Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðmundur Magnússon, húsasmiður á Flúðum, með algerlega ófúna tréskífu sem búin er að þjóna tilgangi sem slík á tveim húsum á Selfossi í að minnsta kosti 127 ár og sennilega mun lengur.
Guðmundur Magnússon, húsasmiður á Flúðum, með algerlega ófúna tréskífu sem búin er að þjóna tilgangi sem slík á tveim húsum á Selfossi í að minnsta kosti 127 ár og sennilega mun lengur.
Mynd / HKr.
Líf og starf 18. febrúar 2019

Dæmi um skífur úr tré sem enst hafa í á annað hundrað ár á húsum á Selfossi

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Guðmundur Magnússon, húsa­smiður á Flúðum, er líklega sá Íslendingur sem hvað mesta þekkingu hefur á nýtingu á íslensku timbri í þak- og veggjaskífur. Hann telur líka að þetta sé mjög vanmetið efni til að klæða hús.
 
Í Kanada er mjög algengt að notaðar séu tréskífur á þök og í veggklæðingar. Tjörupappaskífur eru líka mikið notaðar fyrir utan steinskífur. Vissulega er staðviðrasamara á flestum þeim stöðum í Kanada sem tréskífurnar eru mest notaðar, en það segir þó ekki að þær geti ekki vel gengið á hús á Íslandi.  
 
Þegar menn handfjatla þunnar tréskífur þykir eflaust flestum að slíkt efni sé ekki gæfulegt til að klæða hús utan, hvað þá á þök. Slíkt hljóti fljótt að fúna og grotna niður. Guðmundur hefur hins vegar allt aðra sögu að segja og getur þar vísað í reynslu manna af slíkum efnivið hér á landi. Á sýningunni Íslenskur landbúnaður 2018 í Laugardalshöllinni síðastliðið haust var Guðmundur með sýnishorn af þakskífu sem var á annað hundrað ára gömul og enn í fullkomnu lagi eftir að hafa verið notuð fyrst sem skífa í þakklæðningu og síðan í veggklæðningu á Selfossi. 
 
Á annað hundrað ára gamlar tréskífur algjörlega ófúnar
 
„Ég nefndi þessa hugmynd mína um að búa til tréskífur við Böðvar Guðmundsson á Selfossi. Það þýðir ekkert, sagði hann við mig. Þetta fúnar allt saman. Við ræddum það ekkert meira, en nokkrum vikum seinna hringir hann í mig. Þá segist hann hafa farið að grennslast fyrir um menn sem voru að skipta um klæðningu á gömlu húsi þar í bæ, en á því hafði verið klæðning úr tréskífum. Fékk hann mynd hjá eiganda hússins af öðru tveggja bursta húsi sem kallað var Fossbæir á Selfossi sem var með svona skífum á þakinu, en myndin var tekin 1890. 
 
Enginn veit hversu lengi þakskífurnar höfðu verið á þakinu fyrir þann tíma. Svo skemmist þetta hús illa í jarðskjálfta 1896. Var það svo rifið að mér skildist ári seinna, eða 1897. Þá var skífan sem var á þakinu sett á veggina á húsinu sem var byggt í staðinn. Svo liðu 120 ár þangað til mennirnir sem Böðvar ræddi við fóru að skipta um veggklæðninguna árið 2009 eða 2010. Skífurnar voru því í það minnsta 120 ára gamlar. 
 
Böðvar kom með skífu úr þessari veggklæðningu til mín og hún var algjörlega ófúin eftir allan þennan tíma í misjöfnu íslensku veðri. Það eina sem sá á henni var að það var búið að negla hana nokkrum sinnum, enda höfðu naglarnir ryðgað í sundur á þessum tíma. 
 
Ég fékk síðan Eirík Þorsteinsson með mér til Kanada til að skoða hvernig menn framleiddu tréskífur þar í landi. Það endaði með því að ég fór þangað aftur og samdi þá við Kanadamenn um að smíða fyrir mig vél til að framleiða svona skífur.“ 
 
Endingin byggist á hvað timbrið er þunnt
 
Guðmundur segist hafa spurt Kanadamanninn sem seldi honum vélina hvort skífan sem hann var að skoða væri ekki óþarflega þunn. Hann svaraði að bragði að svo væri ekki. Endingin byggðist á því að hafa skífurnar eins þunnar og hægt væri. Ástæðan er einföld. Eftir því sem timbrið í skífunum er þynnra þá þornar það fyrr þó það blotni, þannig að fúasveppur lifir ekki í timbrinu.
 
„Mistökin sem við höfum alltaf verið að gera er að vera með efnið of þykkt. Sem dæmi þá var ég að skipta um pall við sumarbústað fyrir nokkrum árum. Þá var eitt bilið svo langt að það hafði verið notað þriggja tommu efni í bitana. Þessir bitar voru allir maukfúnir, en tveggja tommu bitar í sama palli voru ófúnir. Það segir manni allt sem segja þarf. Þykka timbrið nær ekki að þurrka sig þegar það blotnar og þá nær sveppurinn að dafna,“ segir Guðmundur. 
 
Skífur Guðmundar víða á húsum
 
Hann segir að skífur sem hann hefur framleitt séu komnar á nokkur hús á Flúðum og víðar. Hann segist þó ekkert hafa verið að ýta undir það sérstaklega að menn settu þetta á þök því hentugra efni fengist í slíkt í okkar vindasama landi. Einn maður sem hann viti um hafi þó sett slíkt á þak á kofa við sumarbústað á Þingvöllum.
 
Guðmundur segir að íslenskt lerki sé mjög gott efni í svona tréflísar. Það sé líka mjög fallegt. Hægt sé að nýta grisjunarvið sem er allt niður í 8 sentímetra í þvermál í slíkar skífur. Stiga í hús hefur Guðmundur líka smíðað úr íslensku lerki. Það sé því algjör synd að senda allan þann grisjunarvið sem til fellur í íslenskum skógum í brennslu í íslenskum málmbræðslum. 
 
Þá nefndi Guðmundur sem dæmi að skemma á Fitjum hafi verið klædd að innan með skífum sem hann hafi framleitt úr 18 ára gamalli íslenskri furu. Þá noti Félag trérennismiða á Íslandi að mestu íslenskan við og smíða félagarnir úr honum skálar, lampaskerma og hvað sem mönnum dettur í hug. 
 
Fer oft ótroðnar slóðir
 
Guðmundur hefur oft farið ótroðnar slóðir þegar kemur að húsbyggingum. Þannig hefur hann verið frumkvöðull að byggingu húsa úr samlímdum sjálfberandi einingum úr steinull og stálklæðningu sem framleiddar eru hjá Límtré Vírneti á Flúðum. Þarf þá enga veggjagrind. Einungis eru bitar undir þak sem er síðan sett saman úr sambærilegum einingum og veggirnir. Hefur hann reist fjölmörg slík hús víða um land sem hafa reynst afburðavel. Eru þau sérstaklega hlý og þéttari en flest önnur hús. Ekki sakar að slík hús er létt í flutningum og fljótleg í uppsetningu. 

Skylt efni: tréskífur

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...

Viðburðaríkt ár framundan
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp saf...

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný
Líf og starf 3. apríl 2024

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný

Sveitir landsmanna iðuðu á árum áður af spilamennsku. Nú er unnið að því að glæð...