Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kökubloggarinn Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sem heldur úti blogginu blaka.is, gaf nýverið út sína fyrstu kökubók sem er full af áhugaverðum og girnilegum uppskriftum.
Kökubloggarinn Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sem heldur úti blogginu blaka.is, gaf nýverið út sína fyrstu kökubók sem er full af áhugaverðum og girnilegum uppskriftum.
Mynd / úr einkasafni
Matarkrókurinn 21. desember 2018

Dugar ekkert minna en forsetamarengs!

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Kökubloggarinn Lilja Katrín Gunnarsdóttir gaf nýverið út sína fyrstu uppskriftabók, Minn sykursæti lífsstíll, sem er sneisafull af girnilegum uppskriftum og góðum ráðum fyrir alla sem gaman hafa af því að baka. Hér deilir hún með lesendum Bændablaðsins góðum og einföldum uppskriftum fyrir jólahaldið að konfekti, íseftirrétti og forsetamarengs. 
 
„Ég gjörsamlega elska jólin og ég held að það tengist því sterkum böndum að þetta er eini árstíminn þar sem er leyfilegt að baka eins og vindurinn án þess að vera dæmdur af sínu nærumhverfi. Það fíla ég. Mitt eftirlæti er að baka smákökur og baka ég þær allt árið um kring. Þær eru bara svo sætar og dúllulegar og svo er hægt að henda nánast hverju sem er í smákökudeig og það verður gott. Þannig að ég reyni að nýta það sem fellur til, afganga af jólanammi til dæmis, til að búa til smákökur,“ útskýrir Lilja Katrín og segir jafnframt:
 
„Þegar kemur að eftirréttum á jólum þá hef ég brennt mig á því að reyna að gera eitthvað ótrúlega flókið og merkilegt sem fólk sýnir svo takmarkaðan áhuga – sérstaklega börnin. Þannig að í ár ætla ég að breyta til. Er við fjölskyldan sátum saman um daginn og gæddum okkur á púðursykurmarengs eftir sunnudagsmatinn þá var það bara ákveðið. Það var ekki flókið – umræddur marengs nefnilega kláraðist á um það bil tveimur mínútum. Þannig að púðursykurmarengs með rjóma, karamellubitum og karamellusósu verður í eftirrétt á aðfangadag.
 
Auðvitað verður einnig nóg af heimagerðu konfekti á boðstólum, enda veit ég fátt skemmtilegra en að föndra konfekt langt fram á nótt. Svo endar það yfirleitt þannig að ég bý til 1001 tegund og fæ svo taugaáfall á Þorláksmessu yfir því að það sé ekki nóg til. Þá hendi ég í nokkrar konfekttegundir í viðbót og skil svo ekkert í því af hverju mittismálið stækkar með hverri mínútunni sem líður. En það eru nú bara einu sinni jól.“
 
Forsetamarengsinn er tileinkaður forseta vor, Guðna Th. Jóhannessyni, sem studdi Lilju Katrínu þegar hún hélt bökunarmaraþon fyrir nokkrum árum. 
 
Heslihnetur og Nutella
 
„Konfektið Ferrero Rocher er nánast aldrei til á mínu heimili og það er mjög einföld ástæða fyrir því: Það hverfur á svipstundu! Þannig að ég ákvað bara að búa það til sjálf og sjá hvernig heimilisfólkinu líkaði við það. Í stuttu máli: Það elskaði Ferrero Rocher-ið mitt!
Ferrero Rocher
 
Hráefni:
  • 1 bolli mulið ískex (helst með súkkulaðifyllingu)
  • 1 bolli saxaðar heslihnetur
  • 1/2–3/4 bolli mjúkt Nutella
  • 1/3 bolli brætt dökkt súkkulaði
  • 1/2 tsk. brætt smjör
  • 1/3 bolli saxaðar heslihnetur
Í Ferrero Rocher-konfektið er Nutella og heslihnetur ásamt muldu ískexi aðaluppistaðan.
 
Aðferð:
 
Blandið ískexi, 1 bolla af heslihnetum og Nutella vel saman í skál. Blandan á að vera klístruð. 
 
Skellið blöndunni í ísskáp í 30 mínútur og leyfið henni að jafna sig. 
 
Búið til litlar kúlur úr blöndunni og raðið á smjörpappírsklæddan disk. Setjið þær inn í frysti í 15 mínútur. 
Bræðið dökka súkkulaðið og smjörið saman í örbylgjuofni í þrjátíu sekúndur í senn. Hrærið alltaf á milli hverra þrjátíu sekúndna. Bætið heslihnetunum út í. 
 
Veltið frosnum kúlunum upp úr súkkulaðiblöndunni og setjið á smjörpappír á meðan þær storkna. Þetta er lítil uppskrift en það er lítið mál að tvöfalda eða þrefalda hana. Þessar er líka gott að frysta svo maður hafi alltaf smá kruðerí við höndina til að gúffa í sig!“
 
Ísterta með ástaraldini og hvítu súkkulaði sómir sér vel sem eftirréttur á jólunum. 
 
Segðu það með ístertu
 
„Ég gæti borðað ís hvar og hvenær sem er og ég held að besta vinna sem ég hafi nokkurn tímann unnið hafi verið þegar ég vann í framleiðslusal Emmess ís og mátti borða eins mikinn ís og ég vildi! Mér finnst þess vegna sjúklega gaman að búa til minn eigin ís og prófa mig áfram með alls kyns samsetningar. Þetta er ein af týpunum sem er fullkomlega ómótstæðileg.
 
Ísterta með ástaraldini og hvítu súkkulaði
 
Botn – Hráefni:
  • 7 vöfflu ísform, grófmöluð
  • 1 msk. púðursykur
  • 4 msk. brætt smjör
Aðferð:
 
Hitið ofninn í 180°C og takið til hringlaga form, sirka 20 sentímetra stórt. 
 
Setjið vöffluformin og púðursykur í matvinnsluvél og blandið saman þar til blandan minnir á mylsnu. Bætið smjörinu saman við og hrærið vel saman.
 
Þrýstið blöndunni í botninn á forminu og bakið í 10–15 mínútur. Leyfið botninum að kólna alveg.
 
Fylling – Hráefni:
  • 1/2 dós sæt dósamjólk (sweetened condensed milk)
  • 100 g hvítt súkkulaði, brætt
  • kjöt úr 3 ástaraldinum (plús 1 ástaraldin til að skreyta með)
  • 300 ml rjómi
Aðferð:
 
Byrjið á því að þeyta rjómann og setja til hliðar.
 
Blandið síðan mjólkinni, hvíta súkkulaðinu og ástaraldini saman í skál. 
 
Bætið rjómanum saman við og blandið varlega saman með sleif eða sleikju. 
 
Skellið blöndunni ofan á botninn og sléttið úr henni. Frystið í að minnsta kosti 7 klukkutíma, helst yfir nótt. Skreytið síðan með ástaraldini og finnið sumarbragðið!“
 
Forsetamarengs
 
„Ég varð að tileinka forseta vor, Guðna Th. Jóhannessyni, eina af uppskriftunum í þessari bók, einfaldlega út af því að hann gaf mér ómetanlegan styrk í bökunarmaraþoninu. Mér finnst hann líka mjög nettur forseti og gæti alveg trúað því að hann væri mikill marengskarl. En hver elskar ekki marengs?
 
Marengs
 
Hráefni:
  • 4 stórar eggjahvítur
  • 1/4 tsk. cream of tartar
  • 1 1/4 bolli sykur
  • 1/2 msk. maíssterkja
  • 2 msk. kakó
Aðferð:
 
Hitið ofninn í 150°C og takið til bökunarplötu. Klæðið hana með smjörpappír og setjið til hliðar. Ef þið viljið, getið þið teiknað 2 jafnstóra hringi á pappírinn með penna eða blýanti og snúið honum svo við þannig að þið sjáið hringina í gegn. Þetta er hægt að gera til að tryggja að marengsbotnarnir verði jafnstórir.
 
Takið til skál sem er laus við öll óhreinindi og fitu. Mér finnst best að þurrka innan úr henni með pappírsþurrku. Setjið eggjahvíturnar í skálina og þeytið þær þar til þær freyða vel.
 
Bætið cream of tartar út í á meðan þið þeytið og stífþeytið eggjahvíturnar.
 
Blandið sykri, maíssterkju og kakói saman í annarri skál. Á meðan þið hrærið eggjahvíturnar, blandið þið kakóblöndunni saman við, einni matskeið í einu. 
 
Þeytið í um 5 mínútur þegar þetta er búið til að tryggja að allt sé vel blandað saman.
 
Dreifið blöndunni í tvo stóra hringi á smjörpappírnum og reynið að hafa þá jafnstóra. Bakið í 1 klukkustund og 45 mínútur. Ekki opna ofnhurðina á meðan.
Slökkvið á ofninum og opnið hurðina aðeins þegar bökunar­tíminn er liðinn og leyfið marengsinum að kólna inni í ofninum. 
 
Rjómi – Hráefni:
  • 300 ml rjómi
  • 4 msk. kakó
  • 1 msk. flórsykur
  • handfylli af bláberjum
Aðferð:
 
Þeytið rjómann, kakóið og flórsykurinn saman þar til rjóminn er stífþeyttur.
 
Skellið 3/4 af rjómanum á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir og setjið restina ofan á kökuna. Skreytið með bláberjum – eða hverju sem þið viljið.
Hryggur um páskana
Matarkrókurinn 26. mars 2024

Hryggur um páskana

Það er nánast samofið páskunum að borða lambakjöt af einhverju tagi. Læri, hrygg...

Rasmus og Sven gera bollur
Matarkrókurinn 18. mars 2024

Rasmus og Sven gera bollur

Hakkréttir eru fín leið til að metta marga og vinsæll valkostur á heimilum lands...

Tvistað við ofurstann
Matarkrókurinn 4. mars 2024

Tvistað við ofurstann

Djúpsteiktur kjúklingur, sem flestir þekkja í gegnum ofursta nokkurn frá Kentuck...

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur
Matarkrókurinn 19. febrúar 2024

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur

Hvernig passar blaðlaukur, reykt ýsa og kartöflur saman? Jú barasta prýðilega, t...

Boli & brokkólí
Matarkrókurinn 31. janúar 2024

Boli & brokkólí

Nautakjöt og brokkólí er klassískur asísk-amerískur réttur sem á sennilega ættir...

Mátulega hátíðlegur ís
Matarkrókurinn 21. desember 2023

Mátulega hátíðlegur ís

Það er nær ómögulegt að fá alvöru rjómaís út úr búð á Íslandi og hvað þá úti í í...

Reykt ýsa
Matarkrókurinn 13. desember 2023

Reykt ýsa

Skammdegið með sínum kulda og myrkri kallar á ögn þyngri mat en annar tími ársin...

Buff í brúnni
Matarkrókurinn 23. nóvember 2023

Buff í brúnni

Kíló fyrir kíló og krónu fyrir krónu er nautahakkið sennilega fjölbreyttasta pró...