Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Baldur Helgi Benjamínsson í veðurblíðunni á þriðjudaginn við bæinn Ytri-Tjarnir í Eyjafirði þar sem hann er uppalinn.
Baldur Helgi Benjamínsson í veðurblíðunni á þriðjudaginn við bæinn Ytri-Tjarnir í Eyjafirði þar sem hann er uppalinn.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 28. apríl 2016

Þrekvirki að greinin komst óbrotin í gegnum bankahrunið

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Baldur Helgi Benjamínsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, LK, í lok júní. Hann sagði upp störfum í byrjun mánaðarins og er nú að vinna út uppsagnarfrest. Baldur Helgi hefur starfað fyrir sambandið í rúmlega áratug, lengst allra framkvæmdastjóra þess, en hann hóf störf um áramótin 2005–2006. 
 
Landssamband kúabænda fagnaði 30 ára afmæli sínu á dögunum, var stofnað 4. apríl 1986. Áður hafa þeir Valdimar Einarsson frá Lambeyrum, nú búsettur á Nýja-Sjálandi, Stefán Tryggvason, nú ferðaþjónustubóndi á Þórisstöðum, Guðbjörn Árnason, nú starfsmaður Ergo og Snorri Sigurðsson, nú landsráðunautur í mjólkurgæðum í Danmörku, gegnt starfi framkvæmdastjóra LK.
 
Baldur Helgi ólst upp á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit og tók þar frá unga aldri þátt í bústörfum með foreldrum sínum, Benjamín Baldurssyni, sem er einn af stofnfélögum LK, og Huldu Magneu Jónsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1994, varð búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 1996 og búfræðikandídat frá sama skóla 1999. Þá lauk Baldur Helgi meistaranámi við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2002, en sérgrein hans er búfjárerfðafræði. „Allar rannsóknir í mínu námi snerust um nautgripakynbætur, þar er minn bakgrunnur og þar liggur minn áhugi öðru fremur,“ segir hann.
 
Tekur þátt í bústörfum á æskuheimilinu þegar tök eru á
 
Þegar leið að námslokum fékk Baldur Helgi tvö símtöl, annað frá Búgarði þar sem spurt var hvort hann væri tilbúinn að taka að sér fóðuráætlanagerð á vegum félagsins í hlutastarfi og hitt kom frá Bændasamtökum Íslands og snerist um starf nautgriparæktarráðunautar á vegum samtakanna. Tók hann við þessum störfum heimkominn frá Danmörku.
 
„Ég hef svo alla tíð reynt að taka þátt í bústörfum á Ytri-Tjörnum eftir því sem tök eru á, þessum stærri verkefnum eins og við heyskap og jarðvinnslu sem og að leysa af í fjósi þegar á þarf að halda. Nú sé ég fram á meira svigrúm til þeirra starfa og hlakka til þess,“ segir Baldur, sem býr um þessar mundir í Hrafnagilshverfinu í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginkonu sinni, Elinu Nolsöe Grethardsdóttur, nautgriparæktarráðunaut hjá RML, og börnum þeirra, Maríönnu, f. 2008, Teiti, f. 2010 og Brynjari, f. 2014.
 
Umrótatímar í mjólkuriðnaði
 
Um haustið 2005 hringdi Þórólfur Sveinsson, þáverandi formaður LK, í Baldur Helga til að spyrjast fyrir um hvort hann væri til í að taka að sér starf framkvæmdastjóra LK en þáverandi framkvæmdastjóri, Snorri Sigurðsson, hafði ákveðið að hverfa til annarra starfa.
 
„Ég lagðist undir feld eins og gjarnan er sagt, hugsaði málið smástund en sló svo til,“ segir hann.  
Skrifstofa LK var á þessum tíma, í byrjun árs 2006, á Hvanneyri en ákvörðun hafði verið tekin um að flytja hana í húsakynni Osta- og smjörsölunnar í Reykjavík. Það var að sögn Baldurs Helga gert til að efla tengsl og áhrif bænda á mjólkuriðnaðinn sem á þeim tíma stóð í nokkru ölduróti, í aðdraganda samruna félaga í mjólkuriðnaði. Skrifstofan var þar um eins árs skeið, eða þar til Osta- og smjörsalan var lögð niður. 
 
„Þessi tími markaði upphafið að gríðarlegri aukningu á sölu í próteini, skyrið hafði fengið andlitslyftingu og var á mjög miklu flugi. Það jaðraði við að ekki væri til nægilegt hráefni til að mæta aukinni eftirspurn. Það komu upp vangaveltur um hvort staðan væri það alvarleg að flytja þyrfti inn undanrennuduft, að við hreinlega næðum ekki fyrir vind í þessum efnum. En hvatning til kúabænda og álagsgreiðsla á mjólk varð til þess að innanlandsframleiðslan dugði sem betur fer,“ segir Baldur. 
 
Mikið uppbyggingarskeið fyrir hrun
 
Á þessum árum stóð yfir mikið uppbyggingarskeið meðal kúabænda, m.a. í kjölfar búvörusamninga frá árinu 1998, sem var endurnýjaður með nokkrum breytingum árið 2005.  Þörfin var að sögn Baldurs orðin brýn, lítið hafði verið gert árin á undan og því víða orðið brýnt að byggja upp, til að mæta nýjum viðmiðum um vinnuaðstöðu og dýravelferð. Þetta uppbyggingarskeið stóð yfir allt fram að hruni haustið 2008 þegar viðskiptabankarnir þrír fóru á hliðina.
 
„Á þessum árum voru lífleg viðskipti með greiðslumark, miklar framkvæmdir og blómleg vélasala, bændur voru í óða önn að skipta yfir í erlend lán, svo sem þeim var ráðlagt að gera af fjármálastofnunum landsins, en einnig af illri nauðsyn vegna hárra vaxta. Það var eiginlega bara allt á fullu í greininni. Ég man að haustið 2007 fundum við að farið var að halla undan fæti og veltum því upp hvort talsverður hluti bænda myndi ráða við þær skuldir sem þeir höfðu tekið á sig við uppbygginguna, við hreinlega vorum ekki viss um hvort menn lifðu af þennan komandi vetur, 2007 til 2008,“ segir Baldur.  
 
Holskefla hækkana
 
„Fyrsta gusan kom yfir okkur snemma árs 2008 þegar geysileg hækkun varð á heimsmarkaðsverði á áburði ofan á gengisfall íslensku krónunnar, verðhækkunin nam 80–100% miðað við árið á undan og munar svo sannarlega um minna.  Áburður er mjög stór kostnaðarliður í rekstri búanna. Þarna á útmánuðum 2008 kom svo hvert reiðarslagið á fætur öðru, aðföng hækkuðu umtalsvert og það fór nú um marga.
 
Kostnaður snarhækkaði á skömmum tíma og leiddi til þess að verðlagsnefnd búvara tók þá ákvörðun í mars þetta ár að hækka mjólkurlítrann um 14 krónur, verðið fór á einu bretti úr tæplega 50 krónum upp í 64. Leiðrétting á mjólkurverði var svo aftur gerð um haustið, í október, þegar það fór upp í rúma 71 krónu. Mjólkurverð hafði því á einu ári hækkað um tæp 45%. Það hafði raunar ekki hækkað í þrjú ár þar á undan, kröfur voru á þessum tíma háværar um lækkun á matarverði og menn héldu mjög að sér höndum vegna þeirra. 
 
„Bændum hafði í raun verið stillt upp við vegg. Eftir töluvert langt verðstöðvunartímabil kemur þessi holskefla, þegar aðföng hækkuðu upp úr öllu valdi. Það reyndi mjög á verðlagningarkerfið á þessum tíma og gustaði verulega um. Reyndar voru margir á þeirri skoðun að hækkunin dygði engan veginn til að mæta auknum kostnaði. Vissulega voru margir efins á þessum tíma um að bændur hefðu sig í gegnum þetta, spádómar voru jafnvel um að margir færu á hliðina, myndu ekki ráða við stöðuna. Það var því gleðilegt að langflestir höfðu sig í gegnum þessar hremmingar, unnu sig út úr því gjörningarveðri sem yfir þá dundi. Það var lærdómsríkt að fara í gegnum þessa hluti, þetta var alls ekki auðveldur tími fyrir marga bændur. Í raun var það heilmikið þrekvirki að greinin skyldi komast óbrotin í gegnum bankahrunið.“
 
Ferð án fyrirheits
 
Baldur rifjar upp að þegar menn fóru að sjá til lands og voru að vinna sig hægt og bítandi út úr afleiðingum hrunsins hafi næsta viðfangsefni tekið við. Ný ríkisstjórn sem tók við árið 2009 sótti um aðild að Evrópusambandinu, við litla hrifningu flestra bænda.
 
„Það fór í einni hendingu allt að snúast um þessa inngöngu í Evrópusambandið, allt frá því sótt var um 16. júlí 2009 og þar til hlé var gert á viðræðum snemma á árinu 2013,“ segir Baldur, sem ásamt Ernu Bjarnadóttur, hagfræðingi hjá BÍ, og Sigurbjarti Pálssyni, þáverandi stjórnarmanni í BÍ, sátu í samninganefnd vegna landbúnaðarkaflans.
 
„Þarna var lagt upp í ferð án fyrirheits, það er mitt mat. Allt frá upphafi voru markmiðin varðandi landbúnaðinn mjög óljós og þegar upp er staðið, eftir mikinn fjölda funda sem engu skiluðu, er niðurstaðan sú að þetta ferli allt saman var hrikaleg tímasóun. Ekki bætti úr skák að stjórnvöld voru í nær samfelldri afneitun um hvers eðlis aðlögunarferlið að ESB væri í raun og veru. Það fór svo að fjara undan í ársbyrjun 2013 en það sem stendur upp úr er að mikill tími fór til spillis, tími sem hefði til að mynda betur verið varið í undirbúning fyrir nýjan búvörusamning og stefnumótunarvinnu fyrir landbúnaðinn. Það hefði verið afskaplega brýnt að vinna að þeim málum, vanda undirbúning og velta fyrir sér á hvern hátt við viljum sjá íslenskan landbúnað þróast á næstu árum,“ segir Baldur.
 
Nauðsynlegri stefnumótunarvinnu ýtt til hliðar
 
Hann segir að stefnumótunarvinna hafi verið í farvatninu skömmu fyrir hrun, m.a hefði verið efnt til málþings um framtíð mjólkurframleiðslunnar í febrúar 2008 og menn hefðu verið að leggja línur; yfirskriftin var Mjólkurframleiðslan árið 2020. Því starfi hefði engan veginn lokið, enda hefði atburðarásin orðið allt önnur en menn hugðu.
 
„Því miður varð ekki neitt úr þessu, eins og það hefði verið nauðsynlegt, efnahagshrun, björgunarstörf í kjölfar þeirra og umsókn um aðild að Evrópusambandinu urðu aðalviðfangsefnin og vinnu við stefnumótun var ýtt til hliðar.“
 
Um mitt ár 2013 kom á ný upp sú staða að við blasti skortur á mjólk vegna áður óþekktrar aukningar í sölu á fituríkum afurðum, bændur brugðust að venju vel við og juku framleiðslu sína.
„Í raun hafa  þeir náð að auka framleiðsluna meira en ég taldi á þeim tíma líffræðilega mögulegt,“ segir Baldur.
 
Hann nefnir að umræður hafi í kjölfarið orðið um hvernig best yrði við brugðist og að mikilvægt væri að ræða á hvern hátt menn vildu sjá greinina þróast til framtíðar.
 
„Hagsmunir einstakra framleiðenda á hverjum tíma kunna að skarast við það sem hentar greininni til lengri tíma litið, þetta fer ekki alltaf saman. Mismunandi afstaða bænda, og annarra sem hagsmuna eiga að gæta, til þessara hluta kom mjög skýrt fram í umræðum um búvörusamningagerð á liðnum vetri. Þar var einkum tekist á um hvort viðhalda ætti kvótakerfinu, eða nýta stuðningsfyrirkomulagið í meira mæli til að hafa áhrif á framleiðsluna og umfang hennar. Niðurstaðan varð sú að halda í kvótakerfið fyrst um sinn, en efna til atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019 um hvert beri að stefna í þessum efnum.
 
Það er þó mikilvægt að hafa í huga að sú atkvæðagreiðsla bindur ekki hendur löggjafans og staðan sem uppi er núna getur verið gerbreytt þegar þar verður komið sögu,“ segir hann.
 
Sveiflukenndur markaður
 
Fitusala hafði aukist jafnt og þétt undanfarinn áratug, en breyting varð á um mitt árið 2013 þegar hún fór algerlega á flug. Baldur segir að breyting á neysluvenjum hafi þar skipt máli. Í kjölfar þess var  ákveðið að greiða fullt verð fyrir ákveðið magn umframmjólkur og síðan fyrir alla umframmjólk og hvetja bændur þannig til að auka framleiðsluna. Um haustið gerðist það að algjör sprenging varð á fitusölu, menn hefðu séð að t.d. í september hefði sala á smjöri aukist um fjórðung. „Það var ekki nokkur leið að sjá þetta fyrir og áfram hélt þessi þróun fram eftir hausti.  Í október-nóvember var svo fyrirséð að innlend framleiðsla myndi ekki duga til að metta innanlandsmarkaðinn og var þá brugðið á það ráð að flytja inn smjör frá Írlandi, eins og frægt varð,“ segir Baldur.
 
Bændur bregðast vel við efnahagshvötum
 
Aukinn ferðamannastraumur og vinsældir svonefnds lágkolvetnakúrs, sem annar hver landsmaður virtist hafa tileinkað sér, höfðu mest að segja um aukna sölu og neyslubreytingu hjá almenningi.
 
„Þetta var sérkennileg en einstök uppákoma um haustið 2013, þegar ekki náðist að anna innanlandsmarkaði. Svona lagað má undir engum kringumstæðum koma fyrir aftur og við verðum að leita allra ráða til að svo verði ekki,“ segir Baldur. Bændur brugðust sem fyrr vel við og leituðu allra leiða til að auka framleiðslu sína, m.a. dró mjög úr slátrun kúa, hún varð um 15–20% minni en verið hafði árin á undan.  Þetta ástand varði að sögn Baldurs í um það bil tvö ár.
 
„Bændur eru góðir í því að bregðast við efnahagslegum hvötum, þeir lesa vel í þá stöðu sem uppi er hverju sinni og reyna að laga sig að henni,“ segir hann og bætir við að svipuð staða hafa verið upp á teningnum árið 2014, mikil sala og birgðir í algeru lágmarki við árslok. Um mitt síðasta ár varð svo á ný vendipunktur þegar framleiðslan varð umtalsvert meiri en innanlandsmarkaðurinn þarfnast.
 
„Það er eitt af stóru viðfangsefnunum sem takast þarf á við núna, við þurfum virkilega að leggjast yfir stöðuna og hvað líklegt sé að gerist á næstu misserum,“ segir Baldur, en eftir mikla lægð eru bændur farnir að auka slátrun á kúm á ný, um 40% aukning varð á slátrun í febrúar 2016, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
 
Hvað höfum við lært?
 
 „Nú þurfum við að fara yfir hvað við höfum lært af þessu öllu saman. Það er alveg ljóst að markaðurinn er orðinn mjög sveiflukenndur, það þarf að vera fyrir hendi ákveðinn stuðpúði, sérstaklega varðandi fituna, sveiflurnar í próteinneyslunni eru mun minni. Þetta er staða sem allir bændur verða að sameinast um að taka á, það er alltaf svo að ákveðinn hluti þeirra framleiðir einungis upp í sitt greiðslumark og lætur þar við sitja, en lætur öðrum eftir að taka sveiflurnar. Það eru allir bændur sem bera ábyrgð á markaðnum, ekki bara sumir.“ 
 
Stífari kröfur um aðbúnað eru að taka gildi og þurfa bændur einnig að bregðast við því, en þær leiða m.a. til þess að rýmiskröfur fyrir hvern grip eru auknar verulega og óheimilt verður að nota hefðbundin básafjós. Til að bregðast við því þurfa bændur að leggja í verulegar fjárfestingar á komandi árum.
Ríkjandi samfélagsviðhorf gagnvart dýravelferð breytast einnig mjög hratt um þessar mundir.
„Það er mitt mat að þau viðhorf séu ein stærsta áskorun sem bændur standa frammi fyrir á næstunni,“ segir Baldur.
 
Horfum út fyrir landsteinana
 
Þegar Landssamband kúabænda var stofnað fyrir þremur áratugum voru framleiðendur um 1.800 talsins, þeir eru nú um 630, starfsemi hefur þannig verið hætt á um tveimur þriðja hluta allra búa. Bændur hafa alla tíð nýtt sér þá nýjustu tækni sem völ er á og munu halda því áfram.
 
„Þannig að við verðum að horfa á þessa stöðu, við sjáum ekki endilega fyrir núna hversu mikið innanlandsmarkaður stækki, en markaður er fyrir hendi utan landsteina, þangað verðum við að horfa, að öðrum kosti mun búunum halda áfram að fækka tiltölulega hratt. Ytra blasir við okkur annar veruleiki en hér á landi, verð er lægra á mjólkurafurðum og sveiflukenndara.
 
Ef við ætlum okkur hlutdeild á erlendum mörkuðum verður að fara vel yfir málin og horfa þá einkum til betur borgandi markaða og flytja út gæðavöru sem þangað á erindi,“ segir Baldur og nefnir t.d. skyr og smjör í því sambandi. Hvorutveggja hafi sýnt sig að fara vel í neytendur ytra, m.a. á Norðurlöndum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Mestu skipti að komast með vöruna inn í verslanir sem leggja áherslu á gæði og tryggja hagstætt skilaverð til bænda.
 
Efling nautakjötsframleiðslunnar
 
Frá stofnun LK hafa málefni nautakjötsframleiðslunnar verið snar þáttur í starfi samtakanna.
„Þegar ég kom til starfa var þegar orðið ljóst að huga þyrfti að endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna sem samtökin stóðu að innflutningi á um miðjan tíunda áratuginn, Angus og Limousin. Bændur í hjarðbúskap með holdagripi höfðu mjög takmarkaða möguleika til að stunda kynbætur, þar sem nautin sem úr var að velja voru mjög fá og innbyrðis náskyld,“ segir Baldur og bætir við að eitt af því ánægjulegasta sem áunnist hafi á undanförnum áratug, sé að nú hilli undir að kynbótastarf fyrir holdanautgripi komist loks í viðunandi horf. Leiðin að því marki hafi þó verið bæði brött og grýtt, auk þess sem sveigja hafi þurft hjá ótal keldum. 
 
Á næstu mánuðum mun Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf. hefja rekstur á einangrunarstöð fyrir holdanautgripi að Stóra-Ármóti. „Fyrrverandi formaður samtakanna, Sigurður Loftsson, hefur tekið að sér að fylgja því verk­efni úr hlaði fyrir þeirra hönd og ég geri ráð fyrir að vera honum innan handar með það. Ætli þetta verði ekki svanasöngurinn okkar á vettvangi LK,“ segir Baldur. Hann bætir við að ekki hafi nokkru sinni borið skugga á samstarf hans og Sigurðar, sem verið hefur í stjórn samtakanna allan starfstíma Baldurs hjá LK, fyrst í þrjú ár sem varaformaður og síðan í sjö ár sem formaður.
 
„Ég kynntist Sigurði og Jóhanni Nikulássyni, sem einnig sat í stjórn samtakanna lungann af tíma mínum í starfi framkvæmdastjóra, í ógleymanlegri ferð Landssambands kúabænda til Nýja-Sjálands í febrúar 2005. Sú ferð hafði varanleg áhrif á okkur og hefur mótað afstöðu mína og skoðanir æ síðan. Þegar ég horfi til baka eru það þessir tveir menn, ásamt Þórólfi Sveinssyni og Snorra Sigurðssyni, sem ég hef átt hvað mest samstarf við á vettvangi LK og ég minnist þess með miklu þakk­læti,“ segir Baldur.
 
Framtíðin óráðin
 
„Þetta hefur verið góður tími, mikið að gera og starfið í raun ekki ólíkt því og að vera kúabóndi, það eru allir dagar undir, allan ársins hring,“ segir hann.
 
„Ég hef kynnst fjölmörgu fólki, fengið tækifæri til að taka þátt í mjög fjölbreyttum verkefnum og kynnst búgreininni frá nánast öllum hliðum. Samskipti við bændur, einkum í gegnum haustfundi og aðalfundi aðildarfélaganna, hafa verið mjög gefandi. Jafnframt hef ég átt þess kost að víkka sjóndeildarhringinn með því að sækja nokkra viðburði erlendis á vegum samtakanna, þar standa ársfundir IDF, heimsráðstefnan um búfjárkynbætur og Kvægkongress í Danmörku upp úr.“ 
 
Erillinn er þó á köflum talsvert mikill.
 
„Börnunum okkar þykir til dæmis ekkert sérlega spennandi að fara með pabba sínum á mannamót, þar sem bændur eru meðal gesta; hann er endalaust að tala við eitthvað fólk. Svo finnst þeim hann vera svakalega mikið í símanum,“ segir Baldur og kímir. 
 
Hann lætur af störfum í lok júní og segir ekki liggja fyrir hvað taki við. „Á síðasta aðalfundi var samtökunum kosin alveg ný stjórn, sem að mínu mati er mjög vel skipuð. Næstu vikur fara í að aðstoða hana við að koma sér inn í verkefnin sem fyrir liggja, þar ber útfærsla á nýjum búvörusamningi og verkefnið um úrval á grunni erfðamengis hæst, síðan liggur fyrir að auglýsa þarf eftir nýjum einstaklingi í minn stað,“ segir Baldur.
 
„Þótt ég hverfi úr starfi framkvæmdastjóra LK finnst mér ólíklegt að þar með sé afskiptum mínum af málefnum greinarinnar lokið, ég vona að ég fái tækifæri til að leggja henni lið í framtíðinni með öðrum hætti,“ segir Baldur. 
 

7 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...