Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Guðbjörg Ringsted við Leikfangasafnið á Akureyri, en það er rekið í Friðbjarnarhúsi, einu af elstu húsum bæjarins, reist árið 1856.
Guðbjörg Ringsted við Leikfangasafnið á Akureyri, en það er rekið í Friðbjarnarhúsi, einu af elstu húsum bæjarins, reist árið 1856.
Mynd / MÞÞ
Líf&Starf 9. janúar 2018

Leikföngin vekja góðar bernskuminningar gestanna

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Leggur og skel. Stökkbreyttar skjaldbökur. Dúkka með hrosshár. Heman. Bangsi að borða. Mjólkurbílar. Nintendo leikjatölva. Flugfreyjusett. Þetta eru leikföng frá liðnum tíma og þau er að finna á Leikfangasafninu sem rekið er í Friðbjarnarhúsi við Aðalstræti 46 á Akureyri. 
 
Húsið er í hópi elstu húsa á Akureyri, reist árið 1856,  en safnið er hugarfóstur Guðbjargar Ringsted sem safnað hefur saman leikföngum sem framleidd voru frá árinu 1890 til 1990 og sýnir í þessu virðulega húsi. Í kvistherbergi á efri hæð þess var fyrsta góðtemplarastúka Íslands stofnuð snemma í janúar árið 1884. 
 
„Hugmyndin að þessu safni kviknaði í heimsókn til borgarinnar Borgå í Finnlandi á árinu 1992. Þar rakst ég inn á leikfangasafn í gömlu timburhúsi og heillaðist mjög. Þeirri flugu laust niður í höfuðið á mér að gaman væri að setja upp svipað safn hér heima. Ég viðraði þessa hugmynd við vinkonur mínar sem reyndust mjög jákvæðar og hvöttu mig eindregið til að láta verða af þessu,“ segir Guðbjörg.
 
Hefðbundið stelpudót safnaðist vel í fyrstu
 
Úr varð að hún fór í fyrstu yfir leikföng í sinni eigu, það sem enn var til og varðveitt hafði verið frá hennar æskuheimili, eins og hinn dýrmæti rauði Reykjalundardúkkuvagn. Vinkonurnar lögðu líka í púkkið, „þannig að fyrstu leikföngin sem mér áskotnuðust voru það sem kallast hefðbundið stelpudót, mikið af brúðum, dúkkuvögnum og þetta helsta sem stelpur á árum áður léku sér að,“ segir Guðbjörg. Hún hafði úr nægu að moða þegar að þessum hlutum kom og tók þátt í sýningu með Minjasafninu á Akureyri árið 2003, en yfirskrift hennar var Dansi, dansi dúkkan mín.
 
Tindátar steyptir úr setjarastöfum
 
Hún lét einnig verða af því að auglýsa í Morgunblaðinu eftir leikföngum um haustið 1992, en afraksturinn var ekki ýkja mikill. Þó spurðist út að Guðbjörg væri að safna gömlum leikföngum og smám saman bættist í safnið. Sjónvarpsmaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson lagði leið sína á safnið einhverju sinni og fjallaði um það í þætti á ÍNN. Í því samtali lét Guðbjörg það flakka að tilfinnanlega vantaði meira strákadót á safnið og var ekki að sökum að spyrja, viðbrögðin urðu góð. „Í kjölfarið fékk ég m.a. forláta tindáta sem þrír vinir í Reykjavík, 10 til 12 ára gamlir, gerðu á árunum 1930 til 1932. Þeir höfðu steypt tindátana út í móti sem faðir eins þeirra hafði keypt í útlöndum. Blýið fengu þeir úr setjarastöfum í Félagsprentsmiðjunni. Tindátarnir voru svo málaðir í fallegum litum en þeir sem mér bárust voru allir ómálaðir. Drengirnir saumuðu dátana á spjöld, komu nokkrum saman fyrir í kassa og hófu sölumennsku, m.a. voru þeir til sölu í Thorvaldsenbazar, en þeir urðu snemma snjallir sölumenn, þessir strákar.“
 
Leikfangasafnið var opnað formlega á Íslenska safnadeginum, 11. júlí árið 2010, en árið á undan hafði Góðtemplarareglan gefið Akureyrarbæ húsið. Bærinn auglýsti eftir hugmyndum og áhugasömum rekstraraðilum, en Guðbjörg kynnti þá hugmynd sína að Leikfangasafninu og fékk húsið samkvæmt samningi til afnota undir þá starfsemi. Samningurinn var endurnýjaður í sumar og með aðstoð Akureyrarstofu er starfsemi Leikfangasafnsins í Friðbjarnarhúsi því tryggð næstu árin. 
 
Gömul leikföng vekja æskuminningar
 
Leikfangasafnið er opið yfir sumarmánuðina, frá því í byrjun júní og til loka ágúst. Að jafnaði sækja það um 2.000 gestir á þeim tíma. Yfir vetrartímann er Guðbjörg fús að hleypa fólki inn á safnið, hvort heldur eru hópar í hinum ýmsu ferðum eða einstaklingar. Hún starfar sem myndlistarmaður og nýtir vetrartímann til að sinna því starfi, „en ég er alltaf til í að þurrka af penslinum og sýna safnið þegar menn hafa áhuga fyrir að skoða, það hefur aldrei verið mikið mál,“ segir hún. 
 
Hún segir flesta þá sem sækja safnið heim sjálfa eiga góðar minningar um hin og þessi leikföng úr eigin æsku. „Það er afskaplega gaman þegar fólk tekur andköf þegar það sér ákveðin leikföng sem vekja bernskuminningar,“ segir hún.
 
Tekur þátt í listalífi bæjarins
 
Um þessar mundir er Leikfangasafnið þátttakandi í tveimur sýningum; Allir fá þá eitthvað fallegt er yfirskrift jólasýningar Minjasafnsins þar sem m.a. er að finna muni af Leikfangasafninu og sömuleiðis eru munir þess á jólasýningu Amtbókasafnsins á Akureyri. Listasafnið á Akureyri hefur staðið fyrir viðburði sem nefnist Sköpun bernskunnar, sem er samsýning skólabarna og starfandi listamanna og hefur Guðbjörg tekið þátt í honum. Nú síðast var þema þess viðburðar hafið, en næst verður tekist á við tröll, „þannig að ég mun örugglega trilla öllum mínum lukkutröllum á milli húsa í bænum,“ segir hún. 
 
Öflug leikfangagerð á Akureyri 1931–1960
 
Á Leikfangasafninu er að finna þó nokkuð af leikföngum sem smíðuð voru á leikfangaverkstæði sem stofnað var á Akureyri árið 1931, en það var frumkvöðullinn Skarphéðinn Ásgeirsson, síðar þekktur sem Skarphéðinn í Amaro, sem til þess stofnaði. Hann lauk sveinsprófi í trésmíði 25 ára gamall árið 1932 og hafði þá flust úr sveitinni í bæinn, af Svalbarðsströndinni til Akureyrar. Kreppan skall á, „og menn þökkuðu guði ef þeir fengu að vinna dagstund við uppskipun á sementi eða annað tilfallandi,“ segir Skarphéðinn í viðtali við Frjálsa verslun árið 1971. 
 
Þessi neyð knúði Skarphéðin til að reyna eitthvað nýtt og þannig atvikaðist að hann hóf að smíða leikföng úr tré. Flugvél og vörubíll voru á meðal fyrstu leikfanga hans. Leikföngin voru það ódýr að fólk sem þó hafði ekki mikið á milli handanna hafði ráð á að kaupa þau handa börnum sínum. Smíðin vatt upp á sig og leikföng Skarphéðins voru seld syðra, í Reykjavík og Hafnarfirði og voru að auki kynnt og seld um allt land. Efnivið til leikfangaframleiðslunnar fékk hann fyrstu árin frá Þýskalandi, aðallega tíst og bauldósir, sem notuð voru í dýrin, en þegar heimsstyrjöldin skall á var ómögulegt að nálgast efni og framleiðslan lagðist af.
 
Með 4–5 menn í vinnu
 
Verkstæði sitt rak Skarphéðinn á heimilum sínum, fyrst Oddagötu 7 og síðar Helgamagrastræti 2 sem hann byggði. Bæði fékk hann teikningar af leikföngum en hannaði einnig eigin leikföng. Þegar mest var umleikis í leikfangasmíðinni voru fjórir til fimm menn í vinnu hjá Skarphéðni. Yfir 60 mismunandi leikföng voru framleidd hjá Leikfangagerð Akureyrar. 
 
Þegar svo var komið að starfsemin hafði legið niðri í um eitt ár, 1942, tóku sig til tveir menn, Baldvin Leifur Ásgeirsson og Guðmundur Tryggvason, og stofnuðu nýja leikfangagerð undir heitinu Leifsleikföng, en hún var byggð á sama grunni og Leikfangagerð Akureyrar, Baldvin Leifur var bróðir Skarphéðins og hafði unnið hjá honum.  
 
Losað um innflutningshöft og plast ryður sér til rúms
 
Guðmundur hætti hjá fyrirtækinu 1952, Baldvin hélt áfram en smíðaði ýmsa aðra hluti með auk leikfanganna. Þegar losnaði um innflutningshöft og leikföng voru í æ meira mæli flutt til landsins brast grundvöllur fyrir framleiðslu leikfanga innanlands. Í ofanálag var plast að ryðja sér til rúms sem efniviður í leikföng og framleiðsla leikfanga úr því efni hófst hjá Reykjalundi. Sögu þessarar leikfangagerðar á Akureyri lauk árið 1960.
 
Þetta kemur fram í samantekt sem Guðbjörg Ringsted tók saman í tilefni af sérstakri sýningu á leikföngum frá Leikfangagerð Akureyrar og Leifsleikföngum í Friðbjarnarhúsi sumarið 2012.

 

19 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...