17-26. september 2019

Námskeið um mengun - uppsprettur og áhrif

Á þessu námskeiði verður fjallað um undirstöðuatriði og meginstefnur í meðhöndlun úrgangs, bæði erlendis og á Íslandi. Farið er yfir grunnatriði í meðhöndlun úrgangs. Fjallað er um þróun í meðhöndlun úrgangs, lög og reglugerðir, skilgreiningar og hugtök, mismunandi leiðir og útfærslur til meðhöndlunar úrgangs sem og umhverfis- og samfélagsáhrif.

Lögð er áhersla á heildræna nálgun í meðhöndlun úrgangs og lagðar verða tengingar við aðila sem koma að málum. Fjallað verður um samvinnu í efnis- og vörukeðjum með því að markmiði að loka efnahringrás og koma þannig í veg fyrir að úrgangur myndist yfir höfuð. Farið verður inn í tengsl úrgangs- og orkumála, s.s. orkusparnaður sem getur orðið við hágæða endurvinnslu úrgangs í hringrásarhagkerfi.

Áhersla  er einnig lögð á verkefnavinnu bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni – framsetningu og kynningu, rökræna hugsun og aðferðafræði við lausn verkefna. Farið verður í skoðunarferð til móttökustöðvar fyrir úrgang.

Í seinni hlutanum verður fjallað um samspil líffræðilegs umhverfis og mengunar. Yfirlit verður gefið yfir gildandi lög og reglugerðir sem varða varnir gegn vatnsmengun. Eftirfarandi atriði koma m.a. við sögu:

  • Efnaferlar í náttúrunni  – helstu mengunarefni hér á landi og uppsprettur þeirra.
  • Áburðarefni, lífræn efni, gerlar, þungmálmar og þrávirk efni.
  • Ástand mála hvað varðar mengun hér á landi borið saman við önnur lönd í Evrópu og víðar.
  • Umhverfi og heilsa.
  • Vatn – vatnsgæði – vatnsnotkun og vatnsöflun – litlar vatnsveitur.
  • Fráveitur og skólp. Mismunandi leiðir í meðhöndlun á skólpvatni. Skólphreinsun í þéttbýli og dreifbýli. Ástand skólpmála á Íslandi borið saman við norðurlönd.
  • Starfsreglur um góða búskaparhætti.
  • Fjallað verður um nýstarlegar útfærslur varðandi meðhöndlun á ofankomuvatni, svokallaðar blágrænar lausnir.

Kennsla: Cornelis Aart Meijles umhverfisverkfræðingur og verkefnastjóri hjá Province of Fryslân í Hollandi – námskeiðið er kennt á íslensku.

Tími: Fyrri lotan: Þri. 17. sept (veferindi), fim. 19. sept, kl. 9:45-15:10, mán. 23. sept, kl. 9:45-15:10, þri. 24. sept, kl. 9:00-10:20 og fim. 26. sept, kl. 9:00-15:55. Seinni lotan verður frá 6.-15. nóvember. Í fyrri lotunni verður einni farið í vettvangsferð og er sú ferð skylda fyrir þá sem vilja fá inn einingamat fyrir námskeiðið. (56 kennslustundir). Kennt er í húsnæði LbhÍ á Hvanneyri en jafnframt boðið uppá áfangann í fjarnámi með frjálsri mætinu í kennslustundir, þó er skyldumæting í dagslanga vettvangsferð. Námskeiðið er á háskólastigi og má meta til 6 ECTS eininga.

Verð: 49.000kr (hugsanlegur kostnaður við gistingu, mat og vettvangsferðir er ekki innifalið í verði)

Þetta námskeið er kennt í staðarnámi við háskólabrautir Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeiðið er jafnframt kennt í gegnum fjarnám í gegnum kennsluvef skólans.

Á döfinni