Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Birgitta Lúðvíksdóttir á Möðruvöllum 3 í Hörgárdal hefur starfað sem stuðningsforeldri um langa hríð og segir starfið mjög skemmtilegt og gefandi. „Manni þykir vænt um börnin og þau gefa mikið af sér,“ segir hún.  Hér er hún með Damian, sjö ára strák, sem
Birgitta Lúðvíksdóttir á Möðruvöllum 3 í Hörgárdal hefur starfað sem stuðningsforeldri um langa hríð og segir starfið mjög skemmtilegt og gefandi. „Manni þykir vænt um börnin og þau gefa mikið af sér,“ segir hún. Hér er hún með Damian, sjö ára strák, sem
Mynd / MÞÞ
Líf&Starf 27. janúar 2016

Sinnir draumastarfi í sveitinni og hugsar um börn og kindur

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Ég elska börn og kindur svo það má svo sannarlega segja að ég sé í mínu draumastarfi,“ segir Birgitta Lúðvíksdóttir á Möðruvöllum 3 í Hörgárdal. Hún hefur ásamt eiginmanni sínum, Þórði Gunnari Sigurjónssyni, starfað sem stuðningsforeldri í nær 16 ár og tekið að sér nokkurn fjölda barna um lengri eða skemmri tíma. Þá leigja þau, ásamt Sigmundi,  bróður Þórðar, hluta jarðarinnar, Möðruvalla, og reka þar lítið sauðfjárbú sem samanstendur af 260 kindum. 
 
Hún segir starfið mjög gefandi, og ánægjulegt sé að geta orðið samborgurum sínum að liði. 
Birgitta ólst upp á Molastöðum í Fljótum. Í hennar uppvexti var þar í fyrstu blandað bú, en síðar skiptu foreldrar hennar alfarið yfir í sauðfé. „Ég hef umgengist sauðfé frá því ég man eftir mér og líkar afskaplega vel við kindur. Gæti varla hugsað mér lífið án þeirra,“ segir hún. Eftir að foreldrar hennar brugðu búi og seldu jörðina fór hún eftir sem áður á æskuheimili sitt og var þar í öllum sínum frístundum. Hún hafði bara samband við fólkið sem keypti sem tók henni opnum örmum og var auðsótt mál að fá að taka þátt í sauðburði.
 
Birgitta hefur víða komið við á sinni lífsleið. Hún fæddist á Skagaströnd og hefur búið í Fljótum, Akureyri og Stykkishólmi. Í september 2013 flutti hún svo með eiginmanni sínum að Möðruvöllum 3 í Hörgárdal. 
 
Hún starfaði sem dagmóðir á Akureyri í rúm 14 ár, enda líkt farið með börnin eins og kindurnar, Birgitta elskar börn. Einnig starfaði hún í um áratug hjá Mjólkursamlaginu og þá má nefna að hún vann hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar um tveggja ára skeið, þar sem hún sá m.a. um símavörslu. 
 
Eiginmaður Birgittu er Þórður Gunnar Sigurjónsson, sem starfar hjá Bókvís ehf., en það er bókhaldsfyrirtæki í eigu Búnaðarsambands Eyjafjarðar sem sér um bókhald og skattauppgjör fyrir einstaklinga, bændur, ýmis félög og stofnanir á svæðinu. Hann tekur einnig fullan þátt í búrekstrinum á Möðruvöllum og stuðningi við börnin.
 
Ekki hægt að hugsa sér neitt betra
 
„Við erum hér með búskap þó hann sé ekki umfangsmikill en samt í nógu að snúast,“ segir Birgitta. Í fjárhúsi í vetur eru 260 kindur. „Það má alveg segja að ég sé í mínu draumastarfi, að hugsa um börn og kindur, það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér neitt betra.“ 
 
Birgitta byrjaði fyrst að starfa sem stuðningsforeldri fyrir nær 16 árum. Mál hafa þróast á þann veg að þau Birgitta og Þórður hafa tekið að sér mörg einhverf börn, en stór hópur barna með greiningu á einhverfurófi þarf á stuðningi að halda. „Við vissum í fyrstu ekkert um einhverfu, en tókum slaginn þegar fyrsti drengurinn kom til okkar og sjáum ekki eftir því. Hann hefur verið hjá okkur í rúm 14 ár,“ segir Birgitta. Þau Þórður hafa um árin verið stuðningsforeldrar þó nokkurra einhverfra barna, en algengt er að börnin dvelji eina til tvær helgar á mánuði á heimili þeirra. Einnig hafa þau boðið upp á sumardvöl á heimili sínu. 
 
„Börn á einhverfurófi eru mjög misjöfn, eins misjöfn raunar og þau eru mörg, hver og einn er með sínu móti,“ segir hún. „Öll eiga börnin þó það sameiginlegt að vera yndisleg, hvert á sinn hátt.“
Ánægjulegt að börnunum líður vel hjá okkur
 
Birgitta segir að í starfi sínu sem stuðningsforeldri felist meðal annars að vera til staðar fyrir börnin, vera með þeim í leik og starfi. Stuðningurinn sé hugsaður bæði fyrir börnin sjálf sem og foreldra þeirra. Þeir séu oft undir miklu álagi og þurfi á hvíld að halda. „Þetta er mjög ánægjulegt starf og hefur gefið mér mikið. Það er líka gott til þess að vita að maður getur orðið einhverjum að liði í starfi sínu, að geta rétt fram hjálparhönd og létt undir með fólki. Það er kannski sá þáttur við starfið sem skilur mest eftir sig. Mér þykir líka ánægjulegt að upplifa þegar börnunum líður vel hjá okkur. Það eiga margir erfitt og vissulega myndi ég vilja hjálpa öllum, en auðvitað eru ekki tök á því. Maður leggur sig fram í sínu starfi og uppsker ríkulega í ánægju barnanna,“ segir Birgitta.
 
Einkum eru það börn frá nágrannasveitarfélaginu, Akureyri, sem dvelja hjá Birgittu og Þórði, en þess eru líka dæmi að þau komi um lengri veg. Flest börn sem hjá þeim dvelja eru á aldrinum 6–12 ára en þess eru líka dæmi að þau séu bæði yngri og eldri, allt niður í fjögurra ára og upp í 18 ára. Birgitta og Þórður hafa einnig tekið börn í fóstur, meðal annars dreng sem þau síðar ættleiddu.
 
Börnin taka þátt í daglegum störfum á bænum
 
„Við höfum þann háttinn á að börnin eru með okkur í daglegum störfum hér heima við. Þau fara með okkur í fjárhús og sinna kindunum og hafa flest hver gaman af. Við höfum ekki verið í því að setja upp sérstaka dagskrá. Hér þarf að sinna fjölda verkefna og það fer best á því að börnin séu með okkur í þeim, taki þátt og hjálpi til eftir því sem þau hafa aldur og getu til,“ segir Birgitta.
 
Flestar helgar dvelja eitt eða fleiri börn á heimili Birgittu og Þórðar. „Ég lít nú samt ekki svo á að við séum ekki í fríi þótt húsið sé fullt af börnum, við hugsum ekki þannig. Þau eru bara hér hjá okkur og taka þátt í okkar störfum og daglega lífi. Það besta er þegar börnin una sér vel hér.“
 
Hún segir að heimilishundurinn Týri leggi sitt af mörkum, en flest barnanna eru mjög hrifin af honum. „Hann er mikil hjálparhella, hann Týri. Hefur gaman af boltaleikjum og krakkarnir hafa gaman af því að leika við hann, kasta bolta sem hann sækir samviskusamlega. Týri er mikill vinur barnanna og þau ná vel saman,“ segir Birgitta. 
 
Í maí 2014 tóku þau að sér ársgamlan dreng sem dvaldi á heimilinu í 11 mánuði. „Hann var mikið fatlaður, stundum mjög veikur og þurfti eðli málsins samkvæmt mikla umönnun. Drengurinn var alveg yndislegur og mér fannst þetta starf, að annast hann, mjög gefandi. Aldrei erfitt utan að vissulega tók verulega á þegar hann var mikið veikur og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi. Þórður var með mér í þessu verkefni, tók þátt af lífi og sál og var mín stoð og stytta. Án hans hefði ég nú sennilega ekki komist eins létt í gegnum þetta,“ segir Birgitta. Drengurinn lést af völdum veikinda sinna og hvílir að ósk foreldra hans í kirkjugarðinum við Möðruvallakirkju, steinsnar frá heimili Birgittu og Þórðar.
 
Býr í hjólhýsinu yfir sauðburðartímann
 
Á sauðburðartíma að vorlagi heldur Birgitta nánast til í fjárhúsinu, hefur komið sér þar upp hjólhýsi sem er staðsett í hlöðunni og fer lítið sem ekkert inn á heimilið. „Ég kem mér upp bækistöð í fjárhúsunum og hef börnin sem hjá mér dvelja hverju sinni yfirleitt með mér. Þeim finnst það spennandi. Það fer vel um okkur og þetta er bara skemmtilegt. Það er líka þægilegt að geta bara verið á staðnum allan sólarhringinn og hér skortir okkur ekki neitt. Ég er á staðnum og get fylgst með sauðburðinum án þess að gera mér sérstaka ferð. Þetta er líka fínasta útilega,“ segir Birgitta.
 
Yfir sumarið bjóða þau Þórður upp á sumardvöl fyrir börn á bæ sínum og er hvert barn að jafnaði hálfan til einn mánuð á heimilinu í senn. Börnin koma bæði frá Akureyri og einnig lengra að, m.a. frá Reykjavík. „Við erum núorðið með börn hjá okkur allt sumarið, byrjum í júní og erum að nánast út ágústmánuð þannig að hér er nóg að gera á sumrin,“ segir hún, en einnig hafa þau hjón tekið börn í skammtímafóstur og er þá misjafnt hversu lengi hvert og eitt þeirra dvelur á heimilinu. Nú dvelur hjá þeim einn drengur, sjö ára gamall, í skammtímafóstri. 
 
 Eru fljót að aðlagast
 
„Ég hef mjög gaman af þessu starfi og það hefur gefið mér mikið þannig að ég mun halda áfram að sinna því. En einhvern veginn er það nú þannig að þó ég hafi mjög gaman af börnum held ég að mér myndi ekki líka að starfa sem kennari, hvorki í leik- né grunnskóla. Þetta er allt öðruvísi starf, börnunum virðist líða vel hér og það er fyrir mestu, við erum í þessu saman, ég og eiginmaðurinn, sem leggur sig 100 prósent fram og börnin leita allt eins til hans með sín mál eins og til mín. Þau eru fljót að aðlagast og heilt yfir hafa allir þeir krakkar sem hér hafa dvalið verið ótrúlega góð, manni þykir mjög vænt um börnin og þau gefa mikið af sér. Um meira er varla hægt að biðja,“ segir Birgitta.

31 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...