu með krydduðu kjöti.

Gegn skyrbjúg

Ananas er hlaðinn næringarefnum. Einkum er hann auðugur af C-vítamíni og þess vegna varð hann fljótt settur fastan próvíant farskipanna sem sigldu um heimsins hlýju höf á átjándu öld og alveg fram þá tuttugustu. Nokkrir ananasbitar daglega ofan í áhöfnina kom í veg fyrir skyrbjúginn sem var skelfilegur fylgifiskur langra úthafssiglinga, einkum á dögum seglskipanna. Þetta varð líka til þess að ananasræktin náði skjótri útbreiðslu. Það skipti máli að hafa aðgang að ferskum ananas í sem flestum höfnum hitabeltisins þar sem hægt var að bæta á birgðirnar.

Í íslenskum raunveruleika

Hér uppi á Íslandi og víðar um Norður-Evrópu var ferskur ananas sjaldgæf sjón alveg fram á níunda áratug liðinnar aldar. En allir þekktu ananas í dósum. Einkum þverskorinn í hringi. En líka var hægt að fá ananaskurl og ananasbita í dósum. Ananas passar vel með krydduðum mat, einkum þeim réttum sem eldaðir eru að autur-asískum, pólýnesískum eða karabískum hætti. Í Norður-Ameríku var ananaskurl líka vinsæl íblöndun í hið dæmigerða „coleslaw“ hrásalat úr fínskornu hvítkáli og mæjónesi eða sýrðum rjóma. Og ég man eftir ógleymanlega ljúffengri „upsidedown“ ananasköku sem amerísk vinkona bauð stundum upp á á áttunda áratugnum.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...