Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá þjóðbúningahátíðinni Skotthúfunni.
Frá þjóðbúningahátíðinni Skotthúfunni.
Mynd / Sumarliði Ásgeirsson
Menning 8. febrúar 2023

Líf og fjör

Höfundur: Hjördís Pálsdóttir

Byrjað var að safna menningar­minjum í Snæfellsnes­ og Hnappadalssýslu árið 1956 er Ragnar Ásgeirsson fór um sveitirnar og safnaði munum, alls 500 gripum.

Ragnar var þá ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og var það í tengslum við það starf sem hann hóf að safna þjóðlegum minjum í sveitum landsins. Árið 1969 fór svo Magnús Gestsson svipaða söfnunarferð um svæðið og safnaði 500 gripum í viðbót. Magnús skráði munina 1.000 og ritaði formála að skránni. Magnús var frá Ormsstöðum í Dalasýslu og gerðist kennari og safnvörður í Dölum. Hann sinnti alla tíð söfnun og safnvörslu. Þetta söfnunarátak, sem skilaði 1.000 safngripum, markar upphaf Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla en stofnárið telst vera 1956.

Safnkostur í heild telst nú vera um 6.000 gripir, aðallega frá fyrri hluta 20. aldar. Sérstök áhersla er lögð á að safna gripum af svæði safnsins og ekki síst þeim er tengjast verslun, sjósókn og eyjabúskap. Einnig er öllu safnað er varðar Norska húsið og íbúa þess á 19. og 20. öld.

Árið 1970 ákvað sýslunefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu að festa kaup á Norska húsinu í Stykkishólmi með það fyrir augum að færa húsið til upprunalegs horfs og koma þar upp byggðasafni sýslunnar. Viðgerðir á húsinu stóðu yfir í 36 ár, en Norska húsið er í sjálfu sér merkur safngripur, viðirnir fluttir tilsniðnir frá Noregi og húsið reist 1832. Það var Árni Thorlacius kaupmaður, útgerðarmaður og bóndi, sem lét reisa húsið og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Stykkishólmsbær og Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur mynda samlag um reksturinn.

Árið 2022 fagnaði Byggðasafn Snæfellinga því að Norska húsið varð 190 ára. Það var margt um að vera á safninu í tilefni þess.

Um páskana voru haldnir tónleikar með hljómsveitinni Bergmál og jafnframt var opnuð listsýningin Is it inside my body – or is it outside, þar sem Sara Gillies sýndi málverk.

Sýningin Sparistellið var opnuð á þjóðbúningahátíðinni Skotthúfunni og fjallaði um bollastell í fortíð og nútíð. Undanfarin ár hefur safnið eignast Mávastell til að nota á Skotthúfunni og varð það kveikjan að hugmyndinni að sýningunni. Að fjalla um þá hefð að safna stelli. Hvers vegna safna nánast bara konur stellum, hvenær byrjaði sá siður að eignast heil matar- og kaffistell? Einnig var leitað til íbúa og þeir fengnir til að lána og segja frá sínum stellum. Sýningarstjóri var Anna Melsteð.

Á Norðurljósahátíð, sem er menningarhátíð í Stykkishólmi, var tímamótunum líka fagnað með nokkrum dagskrárliðum, m.a. með erindi um Norska húsið, kaffikynningu í tilefni bollasýningar og fleiru. Það var einnig margt um að vera í desember á safninu. Þá var sýningin Sparistellið sett í jólabúning, haldnir voru matar- og handverksmarkaður og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.

Fram undan á safninu árið 2023 er uppsetning á nýrri grunnsýningu en verið er að vinna í að taka niður sýninguna Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld, sem staðið hefur síðan árið 2001.

Ný grunnsýning verður opnuð á safninu næstkomandi sumar. Þar verður fjallað um Snæfellsnes á 20. öld og til okkar dags, út frá ákveðnu þema.

Skylt efni: söfnin í landinu

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...