Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sigurgeir Ólafsson í aðstöðu sinni á Keldnaholti, að fjölga græðlingum.
Sigurgeir Ólafsson í aðstöðu sinni á Keldnaholti, að fjölga græðlingum.
Mynd / smh
Viðtal 25. október 2018

Markmiðið að rækta arfhreint og heilbrigt útsæði

Höfundur: smh
Frá 1976 hefur Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur haft umsjón með stofnræktun kartöfluútsæðis fyrir kartöflu­bændur á Íslandi. Nú styttist í að Sigurgeir sleppi tökunum á þessu mikilvæga starfi, en hann hefur síðustu árin sinnt stofnræktuninni þó hann hafi fyrir nokkru látið af föstum störfum hjá Matvælastofnun. Hann segir mikilvægt að vel sé áfram haldið utan um stofnræktunina. 
 
Að sögn Sigurgeirs er kartaflan sérstök að því leyti að útsæði eru vatnsauðug og næringarrík stöngulhnýði en ekki þurr fræ eins og hjá öðrum nytjajurtum. Því sé greið leið fyrir smitefni í gegnum útsæðið í ræktun kartaflna ef ekki er ástunduð sérstök smitfrí stofnræktun á útsæði. Kartöflubændur þurfa því að endurnýja reglulega sitt útsæði. Flestum öðrum nytjajurtum er hægt að fjölga með fræsöfnun og þurrkun – sem lágmarkar líkur á slíku smiti.
 
Vefjaræktaðar plöntur.
 
Arfhreint og heilbrigt útsæði til sáningar
 
„Tilgangur stofnræktunarinnar er tvíþættur; að viðhalda arfgerð og heilbrigði. Ef sama útsæðið er notað ár eftir ár án endurnýjunar er hætt við að tíðni vissra sjúkdóma aukist þar til ræktun verður vart arðbær. Hægt er að flytja inn stofnútsæði erlendis frá en ekki af Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum. Einnig er hæpið að hægt sé að stofnrækta þessi yrki erlendis vegna þess að þau eru svo viðkvæm fyrir kartöflumyglu og svokallaðri Y-veiru og álag þessara sjúkdóma þar margfalt á við það sem er hér á landi. Því má segja að innlend stofnræktun sé forsenda fyrir ræktun þessara yrkja til frambúðar hér á landi. Skilyrði fyrir kartöflumyglu eru mjög góð á Hornafirði en þar hefur mygla ekki komið í minnst 60 ár. Skýringin er sú að þar hafa menn sammælst um að setja ekki niður innflutt útsæði. Þegar mygla hefur geisað á Suðurlandi hefur hún ekki náð austur á Hornafjörð. Ein ástæða þess að erlenda yrkið Premiere er haft með í stofnrækt hér er til að gefa Hornfirðingum og öðrum kost á ræktun þessa yrkis án þess að setja niður innflutt útsæði,“ segir Sigurgeir um mikilvægi stofnræktarstarfsins.
 
Stofnræktun á kartöfluútsæði hófst árið 1948 á Íslandi, þegar Grænmetisverslun ríkisins og Tilraunaráð jarðræktar gerðu með sér samning um framkvæmd og eftirlit með stofnræktinni. Sigurgeir lauk doktorsprófi árið 1976 með plöntusjúkdóma sem aðalgrein og plöntulífeðlisfræði og meindýr á plöntum sem aukagrein. 
 
„Þá var ein sérfræðingsstaða á Íslandi í plöntuheilbrigði við Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) og var Ingólfur Davíðsson grasafræðingur sá fyrsti sem gegndi henni og var þá kominn á eftirlaun. Á þeim tíma var mikið rætt um vandamál í kartöflurækt vegna sköddunar í vélum og vegna nýs sjúkdóms, Phoma þurrrotnun, sem nýlega var farinn að valda miklu tjóni á Íslandi sem og í nálægum löndum. Aðalritgerð mín í plöntusjúkdómum fjallaði um þennan sjúkdóm sem og fyrsta grein mín heima einnig, í Frey 1975. Ég tók við þessari sérfræðingsstöðu á RALA og var þegar settur í að leiða samstarfshóp um kartöflurannsóknir. Verksvið mitt var hins vegar sjúkdómar og meindýr á plöntum almennt og varnir gegn þeim. Mitt hlutverk var líka að hafa eftirlit með innflutningi og útflutningi á plöntum og heilbrigðiseftirlit með stofnræktun kartöfluútsæðis sem var á vegum Grænmetisverslunar landbúnaðarins.“
 
Mörg vandamál voru í kartöfluræktuninni
 
„Í grasrækt var vandamálið annars vegar kal í túnum – sem Bjarni Guðleifsson á Möðruvöllum sinnti mjög vel – og hins vegar grasmaðkur sem Geir Gígja skordýrafræðingur hafði rannsakað ítarlega og birt í sérstöku riti. Ekki voru á þeim tíma sérstök vandamál í kornrækt. Mínar áherslur hlutu því að beinast að kartöfluvandamálum og annarri útimatjurtaræktun sem og í ylrækt,“ segir Sigurgeir þegar hann er spurður um aðkomu hans að kartöflunum. 
 
„Í kartöfluræktuninni mátti finna á annan tug sjúkdóma ásamt kartöfluhnúðormi og margir þessara skaðvalda eru útsæðisbornir.  Heilbrigt útsæði er því lykilatriði. Í gömlu stofnræktinni fólst endurnýjun í því að flytja inn nýtt útsæði erlendis frá, einkum frá Noregi og Hollandi. Þannig fengum við inn nýja sjúkdóma.“
 
Bjó til nýja stofna af gömlu yrkjunum
 
Sigurgeir segir að hann hafi komist að raun um það fyrir 40 árum, þegar hann fór að skoða stöðu mála, að gömlu yrkin; Gullauga, Helga og Rauðar íslenskar, væru alsmituð með veirum, X og S. „Ég hóf þá tilraun til að búa til veirufría stofna með vefjaræktunartækni sem tókst það vel að þessir stofnar eru notaðir enn í dag og eru enn veirufríir. 
 
Þetta var í fyrsta skiptið sem plöntulíftækni var beitt hér á landi. Það má segja að ég hafi haldið utan um þessa stofna og stofnræktina síðan. Ég tók einfaldlega við nánast öllum kartöfluverkefnum á RALA, meðal annars afbrigðaprófunum og varð helsti kartöflusérfræðingur landsins. Sem dæmi get ég nefnt að af 114 greinum sem ég hef skrifað á ferlinum fjalla um 70 um kartöflur á einn eða annan hátt.“
 
Gamlar íslenskar fram yfir nýjar innfluttar
 
Sigurgeir er einlægur aðdáandi kartöflunnar; bæði sem vísindalegt viðfangsefni en einnig sem matvöru. „Ég bara verð að hafa hana með öllum mat. Í mörgum löndum þar sem ræktuð eru mörg yrki er oft litið á sum þeirra sem fágæti eða „delicatessen“, sem notuð eru við sérstök tilefni. Nefna má Möndlu og Gullauga í Skandinavíu, Asparges í Danmörku og Ratte í Frakklandi sem dæmi. Menn gera sér sjálfsagt ekki grein fyrir því að hér geta menn farið í næstu matvörubúð og keypt slíkt fágæti í þessum íslensku yrkjum. 
 
Á vorin og fram á sumar tek ég hiklaust gamlar íslenskar fram yfir nýjar, innfluttar, útlitsfallegar en oft vatnskenndar kartöflur og læt útlitið ekki blekkja mig því oft er flagð undir fögru skinni. Ég legg að jöfnu Gullauga, Helgu og Rauðar íslenskar,“ segir Sigurgeir.
 
Smáhnýði úr ræktun Sigurgeirs.
 
Átta hundruð plöntur verða að 100 tonnum
 
 „Við upptöku á haustin í Eyjafirði eru valin nokkur móðurhnýði af hverju yrki; Gullauga, Helgu, Premiere og Rauðum íslenskum. Valið er eftir lit, lögun og þrótti plöntunnar. Þetta úrval er geymt í kæli fram yfir næstu áramót. Samtímis eru klónar af úrvali fyrri ára geymdir sem plöntur í vefjaræktun í ræktunarklefa,“ segir Sigurgeir spurður um hvernig starf hans gangi fyrir sig frá hausti til hausts.  
 
Eftir áramót eru móðurhnýðin látin spíra og vaxtarbroddar teknir úr spírum og fengnar fram vefjaræktaðar plöntur. Annað hvert ár er gert veirupróf á öllum móðurplöntum til að tryggja að þær séu enn lausar við X- og S-veiru. Vefjaræktuðum plöntum er síðan fjölgað með græðlingum í ræktunarklefa þar til um 800 plöntur eru tilbúnar til pottunar í gróðurhúsi 7.–15. maí. Miðað er við að ræktun í gróðurhúsi sé lokið 1. ágúst og grös visnuð áður en nokkur hætta er á að smit kartöflumyglu fari að berast í lofti. Uppskeran úr gróðurhúsinu, smáhnýðin, eru síðan sett niður í Eyjafirði næsta sumar. 
 
Útiræktunin í Eyjafirði var lengi á Möðruvöllum í Hörgárdal en var flutt vorið 2018 að Fífilgerði í Eyjafjarðarsveit. Ástæða þess að útiræktunin er höfð í Eyjafirði er sú að þar er minni hætta á kartöflumyglu en á Suðurlandi. Í maímánuði eru smáhnýðin úr gróðurhúsinu frá fyrra ári sett niður í garð í Eyjafirði og uppskeran sem fæst sett niður aftur þarnæsta ár. Sett er niður með höndum í hryggi og tekið upp með höndum. Tveggja ára útiræktun skilar á bilinu tveimur til þremur tonnum að jafnaði og fara þær kartöflur til þriggja stofnræktarbænda; að Eyrarlandi og Fífilgerði í Eyjafjarðarsveit og að Dilksnesi í Hornafirði. Stofnræktarbændurnir fjölga útsæðinu í tvö sumur og selja afraksturinn til þeirra sem rækta matarkartöflur. 
 
Eftir fjögur ár í útiræktun hafa plönturnar 800 úr gróðurhúsinu þannig skilað tæpum 100 tonnum til þeirra sem rækta matarkartöflur; um 60 tonnum af Gullauga, 20 tonnum af Rauðum íslenskum, 10 tonnum af Premiere og 2 tonnum af Helgu,“ segir Sigurgeir og bætir við að uppskeran úr stofnræktun hans hafi alltaf selst upp.
 
Framleiðslumagni úr stofnræktun viljandi haldið niðri
 
Að sögn Sigurgeirs er magni stofnútsæðis haldið innan þeirra marka sem eftirspurn er frá ræktendum matarkartaflna. „Ef umframmagn verður er hætt við að því magni verði að farga. Ekki er æskilegt að stofnræktendur fari í samkeppni við kaupendur sína með því að setja umframmagn á almennan markað sem útsæði eða matarkartöflur. 
 
Fram að þessu hefur eftirspurn verið góð og allt selst sem er ánægjulegt því það er vísbending um að kaupendur sjái sér hag í að kaupa stofnútsæðið. Oft hefur verið rætt um hvort ekki sé hægt að rækta hér útsæði til útflutnings. Það er ekki einfalt. Skilyrði fyrir útflutningi til Evrópusambandslanda er að hér séu aðgerðir til útrýmingar á hringroti sem er mjög dýrt dæmi.“
 
Sem fyrr segir líður brátt að starfslokum Sigurgeirs í þjónustu gömlu íslensku kartöfluyrkjanna og kartöflubænda. Hann hefur tilkynnt Sambandi garðyrkjubænda um þá ákvörðun sína að hann hyggist hætta á næsta ári. „Nú þegar styttist í að ég skili þessu verkefni af mér vil ég síður hafa mótandi áhrif á hvernig þessu verður háttað í framtíðinni. Það tel ég að aðrir eigi að gera. Ég hef unnið við þetta síðustu 40–50 ár, mótað reglugerð um kartöfluútsæði og annast alla framkvæmd – ef til vill með nokkurri sérvisku. Ég hef sem dæmi tekið allt upp með höndunum til að skaða kartöflurnar sem minnst. Nú vil ég að hlutaðeigandi aðilar noti komandi vetur til að ræða framhaldið og komist vonandi að niðurstöðu um framtíð stofnræktar,“ segir Sigurgeir.  

8 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...