Við afhjúpun söguskiltisins við Hjarðarholt. Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti, Einar Kr. Guðfinnsson, formaður nýstofnaðs Sturlufélags, Kristján Sturluson sveitarstjóri, Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, Svavar Gestsson, D
Fólk 12. júní 2019

Skilti varða leiðina um Gullna söguhringinn í Dalabyggð

Þann 12. maí sl. var efnt til sögulegra viðburða í Dalabyggð þegar ný söguskilti voru afhjúpuð við hátíðlega athöfn og sérstakt Sturlufélag var einnig stofnað.
 
Að frumkvæði Sturlunefndar var efnt til framleiðslu á fjórum söguskiltum sem sett verða upp á Gullna söguhringnum sem liggur frá Búðardal, út fyrir Klofning og að Saurbæ. Dalirnir búa yfir ríkri sögu þar sem nokkrar af þekktustu Íslendingasögunum áttu sér stað og er óhætt að segja að svæðið sé sannkallað sögusamfélag þar sem fortíðin er falin í gömlum örnefnum og bæjarnöfnum. 
 
Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, afhjúpaði fyrsta skiltið við Hjarðarholt og henni til aðstoðar voru fjórir fulltrúar ungu kynslóðarinnar í Dölum, þær Birna Ingvarsdóttir, Dagný Sara Viðarsdóttir, Jóhanna Vigdís Pálmadóttir og Katrín Einarsdóttir.
 
Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, afhjúpaði fyrsta skiltið við Hjarðarholt og henni til aðstoðar voru fjórir fulltrúar ungu kynslóðarinnar í Dölum, þær Birna Ingvarsdóttir, Dagný Sara Viðarsdóttir, Jóhanna Vigdís Pálmadóttir og Katrín Einarsdóttir. Að því loknu var efnt til móttöku í Dalabúð þar sem boðið var upp á veitingar og létta dagskrá. 
 
Meðal þeirra sem tóku til máls voru Svavar Gestsson, fv. ráðherra, Kristján Sturluson, sveitarstjóri Dalabyggðar og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. 
 
Sturlufélag formlega stofnað
 
Í lok móttökunnar var sérstakt Sturlufélag stofnað. Stjórn Sturlu­félags skipa: 
Bergur Þorgeirsson, forstöðu­maður Snorrastofu, Bjarnheiður Jóhannsdóttir, fráfarandi ferðamála­fulltrúi Dalabyggðar og rekstraraðili Eiríksstaða, Einar Kárason rithöf­undur, Einar K. Guðfinnsson, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, Guðrún Nordal, formaður Stofnunar Árna Magnússonar, Kristján Sturluson, sveitarstjóri Dalabyggðar og Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
 
Fjögur söguskilti sett upp
 
Staðsetning skiltanna fjögurra við Gullna söguhringinn er valin af kostgæfni en þau verða staðsett við Hjarðarholt, afleggjarann að Fellsströnd, úti við Klofning og í Saurbæ. Hvert skiltanna prýða teikningar af merkum persónum úr Íslendingasögunum sem tengjast svæðinu og ber þar helst að nefna fóstbræðurna Bolla og Kjartan og Guðrúnu Ósvífursdóttur, Auði djúpúðgu, Eirík rauða og Sturlu Þórðarson. Auk teikninganna eru fróðleiksmolar um söguslóðirnar á íslensku og ensku, sem vonir standa til að vekja muni athygli og áhuga ferðamanna sem leið eiga um svæðið.
 
Það er Mjólkursamsalan sem kostar gerð skiltanna en þau voru unnin í samvinnu við Sturlunefnd og auglýsingastofuna Hvíta húsið. Myndirnar sem prýða skiltin teiknaði Ingólfur Örn Björgvinsson myndskreytir og Vegagerðin sá um að koma skiltunum fyrir.