Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hafa fundið heitt og kalt vatn sama daginn
Mynd / TB
Viðtal 23. ágúst 2017

Hafa fundið heitt og kalt vatn sama daginn

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Það eru margir sem hafa heyrt Árna Kópssonar getið í gegnum tíðina í tengslum við alls kyns ævintýramennsku og svaðilfarir. Hann er atvinnukafari og starfaði sem slíkur um árabil í fjölbreyttum verkefnum, meðal annars við sprengingar í höfnum og ýmis björgunarstörf. Þá er hann landsþekktur torfærukappi en lengi vel keppti hann á torfærujeppanum Heimasætunni sem margir muna eftir. Nú rekur Árni fyrirtækið Vatnsborun ehf. þar sem meginverkefnin snúast um það að finna heitt og kalt vatn og bora rannsóknarholur. Árni og samstarfsmenn hans ferðast vítt og breitt um landið og hafa víða komið við, meðal annars hjá bændum á ystu annesjum og inn til dala.
 
Bændablaðið hitti feðgana Árna og Matthías Leó úti á Kársnesi í Kópavogi þar sem fyrirtækið hefur aðsetur. Það var heldur rólegt yfir Árna þar sem hann er þessa dagana að jafna sig eftir bílslys sem hann lenti í fyrr í sumar. Þrátt fyrir hryggbrot og fleiri skeinur bar Árni sig vel og telur sig hafa sloppið með skrekkinn. 
 
Borinn Klaki að störfum nálægt Gullfossi, trukkurinn er rússneskur Úral, árgerð 1985. Mynd / MLÁ
 
Hvað er þarna niðri í jörðinni?
 
„Ég byrjaði í borbransanum fyrir um 22 árum síðan þegar við boruðum fyrstu holuna. Það hafði alltaf heillað mig að vita nánar hvað væri ofan í jörðinni. Ég er frá Patreksfirði þar sem ekki er heitt vatn í iðrum jarðar og ég hef alltaf haft áhuga á vatni frá því ég man eftir mér. Fyrir mörgum árum síðan vann ég fyrir mann að nafni Jökull Ólafsson. Hann hafði verið viðloðandi laxeldisbransann í byrjun níunda áratugarins en borferill minn byrjar á því að ég eignaðist bormastur sem hafði verið í hans eigu. Ég smíðaði bor í kjölfarið sem við notuðum mikið í sprengivinnu og bergfestur og slíkt. Þegar Hagvirki fór á hausinn keypti Jökull bor af þrotabúinu sem ég keypti af honum síðar. Þann bor er ég með enn þann dag í dag og hef ferðast með um allt land. Bornum höfum við haldið við og alltaf haldið gangandi. Auk þess er fyrirtækið með þrjá aðra bora sem eru ólíkir af stærð og gerð og henta mismunandi verkefnum,“ segir Árni. 
 
Fyrst áhugamál með köfuninni
 
Þegar Árni byrjaði í borununum vann hann þau verkefni samhliða Köfunarþjónustu Árna Kóps ehf. sem hann rak um árabil. „Þetta var fyrst áhugamál með köfuninni. Síðan seldi ég meiripartinn úr fyrirtækinu árið 2006 og sný mér þá meira að boruninni og tengdum verkefnum. Við erum í ýmsum sértækum verkefnum, t.d. í sprengingum þar sem er eitthvað óvenjulegt við að eiga. Sonur minn, hann Matthías Leó Árnason, sér orðið að mestu um sjálfar boranirnar en ég er í alls kyns brasi sem tengist þessu.“
 
Fjölbreytt verkefni fyrir bændur
 
Stærsti viðskiptavinahópur Vatnsbor­unar er sumarbústaðaeigendur, minni sveitarfélög, orkufyrirtæki og fyrirtæki sem þurfa að nota mikið vatn í sínum rekstri. Töluvert af bændum hefur leitað til þeirra feðga en í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum þurftu þeir að endurnýja  og laga ótal vatnsból í Rangárvalla- og Skaftafellssýslu. Matthías Leó segir að bændur hafi lent í því að vatnsból hafi stíflast vegna öskunnar og skemmst „Vatnsból þornuðu upp og stífluðust því askan var svo fín. Við komum þá og boruðum holur fyrir bændur.“
 
Aðkoma hins opinbera ekki eins og áður
 
Heitavatnsleit er alltaf í gangi en Árni segir að ríkið hafi minnkað aðkomu sína að þeim verkefnum á seinni árum. „Það hafa ekki verið settir neinir peningar í vatnsleit líkt og áður var gert. Áður fengu landeigendur styrki til vatnsleitar og það munaði um það,“ segir Árni. Hann segir dýrt að leita eftir heitu vatni og menn gera  það fæstir upp á sitt einsdæmi.
 
Vatnsleitin oft happdrætti
 
Ferlið þegar landeigendur óska eftir því að fá borun á sínu landi er alla vega, segir Árni. „Stundum er þetta þannig að það eru boraðar tvær til þrjár holur og þær mældar. Ef það kemur út að hitinn er of lítill er farið annað en ef hitinn vex er haldið áfram að bora. Þetta er alltaf dálítið happa og glappa.“
 
Það er allur gangur á því á hvaða dýpi menn finna heitt vatn. Matthías segir að yfirleitt sé það allt frá 150 metrum og neðar en geti líka fundist á minna dýpi. Menn þurfa ekki að fara svo langt til að ná í kalt vatn. „Meðalstórt kúabú þarf um einn sekúndulíter af rennandi köldu vatni. Það er misjafnt á hvaða dýpi það næst. Mögulega á 15 metrum eða 115 metrum.“
 
Árni segir að dæmi séu um að menn hafi fundið heitt og kalt vatn sama daginn. „Það var sumarbústaðaeigandi í Landsveitinni nálægt Galtalæk sem vildi bæði fá heitt og kalt vatn. Við náðum í 63°C heitt vatn fyrir hann og alveg ísjökulkalt vatn sama daginn úr tveimur holum. Kalda vatnið var að mig minnir á um 17 metrum og heita vatnið á rúmum 20 metrum. Þetta er nú mjög sérstakt en svona getur gerst þar sem er mikið af köldu vatni og heitar æðar liggja um svæðið,“ segir Árni. 
 
Staðarval er mikilvægt
 
Staðarval fyrir borholur þarf vanda en Árni segir að þar ráði meðal annars vegalengdir og hversu auðvelt er að komast að þeim. Í flestöllum tilvikum eru teknar ákvarðanir um staði með verkkaupa og jarðfræðingum. 
 
Tæknin er frumstæð og vinnan eilíft bras!
 
Bortæknin sem Vatnsborun notar er gömul og eins frumstæð og hún getur verið að sögn Árna. „Hamrarnir hafa eitthvað þróast í gegnum tíðina en þetta byggist á því að inni í hamrinum er kólfur sem lemur á krónuna. Síðan er stór loftpressa sem sér um að blása niður í holuna og blása ruslinu upp. Við notum líka hjólakrónur en þá er vatn eða loft notað til að láta þær snúast. Þær eru helst notaðar í dýpri holum eða þar sem einhver vandræði koma upp á.
 
Við byrjum á því að fóðra holurnar með stálrörum frá yfirborðinu og niður að klöpp eða niður fyrir vatnsborð. Þau geta verið á bilinu 6 og allt upp í 14 tommur eða stærri í þvermál. Við höfum borað lengst með stærsta bornum okkar um 800 metra. Við leitumst við að leysa hlutina á sem hagkvæmastan hátt og með sem minnstu raski.“
 
Árni segir að það sé sífellt bras og alltaf komi eitthvað upp á í starfi bormannsins. „Það er algengast að lenda í jarðlögum sem hrynja saman og þá þarf að dæla steypu niður í holuna og halda svo áfram að bora. Svo slitna glussaslöngur og tæki bila eins og gengur,“ segir Árni en bætir við að í hefðbundnum vatnsholum, t.d. fyrir bændur og sumarhúsaeigendur, þá gangi verkin yfirleitt vandræðalaust. 
 
Borholur endast oftast mjög vel
 
„Í jarðskjálftum geta holur hrunið en það er nú ekki algengt. Ef bergið er gott þá endast þær von úr viti. Það kemur fyrir að holur kulni eða dragi að sér jarðveg eða önnur efni sem stífla þær. Stundum þarf að bora holur upp á nýtt og hreinsa þær. Þá er borað niður á botn og blásið úr þeim af miklu afli,“ segir Árni. 
 
Sum svæði betri en önnur
 
En er eitt svæði vinsælla en annað fyrir bormennina að vinna? 
„Já, það er auðveldast að bora eftir vatni á Vatnsleysuströnd! Þar leysir svo mikið vatn undan hrauninu.“ Árni segir að vissulega séu sum svæði auðveldari en önnur. Það hafi t.d. verið talið hæpið að ná heitu vatni við Vegamót á Snæfellsnesi þar sem fyrirtækið hafi náð 127 gráðu heitu vatni upp úr um 800 metra djúpri borholu. 
 
„Vatnið er lagt frá Vegamótum og í Miðhraun þar sem það var notað í hausaþurrkunina sem brann fyrir skömmu síðan.“ Feðgarnir rifja upp að vísbendingarnar um heitavatnsæðina hafi komið úr óvæntri átt. „Það kom huldukona úr Hafnarfirði og sagði við eigandann að þetta væri rétti staðurinn til að bora, þar væri orka. Það reyndist svo hárrétt hjá henni,“ segir Árni. 
 
Kostnaður er mjög breytilegur
 
Kostnaður við að leita eftir heitu og köldu vatni getur verið afar mismunandi eftir efni og aðstæðum. Árni segir að verðbilið geti verið allt frá hálfri milljón og upp í 17 milljónir, þegar hann tekur nýleg dæmi.„Algengast er að borun eftir heitu vatni kosti í kringum eina milljón króna, það eru svona hefðbundnar boranir við sumarbústaði og fyrir bændur. Það er eitt og eitt tilvik þar sem kemur eitthvað upp á en almennt gengur þetta vel. Sum staðar erum við líka að taka meira að okkur, setja niður rotþrær eða leggja lagnir. Við tökum ekki að okkur að fara inn í hús en leggjum upp að þeim þegar menn vilja.“
 
Frágangur við borholur er einfaldur að sögn þeirra feðga. „Það er í raun bara rör upp úr jörðinni og svo er settur hattur á endann á því. Dælan sjálf er ofan í holunni í flestum tilvikum og tækjabúnaður sem tengist nýtingu vatnsins er inni í húsi, t.d. þrýstikútur og pressustatíf sem kveikir og slekkur á dælunni.“ Að sögn þeirra er viðhald á dælunum einfalt. „Það er yfirleitt mjög lítið. Það kemur fyrir einstöku sinnum að það nuddast í sundur kapall og svo bila dælurnar sjálfar eins og gengur. Það eru til margar tegundir af dælum en við höfum mælt með Grundfoss-dælum sem hafa reynst mjög vel.“
 
Góður undirbúningur borgar sig
 
Árni segir að landeigendur geti búið í haginn og undirbúið vatnsleitina. „Það er um að gera að vera í sambandi tímanlega. Oft þegar bændur hafa samband þá eru þeir stundum orðnir eða að verða vatnslausir! Sumir fara hins vegar í það að bora til þess að vera öruggir, hafa jafnvel lent í vatnsleysi og ætla ekki láta það henda aftur. Þá er holan til staðar ótengd. Það er yfirleitt þannig að flestir bora bara einu sinni. Þeir eru þá búnir að vera að velta fyrir sér að bora í 2–3 ár jafnvel. Flestallir muna eftir því þegar kemur að þessum árstíma, þ.e. þegar þeir eru á leiðinni í frí og eru að hefja framkvæmdir við sumarbústaðinn sinn. Reyndar er alltaf að stækka hópurinn sem hefur samband með góðum fyrirvara og vill reyna að vinna þetta eins hagkvæmt og hægt er, t.d. spara sér flutning og fleira,“ segir Árni.
 
Erum allir svolitlir smákóngar
 
Aðspurður um það hvort menn sammælist um borholur til þess að lækka kostnað segir Árni það ekki svo algengt. „Við Íslendingar erum svolitlir smákóngar. Menn vilja eiga sína eigin borholu og sitja einir að henni. Ef farið er út í það að setja upp veitu, þar sem margir eru á sömu holunni, þá er kostnaðurinn og reksturinn öðruvísi. Þú þarft í raun að vera með mjög mörg hús svo það borgi sig. Rekstrarkostnaðurinn er meiri, t.d. þarf einhver að sjá um viðhald og menn að deila kostnaði. Oft er það erfitt að eiga borholur í félagi, t.d. þegar fólk selur bústaðina sína og nýir eigendur koma inn. Við erum búnir að heyra og sjá alla veganna sögur í þessum dúr í gegnum tíðina. Ég myndi segja að ef menn vilja hafa þetta í friði og hafa efni á því þá sé hentugra að eiga borholuna sjálfur á sínu landi. 
 
Það er stundum sagt að það sé auðvelt að veita vatn en erfiðara að þiggja það. Að þiggja vatn frá einhverjum öðrum sem getur skrúfað fyrir er snúnara. Þá ert þú undir nágrannanum kominn. Þetta skilja menn oft ekki fyrr en þeir hafa lent í einhverjum erfiðleikum.“
 
Mikil verðmæti falin í vatni og orku
 
Árni segir að það séu mikil verðmæti fólgin í orkunni sem margir bændur hafi aðgang að. Vatnið sé dýrmætt en það eigi ekki síður við um möguleika í rafmagnsframleiðslu þar sem víða er hægt að setja upp smávirkjanir. 
 
„Maður hefur á tilfinningunni að stóru fyrirtækin í rafmagnsgeiranum hafi takmarkaðan áhuga á því að bændur séu að byggja upp smávirkjanir. Það vantar að ýta mönnum út í þetta og hvatningin virðist ekki til staðar. Fyrir bændur geta verið mikil verðmæti fólgin í því að virkja bæjarlækinn. Þó t.d. 25 kW virkjun sé ekki mjög stór þá er það töluverð orka á ársgrundvelli sem hægt er að nýta í búskapinn og jafnvel selja inn á raforkunetið. Sama má segja um varmadælurnar. Þeir sem geta náð í 4-20  stiga heitt vatn og keyrt inn á varmadælu hafa töluvert upp úr því. Það eru mikil verðmæti falin í vatni og orku sem við eigum nóg af,“ segir Árni Kópsson að lokum.

Skylt efni: vatnsborun

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...