Bærinn okkar 05. mars 2020

Gamla Hraun 2

Á Gamla Hrauni 2 hefur verið búið nánast óslitið síðan við landnám. Hjónin Jón Ingi Jónsson og Jóhanna Sveinsdóttir keyptu jörðina árið 2009 sem hafði þá verið í eyði í nokkur ár og húsakostur var nánast að hruni kominn. 

„Við byrjuðum á að endurbyggja íbúðarhúsið og breyta gamalli hlöðu í fjárhús og fyrstu kindurnar komu þar inn haustið 2010. Við fluttum svo inn í íbúðarhúsið í júní 2011, en áður höfðum við stundað svínabúskap í 15 ár í Hrunamannahreppi og Ölfusi. Síðan 2011 höfum við svo verið að gera upp gamalt fjós, bátaskýli og eins hefur einn hrútakofi bæst við,“ segir Jóhanna.

Býli:  Gamla Hraun 2.

Staðsett í sveit:  Í Eyrarbakkahreppi hinum forna, sem heitir í dag Sveitarfélagið Árborg.

Ábúendur: Við hjónin Jón Ingi Jónsson og Jóhanna Sveinsdóttir, ásamt dætrum okkar, Maríu Eir 22 ára og Önnu Sigríði 20 ára og fósturbörnum.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): 6 manna fjölskylda, kettirnir Mollý og Torres og hundurinn Lubbi.

Stærð jarðar?  50 hektarar, þar af 15 hektara tún.

Gerð bús? Sauðfjárbú af minni gerðinni.

Fjöldi búfjár og tegundir? Í dag erum við með 40 kindur, 5 hross og 5 hænur. Við gerðum heiðarlega tilraun til að vera með geitur og ali grísi en það var ekki alveg að ganga upp þar sem þau voru með einbeittan brotavilja sem reyndi verulega á þolrifin hjá ábúendum.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnu­dagur fyrir sig á bænum? Hér er farið á fætur kl. 7 alla virka daga, en þá fer húsbóndinn til sinnar vinnu utan heimilisins og sinnir svo bústörfunum þess á milli. Frúin sinnir börnum og búi yfir daginn, en við erum líka fósturforeldrar, ásamt því er hún handverkskona og stendur vaktir í Gallerý Gimli á Stokkseyri. Svo fer það auðvitað eftir árstíð hvað verið er að gera á bænum en dagurinn er sjaldan nógu langur að okkar mati.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það er einfaldlega bara allt skemmtilegt sem viðkemur bústörfunum, en þó alltaf leiðinlegt að þurfa að fella dýr.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Ætli hann verði ekki bara svipaður og hann er, þó það eigi alltaf að fækka fénu á hverju hausti, en frúin fyllist alltaf valkvíða þegar velja á lífgimbrar og endar alltaf með of margar að mati bóndans. En svo stefnum við að því að fara út í skógrækt líka.

Hvaða skoðun hafið þið á félags­málum bænda? Við teljum að félagsmál bænda séu mjög mikilvæg og eigi þeir bestu þakkir fyrir sem þeim sinna.

Hvernig mun íslenskum land­búnaði vegna í framtíðinni? Okkur finnst slæm þróun að stöðugt sé verið að auka innflutning á erlendu kjöti og grænmeti. Einnig höfum við áhyggjur af framtíð hefðbundinna fjölskyldubúa sem gæti orðið undir í samkeppni við verksmiðjubúin.

Hvar teljið þið að helstu tæki­færin séu í útflutningi íslenskra búvara? Við teljum að helstu tækifærin í útflutningi íslenskra landbúnaðarafurða liggi í því að viðhalda hreinleika, heilbrigði og gæðum þeirrar vöru sem við framleiðum.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Mjólk, ostur, smjör og svo slatti af sultum og sósum.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambakjöt og fiskur.

Eftirminnilegasta atvikið við bú­störfin? Ætli það sé ekki bara þegar við sóttum fyrstu kindurnar okkar haustið 2010, en þær koma frá Hofi í Öræfum. Við lögðum af stað að morgni með fullan bíl af börnum og hestakerru en þegar komið var á Vík bilaði bíllinn en bóndinn á Hofi var svo almennilegur að koma á móti okkur með kindurnar og góður vinur okkar kom svo með annan bíl og kerru til Víkur til að flytja menn og dýr heim á Gamla Hraun.