Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Heyjað á Reykjum í Hrútafirði.
Heyjað á Reykjum í Hrútafirði.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 15. mars 2016

Áhrif heygæða á afurðir og heilsufar sauðfjár

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson, LbhÍ
Í grein 1 í þessum greinaflokki (Bændablaðið, 25. febrúar 2016, bls. 52) var því haldið fram að þegar jarðrækt og fóðuröflun er eins og best verður á kosið geti heimaaflað gróffóður og beit farið mjög langt með að uppfylla allar fóðurþarfir á íslenskum sauðfjárbúum.
 
Þar var farið yfir áhrif orkugildis heyjanna á fóðrunarvirði þeirra, þ.e. hversu mikilli orkuþörf gróffóðrið eitt og sér getur staðið undir. Það traust sem við leggjum á gróffóðrið byggir m.a. á tveimur skilyrðum: a) að nýta eðlilega getu ánna til hringrásar forðafitu (bötun og aflagning) og b) að teknu tilliti til þessarar getu og gæða heyjanna á hverjum tíma, að bæta upp það sem á vantar með viðbótarfóðri.
 
Hinu síðartalda verða gerð skil í næstu grein (grein 3) en nú er sem sagt komið að því að fjalla aðeins betur um hringrás forðafitunnar á sauðfénu, hvað er eðlilegt, æskilegt og varasamt í því efni.
 
Niðurbrot forðafitu hjá sauðfé eftir burðinn
 
Á 1. mynd má sjá hvernig mjólkurframleiðsla áa (lítrar/dag) ræðst annars vegar af fitubirgðum á skrokki ánna (5 til 20 kg) og hins vegar af orku úr fóðri (lítil ~ 1,7 FEm/dag; meðal~ 2,1 FEm/dag; mikil~2,5 FEm/dag)  í upphafi mjaltaskeiðs. Myndin byggir á breskum rannsóknum (Robinson, 1990) á ám sem voru nálægt 70 kg þyngd að meðaltali og mjólkuðu tveimur lömbum.  Hæð súlnanna sýnir nytina og tölurnar neðst í súlunum fituniðurbrot af holdum í grömmum á dag.  Í hverjum fóðrunarflokki voru fjórir hópar áa með mismikil hold á skrokknum, tölurnar fyrir ofan súlurnar í hverjum fóðrunarflokki sýna fitubirgðirnar (5 til 20 kg). 
 
Gott holdafar fyrir burð
= innistæða sem taka má út af
 
Hjá ánum í fóðrunarflokknum lengst til hægri á 1. mynd (mikil fóðrun) eru orkuþarfir uppfylltar með fóðrinu,  fituniðurbrot er sáralítið og sambærilegt hjá feitum ám og horuðum. Og það sem meira er, mjólkurframleiðslan er er óháð fitubirgðunum, er í öllum tilfellum um 3,5 lítrar á dag. Hjá ánum í fóðurflokknum lengst til vinstri á myndinni (lítil fóðrun) er nytin hins vegar mikið háð holdafarinu, horuðustu ærnar brjóta niður 105 g fitu og mjólka rúma 2 lítra á dag en þær feitustu brjóta niður 360 g af fitu og mjólka um 3 lítra á dag. Í fóðurflokknum á miðri mynd (meðal fóðrun) er nytin töluvert háð holdafarinu en feitustu ærnar mjólka þó um það bil 3,2-3,3 lítra á dag.
 
Mynd 1: Áhrif holdafars og fóðurstyrks á mjólkurframleiðslu áa (Robinson, 1990).
 
 
Góð fóðrun eftir burð − inni­stæðan endist lengur
 
Þó að 1. mynd sýni vel hve gríðarlega mikla orku til mjólkurmyndunar ær geta tekið af holdum, þá sýnir hún líka að full mjólkurafköst nást ekki nema fóðrun eftir burðinn sé einnig góð. Því betri sem fóðrunin er, því lengur fram á mjólkurskeiðið endast holdin á ánum. Oft er möguleiki á afturkipp í næringarefnaframboði þegar fé fer af ræktuðu landi á úthaga, þá er betra að enn sé eftir innistæða í holdabankanum til að brúa bilið. 
 
Áhrif neikvæðs orkujafnvægis á heilsufar eru háð holdafari
 
Eins og 1. mynd sýnir er hraði fituniðurbrots í réttu samhengi við holdafar ánna. Fitusöfnun í lifur verður ekki nema fituniðurbrotið sé nokkuð hratt. Því eru feitu ærnar í meiri hættu á að þróa með sér fitulifur en þær mögru, sem hins vegar eru enn líklegri til að þróa með sér bein einkenni glúkósa-/orkuskorts, sem lýst var í grein 1. 
 
Afurðatekjur eru háðar holdafari við burð
 
Reiknaðar fóðurþarfir tvílembu fyrstu vikurnar eftir burð eru 2,4 FEm dag; sambærilegt við það sem kallast mikil fóðrun á 1. mynd. Um fóðuráætlanagerð má lesa í 4. kafla bókarinnar Sauðfjárrækt á Íslandi, ýmsar forsendur sem notaðar eru hér eru betur rökstuddar þar en rúm er til að gera í þessum pistli. Við reiknum með að meðan ærnar eru á gjöf fyrst eftir burðinn gætu þær innbyrt 2,3 kg þe/dag af úrvalsgróffóðri sem hefði orkustyrk 0,85 FEm/kg þe. Það gefur orku sem nemur 2,3 x 0,85 = 1,95 FEm/dag. Ef við bætum við 150-200 g af kjarnfóðurblöndu er orkustyrkurinn nálægt því sem var í meðalfóðrun skv. 1. mynd. Ef heygæðin eru lakari og jafnvel ekkert kjarnfóður gefið er fóðrunin nær því sem taldist lítil fóðrun á 1. mynd. Við bæði litla og meðal fóðrun skv. þessu skiptir þá miklu máli hvert holdafar ánna er við burðinn upp á það að gera hver nytin verður og þar með vöxtur lambanna. 
 
Vaxtarhraði lamba skv. íslenskum og erlendum rannsóknum er nálægt 200 g/dag á hvern lítra mjólkur sem lömbin innbyrða. Tvílembingar undan á sem mjólkar 3 lítra á dag vaxa þá um 300 g/dag hvort lamb en hjá á sem mjólkar 2 lítra á dag vex hvor tvílembingur um 200 g/dag. Ef munurinn á vaxtarhraða lamba milli þessara tveggja áa er þessi 100 g/dag í 100 daga þá þýðir það 10 kg munur í lífþunga. Sem er a.m.k. 4 kg fallþunga á lamb og þá 8 kg á tvílembuna. Ef hvert kg gefur 800 kr í tekjur (afurðaverð + stuðningsgreiðslur) þá er verðmæti þessa munar 6.400 kr/tvílembu. 
 
Rétt er að taka fram að það er mjög háð gæðum sumarbeitarinnar hversu mikill munurinn á vaxtarhraða lamba hjá vænum ám og mögrum er og hversu lengi hann helst.  Dæmið sem hér er tekið er rétt að túlka með þessum fyrirvara. 
 
Hvað má kosta að byggja upp holdin?
 
Framangreindur munur í vexti, og þar með afurðatekjum, gæti eingöngu verið kominn til vegna mismunar í holdafari ánna við burð, munar sem gæti numið 15 kg af fitu sem er munurinn á grindhoraðri á og vel feitri. Til þess að framleiða 15 kg af fitu á skrokki kindar þarf um 84 mjólkurfóðureiningar (FEm). Hver slík fóðureining má þá kosta 6.400/84 =76 krónur. Þetta er ekki fjarri því sem fóðureining í kjarnfóðri kostar. 
 
Ef heygæði eru eðlileg er hins vegar hægt að ná þessu fitustigi án kjarnfóðurgjafar. Almennt reiknum við með að hver fóðureining í gróffóðri sé töluvert ódýrari en í kjarnfóðri. Búreikninganiðurstöður ársins 2013 á vefsíðu Hagstofu Íslands sýna breytilegan kostnað við gróffóðuröflun á bilinu 20-25 kr/FEm, sem er í raun viðbótarkostnaðurinn (án vinnu) við hverja fóðureiningu sem aflað er sé gert ráð fyrir að fastur kostnaður breytist ekki þó magn og/eða gæði uppskeru breytist. Þó að þessir útreikningar séu nokkuð lauslegir ættu þeir að duga sem rökstuðningur fyrir hagkvæmni þess að miða vetrarfóðrun að því að byggja upp hold á ánum með gróffóðri þannig að þær hafi nóg hold til að mjólka af og mæta þannig eðlilegu neikvæðu orkujafnvægi í upphafi mjaltaskeiðs og einnig sveiflum í beitargæðum á úthaga að sumrinu. 
 
Hvernig er heppilegast að byggja upp holdin?
 
Það þarf sennilega ekki svona talnaleikfimi til, enginn vafi leikur á því að gott holdafar áa við burð er nokkuð sem stefnt er að á íslenskum sauðfjárbúum. Og enginn stefnir heldur að því að ærnar tálgi svo af sér hold að þær falli nokkurn tíma í horaðasta flokkinn skv. 1. mynd hér að framan. 
 
Hins vegar segja bæði innlendar og erlendar rannsóknir okkur að holdatap á mjólkurskeiði uppá 5–10 kg af fitu er eðlilegt og óskaðlegt, ef það á sér stað með hóflegum hraða sem að öllu jöfnu á að vera hægt að tryggja með stigbatnandi fóðurgæðum á seinni hluta meðgöngunnar og góðri fóðrun og beit eftir burðinn. Þessu fitutapi þarf svo að ná til baka á tímabilinu frá réttum og þar til 2-4 vikum fyrir burð, þegar eðlilegt er að holdasöfnun stöðvist og holdatap hefjist í hóflegum mæli rétt í lok meðgöngunnar eins og síðar verður vikið að. 
 
Við gætum gefið okkur að þetta tímabil holdsöfnunar sé frá 20. september til 10. apríl, sem er rúmlega helmingur ársins eða ca. 200 dagar. Ef við reiknum með að ná þurfi upp 10 kg í töpuðum fituforða þá þarf fitusöfnunin að nema 50 g/dag að meðaltali yfir þennan tíma. Mikið er fengið með því að haustbeitin sé það góð að holdsöfnun sé rífleg á henni, sú bötun er ódýrust svo lengi sem hún gengur ekki of nærri beitilandinu. Í öllu falli er mikilvægt að ærnar séu komnar í meðalhold og ríflega það og séu jafnframt í framför um það leyti sem þær festa fang. Holdsöfnunin má vera hægari á meðgöngunni en það fer þó allt eftir því hvaða marki er náð í holdsöfnun við upphaf hennar. 
 
Hæfileg gróffóðurgæði á sauðfjárbúi
 
Í 4. kafla bókarinnar Sauðfjárrækt á Íslandi er farið í gegnum fóður­áætlanagerð á sauðfjárbúi. Ein megin niðurstaðan þar er að gott geti verið að flokka heyforðann á búinu í þrjá gæðaflokka, og miða við tvö lömb eftir fullorðnar ær, eitt lamb eftir lambgimbrar, góðan þroska ungviðisins, almennt góð hold við burð og góða fóðrun í allt að fjórar vikur eftir burð (inni/úti eftir atvikum). Þá verður æskileg skipting heyforðans í gæðaflokka um það bil svona:
  • Úrvalshey – flokkur A (~0,85 FEm/kg þe) – 31%
  • Gott hey – flokkur B (~0,80 FEm/kg þe) – 42%
  • Sæmilegt hey – flokkur C (~0,75 FEm/kg þe) – 27%
Þessi hlutföll eru ágæt til viðmiðunar en burðartími o.fl. þættir hafa að sjálfsögðu áhrif á þau. 
 
Hvað ef gróffóðurgæðin eru ekki í samræmi við kröfur?
 
Tökum dæmi: ef allt heyið á búinu er sem nemur einum gæðaflokki neðar, þ.e. orkustyrkurinn væri 0,05 FEm/kg þe lægri en æskilegt væri skv. fyrrgreindu plani, hvaða áhrif hefur það á holdsöfnun? Samkvæmt því sem kom fram um fóðrunarvirði í grein 1 (Bændablaðið, 25. febrúar 2016, bls. 52, 1. tafla)  mundi þetta þýða 0,15 FEm/dag minni orkuinntöku. Það er svo hægt að reikna yfir í það að holdsöfnun verði minni sem nemur um 25 g af fitu á dag, sem á 200 dögum eru um 5 kg af fitu sem vantar uppá birgðirnar. Ef við bætist að verkun er léleg gæti átið skv. því sem áður var rakið verið a.m.k. 10% minna en ella sem gæti þá með svipuðum útreikningum þýtt að holdsöfnun yfir veturinn væri mjög lítil, og aflagning hæfist fyrr á meðgöngunni og yrði meiri en æskilegt væri.
 
Lokaorð
 
Hér að framan hefur aðallega verið dvalið við áhrif gróffóðurgæðana á holdafar og afurðir fjárins. Jafnframt hefur verið gerð tilraun til að meta slík áhrif til fjár. Slíkt þarf þó ekki til að sannfæra bændur um áhrif góðrar fóðuröflunar á afkomuna, sú vitn­eskja er fyrir hendi þó ekki sé hún alls staðar færð í tölur með þessum hætti. En einmitt það hversu mikil fjárhagsleg áhrif áföll í fóðuröfluninni geta haft í för með sér, jafnvel án þess að til komi óvenjuleg vanhöld, er góð ástæða fyrir því að flestir reyna allt sem þeir geta til að heyja vel, bæði hvað varðar gæði og magn. 
 
En náttúran getur sett strik í reikninginn, sauðfjárræktin á ennþá mjög mikið undir náttúruöflunum eins og fjölmörg dæmi á undanförnum árum sýna (kalár, eldgos, þurrkasumur, rigningasumur, hríðarbyljir á ólíklegustu árstímum). Góð búmennska hjá íslenskum sauðfjárbónda felst ekki síst í því að vera eins vel undir duttlunga náttúrunnar búinn og hægt er. Þar er alltaf eitthvað nýtt hægt að læra. 
 
Helstu heimildir
Jóhannes Sveinbjörnsson 2013. Fóðurþarfir og fóðrun sauðfjár. 4. kafli (bls. 74–96) í: Sauðfjárrækt á Íslandi. Uppheimar 2013.
Robinson, J.J, 1990. Nutrition in the reproduction of farm animals. Nutrition Research rewiews 3: 253-276.

2 myndir:

Skylt efni: heygæði

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...